Er SSA tímaskekkja?
Nú líður að næsta ársþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Samtökin voru stofnuð árið 1966 og þá samanstóðu þau af um 20 sveitarfélögum. Á þeim tíma höfðu sveitarfélög hér fyrir austan virkilega þörf fyrir vettvang þar sem hægt var að vinna að framgangi sameiginlegra hagsmunamála enda voru sveitarfélögin þá mörg og máttlítil en sameinuð voru þau sterkari. Þá voru samgöngur stopulli, hringvegurinn ekki kominn til sögunnar og tæknin ekki með þeim hætti að forsvarsmenn sveitarfélaga gætu haft samskipti við opinberar stofnanir eins og nú tíðkast.Nú er staðan önnur. Sveitarfélögin eru orðin færri og stærri, sjö talsins og líklegt er að þeim fækki og þau stækki enn frekar en nú er orðið. Forsvarsmenn þeirra eru í daglegum samskiptum við opinberar stofnanir og varla líður sú vika að austfirskir sveitarstjórnarmenn séu ekki staddir í Reykjavík til þess að leysa úr ýmsum verkefnum, hitta ráðamenn og vinna á einn eða annan hátt að uppbyggingu síns sveitarfélags.
Ef ég leiði hugann að því hvað SSA hefur gert fyrir minn heimabæ dettur mér ekkert í hug. Á ársþingum SSA eru lagðar fram ályktanir sem ætlaðar eru stjórnmálamönnum til að bregðast við. Nú hef ég lesið nokkrar af þeim ályktunum sem liggja fyrir komandi þingi og orðalag margra þeirra benda til þess að mikið hafi verið talað en lítið sagt og að verið sé að sætta ólík sjónarmið þannig að úr verður einhver moðsuða sem segir ekki neitt og mun engu breyta. Eins eru þarna ályktanir þar sem óskað er eftir fjármunum í hin ýmsu verkefni hér fyrir austan og ef sá óskalisti er lagður saman kostar hann hundruð milljarða og það sér það hver maður að ríkið er ekki að fara að leggja slíkar fjárhæðir af mörkum á næstunni.
Það hvarflar líka stundum að manni að SSA sé stundum farið að vinna gegn sjálfu sér en á þessum þingum hefur það ítrekað hent að sveitarstjórnarfólk fer í einhverskonar hanaslag þar sem hver og einn er að berjast fyrir hagsmunum síns sveitarfélags í stað þess að horfa á hagsmuni alls Austurlands. Nægir í því sambandi að nefna samgöngumál. Auðvitað er nauðsynlegt að takast á um ýmis mál og ræða þau frá sem flestum hliðum en með þessu fyrirkomulagi er hætta á því að sú umræða fari úr böndunum. Tíminn og peningarnir sem fara í alla þessa umræðu og fundi eru samt varla þess virði.
Með þessum máttlitlu en dýru ályktunum og ósamstöðu innan SSA eiga svo pólitíkusarnir mjög auðvelt með að vera stikkfrí en geta notað tækifærið til að mæta á ársþingið og dettíða.
Það er því ef til vill kominn tími til að leggja SSA niður og ganga á sama tíma alla leið í sameiningum sveitarfélaga með því að sameina allt Austurland í eitt sveitarfélag. Þannig yrðum við Austfirðingar sterkastir og hagsmunum okkar best borgið með þeim hætti.
Höfundur býr á Djúpavogi