Farþegum innanlandsflugs til Egilsstaða fækkar um 15%

Farþegum í innanlandsflugi milli Reykjavíkur og Egilsstaða fækkaði um 15% árið 2008 og voru um hundrað og fjórtán þúsund talsins. Flugfélag Íslands segir þá fækkun hafa verið nokkuð fyrirséða, vegna loka á virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka.
420.000 farþegar flugu með Flugfélagi Íslands í fyrra og er það annað stærsta ár félagsins frá upphafi.

flugvl.jpg

Fjöldi farþega Flugfélags Íslands dróst saman um 2% á árinu 2008 miðað við árið 2007. Heildarfjöldi farþega í áætlunarflugi var um 420 þúsund þar af voru um 22 þúsund farþegar í millilandaflugi til Færeyja og Grænlands.

Flogið var til fjögurra áfangastaða innanlands frá Reykjavík, til Akureyrar, Egilsstaða, Ísafjarðar og til Vestmannaeyja. Millilandaáfangastaðir félagsins eru á Grænlandi, Kulusuk, Constable Pynt, Narsarsuaq og Nuuk, jafnframt var líkt og áður boðið upp á flug til Færeyja.

Hlutfallslega mesta aukning farþega var á leiðinni milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja eða um 26% og flugu um 29 þúsund farþegar á þeirri flugleið með félaginu, á leiðinni til Ísafjarðar og Akureyrar stóð farþegafjöldinn nánast í stað á milli ára, var um 47 þúsund á Ísafjörð og tæplega 200 þúsund á Akureyri.

Til Egilsstaða var nokkur fækkun farþega eða um 15% og var það nokkuð fyrirséð vegna loka á virkjunarframkvæmdum, farþegafjöldi á þeirri leið var um 114 þúsund á síðasta ári.

Flugfélag Íslands mun á árinu 2009 halda áfram að stækka leiðakerfi sitt og býður í fyrsta skiptið uppá áætlunarflug til Ilulissat á vesturströnd Grænlands og mun með því halda úti áætlunarflugi á 5 áfangastaði á Grænlandi næsta sumar og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar