Er samstarf heimila og skóla falin auðlind?
Að búa börnum gott námsumhverfi er verðugt verkefni en þáttur náms í velferð einstaklinga og samfélagsins verður sífellt þýðingarmeiri. Margir hafa nýtt sér það umbreytingaskeið sem við nú göngum í gegnum til að bæta við sig námi en nám þarf ekki endilega að felast í því að setjast á skólabekk. Við getum tekið okkur fyrir hendur ný viðfangsefni sem svo sannarlega geta eflt okkur sjálf sem einstaklinga og skilað þjóðhagslegum ávinningi.
Um allt land vinna foreldrar sjálfboðaliðastörf í skólasamfélaginu hvort heldur er á vegum foreldrafélaga, í skólaráðum eða skólanefndum. Ótalin eru þá öll þau störf sem bekkjarfulltrúar foreldra leggja af mörkum í þágu bekkjarins.Væru þessi störf metin til fjár eða tekin inn í þjóðhagsreikninga mætti eflaust sjá þar nýjar tölur. Sjálfboðaliðastörf í þágu barna og unglinga eru ómetanleg hvort heldur það tengist skólum, íþróttum eða annarri frítímaþjónustu.
Landssamtök foreldra vilja þakka öllum sem lagt hafa samstarfi heimila og skóla lið og þakka öllum þeim foreldrum sem nú sem endranær hafa lagt af mörkum ómældar stundir með virkri þátttöku í skólasamfélaginu t.d. við að auka félagslíf og samstarf meðal nemenda, kennara og foreldra. Stuðningur foreldra við skólastarfið skilar sér margfalt til baka í betri líðan og bættum námsárangri barnanna. Að foreldrar og kennarar vinni saman að velferð nemenda skilar sér í bættu samfélagi og heillavænlegri uppvaxtarskilyrðum barna. Hvað er það annað en forvarnir og falin auðlind?
Í hádegisfyrirlestri hjá ÍSÍ fyrir nokkru (april 2007) hélt Þórdís Gísladóttir fyrirlestur um hagrænt gildi íþrótta í íslensku samfélagi sem byggðist á rannsóknum Þórdísar þar sem hún tók saman vinnuframlag sjálfboðaliða í stjórnum og nefndum íþróttahreyfingarinnar. Taldi hún heildarvirði sjálfboðaliðastarfsins vera 7-8 milljarða á ári. Ætla má að sú tala verði ekki lægri séu tekin saman öll þau dagsverk sem unnin eru á vettvangi foreldrasamstarfs í skólum. Hægt er að nálgast glærur Þórdísar og fyrirlestur hennar á heimasíðu ÍSÍ.