Er framtíðin heima?

Við heyrum sífellt talað um að Reykjavík sé í samkeppni við aðrar borgir. Það þýðir að Reykjavík verður að vera eftirsóknarverð fyrir fólk og fyrirtæki, þannig að ungt menntað fólk kjósi frekar að lifa þar og vinna heldur en utan landsteinanna.

Það gæti þótt einkennilegt að skrifa grein um framtíð Vopnafjarðar og byrja á því að tala um Reykjavík, en það er ekki að ástæðulausu. Það sama á nefnilega við um Vopnafjörð; sveitarfélagið er í samkeppni um fólk. Það þarf að vera ákjósanlegt og eftirsóknarvert að flytja til Vopnafjarðar frekar en til annarra staða. Fyrir fólk sem vill koma sér fyrir í okkar fallegu byggð er mikilvægt að sveitarstjórn sýni vilja í verki til þess að laða að íbúa með því að gera samfélagið okkar betra og hafa einnig skýra framtíðarsýn.

Ef við sköpum framúrskarandi umhverfi og lífsgæði fyrir íbúa eru meiri líkur á að sveitarfélagið laði að sér bæði fleiri einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Framtíðarsýn hefur skort hjá síðustu sveitarstjórnum, dæmi um það er aðgerðarleysi í húsnæðismálum, algjört metnaðarleysi hefur ríkt í uppbyggingu íþróttamannvirkja, litlar aðgerðir í ferðamannamálum hafa átt sér stað og hefur þrýstingur sveitarstjórnarinnar á stjórnvöld til að gæta hagsmuna Vopnafjarðar verið í besta falli, dapurlegur.

Það er hægt að bölsótast um hvað er má betur fara, en það skilar litlu. Lykilspurningin er: Hvað getum við gert betur?

- Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er sterk og við eigum ekki að vera hrædd við fjárfesta annars drögumst við aftur úr. Skuldir A og B hluta er 52% af tekjum og lögum samkvæmt má sveitarfélagið ekki skulda meira en 150% af tekjum, þannig að staðan er góð, og nægt svigrúm til framkvæmda. Í ljósi þess er tækifæri til þess að ráðast í metnaðarfulla uppbyggingu í íþróttamannvirkjum, okkur jafnaðarmönnum þykir skynsamlegt að sú uppbygging fara fram við knattspyrnuvöllinn. Klefar fyrir íþróttavöll, aðstaða fyrir Einherja og sundlaug ættu að vera forgangsmál, og er fram líða stundir gæti jafnvel komið gervigras og nýtt íþróttahús á sama svæði.

- Uppbygging leiguhúsnæðis ætti að vera forgangsmál enda greinilegt að það er markaðsbrestur þar sem skortur er á húsnæði á sama tíma og það borgar sig ekki að byggja. Ég tel að ný sveitarstjórn ætti að sýna frumkvæði og hefja uppbyggingu á íbúðum.

-Sveitarfélagið verður fara í átak í upplýsinga- og kynningarmálum. Ráða verður manneskju í starf við það að kynna sveitarfélagið okkar og alla þá fjölmörgu kosti og tækifæri sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða bæði fyrir ferðamenn, fyrirtæki og einstaklinga.

-Næsta sveitarstjórn verður að þrýsta á stjórnvöld að fullum þunga að hefja undirbúning á göngum sem tengja Vopnafjörð við Fljótsdalshérað, það er ein af lykilforsendum þess að hægt sé efla atvinnulíf á Vopnafirði. Stjórnsýslan og verkefni hins opinbera þurfa ekki öll að vera á höfuðborgarsvæðinu, sveitarfélög eins og Vopnafjörður verða að vera miklu ákveðnari í að opinber störf séu einnig til staðar út á landi.

Með þessi fjögur markmið að leiðarljósi getum við stuðlað að samkeppnishæfari, fjölbreyttari, og skemmtilegri Vopnafirði, sem við öll getum notið og verið stolt af. Því ættu þessi markmið að verða algjör forgangsmál fyrir næstu sveitarstjórn, með skýrri framtíðarsýn og skipulögðum aðgerðum getum við stuðlað að frábærum Vopnafirði um ókomna tíð.

Tómas Guðjónsson
10. sæti á lista Samfylkingarinnar á Vopnafirði


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar