Félagshyggja í Fjarðabyggð

Fjarðalistinn hefur frá stofnun haft það að leiðarljósi í stefnu sinni að stuðla að jöfnuði og velferð. Að íbúar Fjarðabyggðar eigi kost á mannsæmandi lífi í öflugu velferðarsamfélagi sem tekur mið af ólíkum þörfum ólíkra einstaklinga, enda er Fjarðalistinn listi félagshyggjufólks.

Listinn var upphaflega stofnaður 1998, af fólki sem kom úr ólíkum áttum og stóð á mismunandi stöðum í landspólitík, en átti það sameiginlegt að vilja byggja Fjarðabyggð upp á grunni félagshyggju. Það hefur ekki breyst í gegnum árin og er öllum velkomið að taka þátt í starfinu, svo lengi sem fólk hefur ástríðu fyrir félagshyggju og brennur fyrir framtíð Fjarðabyggðar.

Á kjörtímabilinu lækkuðum við gjaldskrá skólamáltíða í Fjarðabyggð í skrefum og urðu þær gjaldfrjálsar haustið 2021. Í okkar huga er gríðarlega mikilvægt að geta boðið öllum börnum upp á heitan mat í skólanum, óháð efnahag foreldra. Þessi breyting sparar barnafólki ekki aðeins talsverðar upphæðir, heldur tryggir hún öllum börnum aðgengi að hollum mat á degi hverjum. Við erum stolt af því að hafa staðið vörð um hag fjölskyldna og munum halda áfram að setja málefni fjölskyldunnar í forgang. Lykilatriði í þeirri vegferð er að börn og ungmenni hafi jöfn tækifæri óháð efnahag fjölskyldna.

Áskoranir síðustu ára hafa verið stórar, ekki bara í Fjarðabyggð heldur um heim allan. Heimsfaraldur setti svip sinn á kjörtímabilið og Fjarðalistinn hefur lagt sitt af mörkum við að standa vörð um félagslegu kerfin okkar á krefjandi tímum, með félagshyggju að leiðarljósi.

Annar stór atburður sem hefur haft heimsáhrif er innrásin í Úkraínu. Á slíkum tímum skiptir samstaða öllu máli og viljum við leggja okkar af mörkum með því að bjóða fólki á flótta undan átökunum skjól í okkar góða samfélagi. Félagshyggja þekkir nefnilega engin landamæri og þjáningar fólksins í Úkraínu koma okkur öllum við.

Jafnréttismálin eru sömuleiðis okkur hjartans mál og við í Fjarðalistanum ætlum að leggja okkar af mörkum í þeim málum. Á undanförnum árum hefur gríðarlegur fjöldi kvenna og jaðarsettra einstaklinga stigið fram og deilt reynslu sinni af kynbundnu ofbeldi og áreitni sem verður að taka alvarlega. Á liðnu kjörtímabili leit ný jafnréttisstefna dagsins ljós í Fjarðabyggð. Þar er kveðið á um að alltaf skuli taka mið af jafnrétti í öllu starfi innan sveitarfélagsins. Við erum meðvituð um að jafnréttisbaráttan er lifandi barátta sem lýkur ekki fyrr en jafnrétti er náð og tökum við hlutverk okkar í þeirri baráttu alvarlega.

Á komandi kjörtímabili munum við í Fjarðalistanum halda áfram að standa vörð um hag fjölskyldna. Við viljum að í Fjarðabyggð sé gott að eldast og að aldraðir hafi enn fleiri tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu. Við munum leita leiða til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og styðja við og efla öflugt atvinnulíf á svæðinu með sjálfbærnisjónarmið í fyrirrúmi.

Framtíðin er björt hér í Fjarðabyggð og við í Fjarðalistanum óskum eftir ykkar umboði til að halda áfram að hlúa að okkar öfluga og kraftmikla samfélagi. Setjum x við félagshyggju á kjördag.

Stefán Þór Eysteinsson er oddviti Fjarðalistans
Hjördís Helga Seljan er bæjarfulltrúi og skipar 2. sæti á lista Fjarðalistans

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar