Er þörf fyrir vindmyllur við Héraðsflóa?

Um árið voru hugmyndir Orkusölunnar um tilraunamöstur í Hjaltastaðaþinghá kynntar á íbúafundi í Hjaltalundi. Tilraunirnar yrðu vegna hugsanlegra vindmylla í landi Klúku og Hóls.

Meðal annarra sté fulltrúi sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs í pontu. Persónulega skoðun hans væri sú að áður en lengra yrði haldið með áætlanir um vindmyllur eða vindorkugarða þyrfti að endurskoða aðalskipulag. Sérstaklega yrði að skoða hvaða svæði innan sveitarfélagsins hentuðu til vindorkuframleiðslu.

Sú von kviknaði í mér og fleirum að sveitarstjórn myndi gaumgæfa orkuvinnsluframkvæmdir vel áður en farið yrði í þær innan sveitarfélagsins. Skipulagsstofnun hafði þá þegar gefið út leiðbeiningablað um skipulag og vindorkunýtingu, þar sem kynntar eru aðferðir við slíka skipulagsvinnu og mælst til að sveitarfélög nýti sér þetta verkfæri. Í því felst möguleiki á samræmingu í aðferðum og mælikvörðum milli landshluta og umtalsvert minni kostnaði. Ekki síst gætu þessar aðferðir komið í veg fyrir að gullgrafaraæði rynni á raforkuframleiðendur.

Þörf og áform

Því miður virðist slík æði hafa samt gripið um sig varðandi vindorkuframleiðslu og náð yfirhendi í skipulagsmálum sveitarfélaga bæði hér og víðar. Nýverið samþykkti sveitarstjórn Múlaþings að breyta aðalskipulagi við Lagarfoss með það fyrir augum að Orkusalan fengi leyfi til að breyta deiliskipulagi. Markmiðið væri að reisa allt að 200 m háar vindmyllur við Lagarfoss. Að því best verður séð er réttlætingin orkuskipti, orkuþörf og öflun „grænnar“ orku. Hér er grænþvotti orkugeirans ætlað að slá ryki í augu almennings og hræða hann til að trúa því að án framkvæmda muni orkuskortur koma í veg fyrir orkuskipti og framþróun.

Í raun er Ísland ekki á vonarvöl í þessum efnum enda með yfir tvöfalt meiri raforkuframleiðslu á íbúa en næsta land á eftir. Og enn hefur ekki verið skýrt hve mikillar orku er þörf vegna orkuskiptanna. Á það bendir framkvæmdastjóri Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, í Vísi þann 13. október síðastliðinn og kallar eftir greiningu á orkuþörfinni. Samhliða fullyrðir forstjóri Orkustofnunar að sú orka sem þegar er framleidd muni duga langt án frekari virkjunarframkvæmda. Það sem við vitum fyrir víst er að 80% af innlendri orkuframleiðslu er nú nýtt af erlendum stóriðjufyrirtækjum.

Í áfangaskilum Orkustofnunar til verkefnisstjórnar fjórða áfanga rammaáætlunar koma fram áform orkufyrirtækja um allt að 355 MW orkuframleiðslu á Austurlandi þ.e. í landi Klaustursels, á Þorvaldsstöðum og í Hamarsá. Álíka mikið rafmagn á að framleiða norður við Langanes og á Melrakkasléttu. Við þetta bætast svo áform um 9,9 MW virkjanir sem eru utan rammaáætlunar, m.a. Geitdalsvirkjun, Gilsárvirkjun, Kaldárvirkjun, Kaldakvíslarvirkjun, Bessastaðaárvirkjun og virkjun á svæði Ódáðavatna. Nú þegar hefur verið gefið út til Arctic Hydro framkvæmdaleyfi í Þverá af hálfu Vopnafjarðarhrepps.

Hver er fórnarkostnaðurinn?

Með tilliti til þessa alls er spurt: til hvers á að umturna ásýnd alls Úthéraðs og víðar með uppsetningu tveggja vindmylla sem bæta örlitlu við annað sem í farvatninu er? Ef raunveruleg þörf reynist vera fyrir þessa smáviðbót mætti auka framleiðslugetu annarra fyrirhugaðra vindorkugarða og fría Héraðsflóann allan. Umræddar Lagarfossvindmyllur verða allt að 5 MW hvor um sig samkvæmt lýsingu, en hæðin líklega frá 150 m í allt að 200 m hæð. Því munu þessi ferlíki blasa við um víðáttur Héraðs, jafnvel úr 40 - 50 km fjarlægð og ljós þeirra blikka bæði dag og nótt.

Spaðar slíkra risavaxinna vindmylla munu koma niður á fuglalíf þar sem er skráð alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Framkvæmdir við reisingu vindmylla kalla strax á meira jarðrask en flestir gera sér grein fyrir, þar á meðal efnistöku, vegagerð og þungaflutninga vegna byggingar undirstöðu og púða. Þetta hefur í för með sér umtalsverða losun gróðurhúsalofttegunda. Stórar vindmyllur hafa áhrif á veðurfar á nærsvæðinu, á gróður og annað lífríki, hljóðmengun skapast sem og urðunarvandi m.a. vegna óendurnýtanlegra spaða sem hafa tiltölulega skamman líftíma. Allt þetta vegna 10 MW í viðbót við hin 355 MW af orku í 4. rammanum, auk á fimmta hundrað MW í áætlun annars staðar á austurhluta landsins, sem enginn hefur sýnt fram á með rökum að þörf sé fyrir.

Eru þessi náttúruspjöll á svæðinu virkilega ásættanlegur fórnarkostnaður? Réttast væri að spyrja unga fólkið að því. Þau eiga að erfa landið en það lítur út fyrir að arfurinn verði Austurland án ósnortinna víðerna þar sem orkumannvirki í eigu erlendra aðila beisla alla þá orku sem græða má á. Þrátt fyrir það verður um nánast enga atvinnusköpun að ræða og einungis smáræði til samfélagssjóða i formi fasteignaskatta.

Orkusparnaður frekar en aukin framleiðsla?

Lok áðurnefndrar greinar framkvæmdastjóra Samorku er svohljóðandi: „Verkefnið er að uppfylla þörf fyrir græna orku sem kallar á sem minnst áhrif á landið okkar. Lausnin felst í orkusparnaði, bættri orkunýtni, öflugri orku- og veituinnviðum og aukinni framleiðslu grænnar orku.“ Tillaga talsmanns orkuframleiðenda er sem sagt að fyrst verði farið í orkusparnað, því næst bætta orkunýtni, síðan eflingu orku- og veituinnviða og að lokum aukna orkuframleiðslu þegar og ef þörf er á. Það er ljóst að sveitarstjórn Múlaþings ætlar að byrja á röngum enda. Þörfin fyrir þessa viðbótarorku er óljós, efnahagslegur ávinningur er lítill en náttúrulegt tap mikið og að hluta óendurkræft.

Ef ráðamenn hyggjast nú hressa upp á erfiða fjárhagsstöðu sveitarfélagsins með tímabundinni aukningu á fjárstreymi og aumlegum skatttekjum verður að kalla það að pissa í skóinn sinn. Óafturkræf umhverfisspjöll og tilefnislaus kolefnislosun sem almenningi verður gert að jafna á ekki að leyfast á þeim tímum sem við lifum nú.

Höfundur er íbúi á Úthéraði og formaður NAUST, Náttúruverndarsamtaka Austurlands.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar