Erum við að gera eins vel og við gætum?
Hvert og eitt okkar hefur takmarkaðan tíma á jörðinni. Við erum óendurnýjanleg auðlind og það er skylda okkar að skilja eftir betri lífsskilyrði fyrir þá sem á eftir okkur koma.Hér í Fjarðabyggð búum við í litlu samfélagi, í öruggu landi og höfum í raun allt til alls. Horfið bara í kringum ykkur. Við erum á hápunkti siðmenningarinnar og njótum meiri forréttinda en nokkurt samfélag í sögu mannkyns hefur gert. Á Íslandi og í Fjarðabyggð hafa allir aðgang að hreinu vatni, rafmagni, fjarskiptum,upplýsingum, menntun, matvælaöryggi er tryggt og mannréttindi eru virt. Yfir hverju eigum við eiginlega að kvarta? Kannski ættum við bara ekkert að vera að kvarta og reyna frekar að vera betri fyrirmyndir fyrir aðra.
Í hvert sinn sem ég les, heyri eða sé einhvern gagnrýna það samfélag sem við erum svo lánssöm að búa í, þá renna alltaf í gegnum huga minn þessar vangaveltur hér að ofan. Þær eru fullkomlega eðlilegar og eiga rétt á sér. Mín skoðun er samt sú að það sé einmitt vegna allra okkar forréttinda,velmegunar og lífsgæða sem við erum beinlínis skyldug til þess að gagnrýna stöðugt og hvetja alltaf til frekari framfara.
Gríðarlega miklu hefur verið kostað til svo að við getum búið við þær aðstæður sem við búum við. Við berum því ábyrgð á að tryggja að komandi kynslóðir eigi möguleika á því að gera enn betur.
En hvernig gerum við það ? Fyrsta skrefið er að opna augun og horfa í kringum okkur. Spyrja okkur spurninga eins og þessara : Erum við að byggja upp samfélag sem gefur öllum aðgang að sömu tækifærum ? Erum við að leggja grunn að áframhaldandi velmegun og tryggja að við séum örugg ? Erum við að ganga vel um náttúruna og umhverfið þannig að skilyrði til búsetu verði betri en þegar við komum í heiminn? Erum við að rétta hjálparhönd til þeirra sem hana þurfa? Förum við að sofa á kvöldin vitandi það að við gerðum meira gagn en ógagn þann daginn?
Hver og einn verður að svara fyrir sig en fyrir mig eru svörin augljós. Við verðum að gera öllum börnum kleift að læra sér til gagns og ná þannig fótfestu í lífinu. Stelpur og strákar eiga að fá öll sömu tækifærin en við þurfum líka að tryggja að einstaklingurinn uppskeri eins og hann sáir. Við eigum að styðja við fjölbreyttari atvinnumöguleika og tryggja þannig að allir geti lagt sig af mörkum. Við eigum að krefjast þess af ríkisvaldinu að það raunverulega bæti löggæslu og heilbrigðisþjónustu. Við eigum að planta fleiri trjám, nota minna plast og endurvinna meira. Við eigum að bjarga fólki úr ömurð og stríði og auðga mannlífið okkar og við eigum að hafa hugrekki til þess að rífa niður ónýt kerfi sem deyfa þá sem líður illa í staðinn fyrir að koma þeim til bjargar. Við eigum að ákveða að gera betur á morgun en í dag og þá fáum við góðan nætursvefn.
Höfundur skipar 6.sæti framboðslista Fjarðalistans fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018.