Fagleg bráðagreining er lífsspursmál
Öll viljum við hafa góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Við viljum finna fyrir öryggi, þjónustan sé fagleg og upplýst faglegt mat lækna liggi fyrir hverju sinni. Líf og heilsa okkar er í húfi.Tækjakostur í heilbrigðisþjónustu
Tæknivæðing er fyrir löngu orðið lykilskrefið í heilbrigðiskerfinu og stefnt er að öflugri fjarheilbrigðisþjónustu um allt land. Tæknin tryggir að við getum stundað markvissar forvarnir með myndatöku, brugðist við með inngripi, aðgerðum eða lyfjum og lengt og bætt þannig líf og heilsu okkar. Tæknivæðingin er einnig lykilskref í upplýstri faglegri bráðagreiningu á landsbyggðinni og barátta Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi snýst um að fá fjármagn fyrir sneiðmyndatæki á „bráðamóttökuna“ á Egilsstöðum. Það markmið hefur verið á stefnuáætlun Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi og við erum þeir einu sem erum að koma þessu máli áfram. Í febrúar fór ég sem varaþingmaður inn á Alþingi í viku og lagði fram þingsályktunartillögu um aukið fjármagn til tækjakaupa á fjármögnun á tækjakosti til bráðagreiningar.
Mínúturnar skipta máli
Tíminn frá komu okkar til læknis á landsbyggðinni og að upplýstri faglegri greiningu skiptir öllu máli upp á hvert framhald verður á okkar veikindum. Þar skipta bæði öflugar samgöngur miklu máli og nauðsynlegur tækjakostur til bráðagreiningar. Sérhæfð heilbrigðisþjónusta er staðsett í Reykjavík í um 400km flugleið og því erum við alltaf í keppni við mínúturnar. Á Landspítalanum var farið í átak til að fækka enn frekar mínútum við móttöku einstaklinga með einkenni heilablæðingar en í Múlaþingi virðast mínúturnar og klukkutímarnir skipta minna máli samkvæmt núverandi verklagi.
Tillaga til þingsályktunar um fjármögnun á tækjakosti til bráðagreiningar
Þingsályktunartillaga mín um aukið fjármagn til tækjakaupa á fjármögnun á tækjakosti til bráðagreiningar liggur fyrir á Alþingi og þar munum við ekkert gefa eftir.
Ég bauð mig fram í pólitík til að gefa af mér til samfélagsins og í þessu máli nýti ég menntun mína og reynslu til að standa vörð um öfluga bráðaþjónustu á landsbyggðinni.
Gefum engan afslátt af lífi og heilsu okkar. Höldum þessu málefni á lofti og berjumst saman fyrir nauðsynlegum tækjakosti til bráðagreiningar.
Höfundur skipar fyrsta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á laugardag.