Eyja guðanna hefur nýtt ár á krossgötum

Nýársdagur var á Balí í gær í samræmi við Saka dagatalið sem er annað tveggja dagatala sem stuðst er við á Eyju guðanna eins og Balí er jafnan kölluð, en hindúar eru í miklum meirihluta af rúmum fjórum milljónum íbúa eyjarinnar. Alla jafnan eru dagarnir fyrir nýársdag undirlagðir af trúarlegum hátíðarhöldum en í ár kveður við annan tón. Í kjölfar Covid-19 var dregið verulega úr öllum slíkum hátíðarhöldum þótt að héraðsstjórnin á Balí hafi heimilað bænasamkomur.

Krúnudjásn ferðaþjónustunnar

Rúmar 6 milljónir farþega fóru um alþjóðaflugvöllinn á Balí í fyrra sem gerir eyjuna að vinsælasta ferðamannastað Indónesíu – og skildi engan undra. Hér má finna allt sem hugurinn girnist fyrir sólþyrsta ferðalanga, en þrátt fyrir að vera fremur lítil að stærð (tæp 6% af stærð Íslands) býður eyjan upp á mikla fjölbreytni. Hér er fjöldinn allur af fallegum baðströndum, regnskógar sem iða af dýralífi, eldfjöll og allskyns afþreying fyrir þá sem það kjósa.

Undanfarin ár hefur færst í aukana að ungir Balíbúar flytji til ferðamannastaðanna í atvinnuleit á sama tíma og foreldrar þeirra hafa selt hrísgrjónaakrana til fasteignaþróunarfélaga. Áhættudreifing hagkerfisins er ekki mikil í ljósi þess að sífellt fleiri hafa veðjað á ferðaþjónustuna. Ferðamenn eru hryggjarstykkið í efnahag eyjunnar en nú er svo komið að um 80% vergri landsframleiðslu hennar er tilkomin vegna ferðaþjónustu. Lágmarkslaun eyjaskeggja eru um 20.000 krónur á mánuði en þeir sem eru í hálaunastörfum þéna um 70.000 krónur á mánuði.

Óveðurský hrannast upp

Þrátt fyrir Covid-19 jókst fjöldi ferðamanna til Balí fyrsta mánuð ársins miðað við fyrra ár en dróst saman um 20% í febrúar í kjölfar ferðabanns á þá sem höfðu verið í Kína undandarna 14 daga. Síðan þá hefur margt breyst í kjölfar veirunnar og eyjan hefur svo gott sem tæmst af ferðamönnum. Næstkomandi föstudag verður svo vegabréfsáritunum fyrir ferðamenn hætt á flugvöllum landsins sem mun í raun endanlega loka fyrir komur þeirra – ef einhverjar eru.

Ferðaþjónusta á Balí hefur áður gengið í gegnum erfiða tíma; árið 1988 áttu sér stað óeirðir sem höfðu mikil áhrif á ferðaþjónustuna, hryðjuverkaárásir voru gerðar á eyjunni árin 2002 og 2005, fjármálahrunið 2008 setti strik í reikninginn og árið 2017 gaus svo eldfjallið Mount Agung sem setti allt úr skorðum. Það sem eftirköst þessara atburða áttu þó sameiginlegt var að ferðaþjónustan á eyjunni kom tvíefld til baka með tilheyrandi aukningu í fjölda ferðamanna.

Nú er hins vegar óttast að annað kunni að vera upp á teningnum. Enginn veit í raun hversu lengi ástandið vegna Covid19 muni vara sem mun reynast stór áskorun fyrir íbúa eyjunnar. Hér er algengt að fólk þurfi að lifa á launum sínum dag frá degi, í mörgum tilfellum á tæpum 700 krónum á dag eða minna. Veruleikinn er annar samanborið við víða á Vesturlöndum þar sem algengara er að heimili hafi fjárhagslegt svigrúm til þess að takast á við aðstæður líkt og þessar.

Áskoranir af risavaxinni stærðargráðu

Það gleymist stundum í umræðunni að Indónesía er í raun heimsálfa út af fyrir sig. Landið, sem er 18,5 sinnum stærra en Ísland, samanstendur af um 17.000 eyjum af öllum stærðum og gerðum sem teygja sig vítt og breytt yfir þrjú tímabelti. Indónesía er einnig fjórða fjölmennasta ríki heims með um 275 milljónir íbúa sem tala yfir 700 málískur. Landið er skilgreint sem þriðja heims ríki.

Fyrsta Covid-19 smitið í Indónesíu var tilkynnt þann 2. mars síðastliðinn. Þegar þetta er skrifað hafa 790 einstaklingar verið greindir með smit í landinu, þar af hafa 58 látist og 31 einn náð sér. Til samanburðar er fjöldi smita á Íslandi 737. Menn óttast vissulega að þessar tölur gefi ekki rétta mynd af stöðunni en indónesísk stjórnvöld hafa verið að grípa til hertra aðgerða og hvatt héröð til að gera hið sama til þess að sporna gegn útbreiðslu veirunnar. Þá boðaði forseti landsins átak í sýnatökum og kynnti einnig efnahagspakka að upphæð rúmalega 8 milljarða bandaríkjadollara til að örva efnahagslífið og koma til móts við vinnandi fólk og fyrirtæki.

Þær landfræðilegu áskoranir sem landið stendur frammi fyrir eru þó ekki þær einu. Í veginum eru einnig stórar áskoranir af menningarlegum og margvíslegum innviðalegum toga. Algengt er að stórfjölskyldur búi undir sama þaki, allt frá ungabarni til langafa- og ömmu, og borði af sömu diskum með höndunum sem eykur hættuna á smitum. Þá getur hnitmiðuð miðlun upplýsinga um veiruna og forvarnir gegn henni reynst flókin í jafn víðfeðmu landi og Indónesíu, sérstaklega þar sem skortur á fjarskiptainnviðum getur verið til staðar. Þá er einnig ljóst að þessi faraldur mun reyna verulega á heilbrigðiskerfi landsins, en aðbúnaður þess getur verið mjög breytilegur eftir landssvæðum.

Hér á Bali hefur héraðsstjórnin lagt fimm sjúkrahús undir í baráttunni við veiruna, en heilbrigðisinnviðir á Balí eru með þeim betri í Indónesíu vegna þess fjölda erlendra ferðamanna sem heimsækir eyjuna undir venjulegum kringumstæðum.

Trúin á framtíðina

Ég tel að Covid19-brekkan verði brött hér á Balí og í allri Indónesíu og að þetta muni reyna verulega á samfélagið. Ég upplifi samt að innfæddir jafnt sem útlendingar á svæðinu þar sem ég bý séu nokkuð vel upplýstir. Hér hefur hreinlæti aukist verulega, að spritta á sér hendurnar er víða orðið skilyrði fyrir að koma inn og fólk almennt varfærnara að öllu leiti.

Mér þykir orðið mjög vænt um vini mína Indónesana og á þeim tíma sem ég hef varið hér hef ég kolfallið fyrir einhverju yfirnáttúrulegu æðruleysi sem býr innra með fólki. Það mun fleyta fólki áfram í yfirstandandi ástandi. Þetta verður samt erfitt hér eins og víða annarsstaðar, en til framtíðar er ég bjartsýnn fyrir hönd Balí og er sannfærður um að ferðamenn muni flykkjast til eyjunnar af áður óþekktri stærðargráðu. Það er eitthvað óútskýranlegt aðdráttarafl við þessa eyju sem heillar mann og bindur mann tilfinningarböndum við hana. Hvort ástæðan sé að um er að ræða Eyju guðanna get ég ekki fjölyrt um, en eitthvað er það.

Höfundur er Fáskrúðsfirðingur og skrifar frá Balí.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.