Er Reykjavík höfuðborg allra landsmanna?

Flugvöllurinn í Vatnsmýri þjónar mikilvægu hlutverki sem miðstöð innanlandsflugs og sem slík skiptir staðsetning og umgjörð flugvallarins miklu máli. Enn mikilvægara er þó hlutverk flugvallarins sem miðstöð sjúkraflugs í landinu, en þar er um brýnt öryggismál landsmanna að ræða. Uppbygging á nýju bráða- og háskólasjúkrahúsi fer nú fram við Hringbraut.

Það er lykilatriði að flugvöllurinn, þar sem sjúkraflugvélar lenda með bráðveika sjúklinga, sé staðsettur nálægt okkar sérhæfðustu bráðaheilbrigðisþjónustu á landinu. Sérstaklega þar sem nauðsynleg bráðaþjónusta er illu heilli sjaldnast í boði í heimabyggð á landsbyggðinni. Reykjavíkurborg er því að bregðast hlutverki sínu sem höfuðborg allra landsmanna þegar yfirlýst markmið hennar er að flytja innanlandsflugvöll okkar allra burt úr Vatnsmýrinni.

Aðför Reykjavíkurborgar að innanlandsflugi

Fyrirætlanir Reykjavíkurborgar um þvingandi aðgerðir gegn flugfélaginu Erni, sem hefur í áratugaraðir sinnt innanlandsflugi og sjúkraflugi með myndarbrag, eru með öllu óásættanlegar. Fyrirhugað var að taka viðhaldsstöð félagsins eignarnámi og rífa niður til að greiða fyrir veglagningu án þess að greiða bætur fyrir. Þegar fyrirtæki sem gegnir veigamiklu samgönguhlutverki á landsvísu stendur frammi fyrir einu erfiðasta rekstrarári í sögu fyrirtækisins lagði Reykjavíkurborg til enn frekari atlögu gegn starfsemi þess.

Það ætti öllum að vera ljóst að Reykjavíkurflugvöllur hefur í gegnum tíðina verið ákveðinn þyrnir í augum Reykjavíkurborgar og kysi hún að flytja flugvöllinn annað enda landsvæðið í Vatnsmýrinni eftirsótt og verðmætt. Nýleg framkoma meirihlutans í borginni gagnvart flugrekstraraðila er hins vegar svívirðilegt skref að því markmiði.

Landsbyggðinni fórnað fyrir hag Reykjavíkurborgar

Hugmyndir um flutning Reykjavíkurflugvallar voru raunhæfar á sama tíma og staðsetning nýs Landspítala var óráðin. Bráða-, skurð- og fæðingarþjónusta hefur víða um land verið skert eða lögð niður í hagræðingarskyni eða undir því yfirskyni að sérhæfða bráðaþjónustu beri að veita þar sem helstu sérfræðingar landsins eru að störfum. Það er því grunnforsenda að miðstöð innanlandsflugs sé í seilingarfjarlægð frá slíkri sérhæfðri bráðaþjónustu svo að allir Íslendingar eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita líkt og lög kveða á um. Í bráðatilfellum er ljóst að hver mínúta skiptir máli og vegalengdir milli innanlandsflugvallar og bráðasjúkrahúss eru lífspursmál. Það er óumflýjanleg staðreynd sama hversu óþægileg andstæðingum flugvallarins í Vatnsmýri þykir hún.

Þegar skóflustunga var tekin í lok ársins 2018 og uppbygging hófst á nýju þjóðarsjúkrahúsi Landspítalans var nauðsyn staðsetningar innanlandsflugvallar í Vatnsmýri fest í sessi. Að öðrum kosti væri verið að fórna heilsu og öryggi íbúa og ferðamanna á landsbyggðinni.

Sterk landsbyggð er allra hagur

„Þið veljið að búa þarna“ eru kjörorð þeirra sem hafa takmarkaða þekkingu á mikilvægi sterkrar landsbyggðar. Mikilvægi dreifðar búsetu um víðfeðmt landið hefur sjaldan verið jafn augljóst og einmitt við þær krefjandi aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í dag. Með frekari þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu og fjölgun íbúa stendur borgin frammi fyrir vaxandi samgönguvandamálum. Jafnframt eykst samkeppni um störf á höfuðborgarsvæðinu, um grunnþjónustu á borð við leikskólapláss, heilbrigðisþjónustu eða hreinlega að komast á kassa síðdegis á föstudegi í næstu kjörbúð.

Það má leiða líkum að því að lokun á Hreiðrinu, fæðingarþjónustu við Landspítalann, hafi t.a.m. orðið í beinu samhengi vegna vaxandi álags á fæðingardeild Landspítalans í kjölfar skertrar fæðingarþjónustu við landsbyggðina. Samkvæmt ársskýrslum Landlæknisembættisins um barnsfæðingar hefur fæðingum á fæðingarstöðum á landsbyggðinni fækkað um 30% á undanförnum áratug. Það að skera niður þjónustu á landsbyggðinni þýðir nefnilega ekki að þörfin á þjónustunni hverfi.

Skorum á Reykjavíkurborg að láta sér annt um hagsmuni landsbyggðar

Undirritaðir kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins úr öllum landsfjórðungum skora á meirihluta Reykjavíkurborgar að láta af fyrirætlunum sínum á flugvallarsvæðinu sem munu þrengja enn frekar að starfsemi flugvallarins í Vatnsmýrinni. Við skorum á Reykjavíkurborg að tryggja óskerta starfsemi flugvallarins, fagna mikilvægu hlutverki hans sem miðstöð innanlands- og sjúkraflugs og styrkja uppbyggingu hans með ráðum og dáð í stað þess að leggja í sífellu steina í götu hans.

Við skorum jafnframt á Reykjavíkurborg að axla ábyrgð sína sem höfuðborg allra landsmanna. Það hlýtur að vera sameiginlegt hagsmunamál allra, ríkis og sveitarfélaga, að tryggja öruggar samgöngur til höfuðborgarinnar, auka ferðafrelsi en um leið tryggja jafnan rétt Íslendinga að bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni. Saman getum við meira.

Berglind Harpa Svavarsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Fljótsdalshéraði
Hafdís Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ
Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum
Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.