Er byggðastefna á Íslandi?

Já, og ef hún hefði nafn kallaðist hún: Allir suður.

Mín skoðun er sú að byggðastefna á Íslandi sem lítur að landsbyggð­unum er veik. Það er enginn kraftur í henni og þetta eru allt of mikil plástravinna í stað alvöru breytinga. Hin raunverulega byggðastefna gengur vel og til marks um það búa um 80% íbúa landsins á höfuðborgarsvæðinu eða í klukkutíma keyrslu frá henni.

Í dag virðist mér að allt of margir telji að það sé náttúrulögmál að fólk flytji suður. Vegna þessa er í raun engin raunverulegur kraftur í því að byggja upp landsbyggðina og þá innviði sem þarf til svo fólk geti búið þar áfram og nýtt fólk flutt á svæðið. Ef eitthvað er byggt upp tengist það oft og iðulega uppbyggingu í stóriðju. Því er ekki skrítið að margir séu opnir fyrir slíkum framkvæmdum þótt þeim sé umhugað um umhverfið.

Það er frábært að búa út á landi þegar allt er í lagi en ekki þegar eitthvað kemur upp á eins og við sáum vel í óveðrinu sem gekk yfir fyrir skemmstu. Þá hrundu niður mikilvægir innviðir. Þetta sjáum við líka þegar fólk út á landi glímir við langvinn veikindi. Þá getur kostnaður fjölskyldna hlaupið á milljónum við að sækja þá þjónustu suður. Vegna kostnaðar gefst fólk upp og færir sig nær þjónustunni sem hefur markvisst verið skorin niður og flutt suður.

Ég get ekki séð annað en að ákvarðanir um byggðamál séu teknar af fólki í ráðuneytum og ríkisstofnunum sem allt býr á höfuðborgar­svæðinu og skilur ekki hvernig er að búa út á landi, áttar sig ekki á vandamálum né tækifærum sem þar eru. Þetta er ekki vont fólk en það finnur ekki á eigin skinni hvað aðstöðu- og þjónustuleysið er slæmt. Þetta fólk heyrir af vandamálum landsbyggðarinnar en þær fáu raddir sem það heyrir drukkna í daglegum samræðum þeirra við fólk á sínu heimasvæði.

Það þýðir ekkert að byggja upp innviði út á landi á þeim hraða sem það er gert í dag. Það þarf massífa innspýtingu fjárfestinga og alvöru plan fyrir kjarnasvæði hvers fjórðungs, ef það er ætlun okkar að halda þeim almennilega í byggð. Meðan þetta áhugaleysi viðgengst eykst bilið milli landsbyggðar og höfuðborgar. Það er slæmt fyrir alla. Við horfum á höfuðborgina og svæðið næst henni þenjast út sem skapar alls konar vandamál m.a. á húsnæðismarkaði og í samgöngum meðan á landsbyggðunum ríkir svo gott sem stöðnun í nýbyggingu.

Á þessu er ein undantekning og það er Akureyri. Þar hefur tekist að byggja upp bæ með þjónustu, afþreyingu og aðstöðu sem gerir Akureyri og nágrenni á áhugaverðum stað til búsetu. Akureyri er í raun skólabókardæmi um það sem þarf að gerast á Vestfjörðum og Austurlandi.

Það verða að vera sterk kjarnasvæði í hverjum fjórðungi sem eru samkeppnishæf um fólk og fyrirtæki, fjölmennari kjarnasvæði sem næra nærliggjandi byggðir. Það þarf því að fjárfesta í þessum kjarnasvæðum og þannig breyta aðstæðum svo þau megi vaxa og dafna. Við erum að tala um göng, vegi og bætt net- og raforkukerfi ásamt niðurgreiðslu á innanlandsflugi sem strax gerir aðgengi að sameiginlegri þjónustu í höfuðborginni betra. Þetta mun valda því að hingað mun flytja fleira fólk sem fjölgar þeim sem krefjast betri þjónustu og aðstöðu.

Síðustu 30-40 ár hefur fólki, þjónustu og aðstöðu verið stefnt suður. Fjöldi fólks á höfuðborgarsvæðinu og næsta nágrenni segir allt sem segja þarf. Ójafnvægið er orðið algjört. Eins og við vorum minnt á í síðasta óveðri er íslensk náttúra ekkert lamb að leika sér við, en þetta hefði getað verið mikið verra. Við hefðum getað verið að tala um vont veður, eldgos og jarðskjálfta á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að það er frekar ólíklegt að þetta gerist allt á sama tíma, en ef þetta gerist og það þarf að flytja heila borg, hvert á hún þá að fara?

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.