Ferðaþjónusta – vertíðarstemming eða atvinna allt árið?
Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem vaxið hefur hvað hraðast síðustu ár hérlendis og er orðinn ein af grunnstoðum atvinnulífs á Íslandi. Þessi vöxtur hefur ekki farið framhjá íbúum hinna dreifðari byggða og má að sumu leiti segja að ferðamannavertíðin sé komin í staðinn fyrir útgerðina sem helsta atvinna svæðis í mörgum smærri byggðarkjörnum.
Sem dæmi má nefna að yfir sumarið er líf og fjör, ys og þys á stöðum líkt og í Borgafjarðarhreppi og Breiðdalshreppi, þar sem hvert ferðaþjónustufyrirtækið á fætur öðru hefur sprottið upp á seinustu árum.
Yfir sumarið er reyndar stór punktur, því enn lifum við Austfirðingar við mikla árstíðarsveiflu í ferðaþjónustu og til að hér geti skapast heilsársstörf er mikilvægt að koma Austurlandi á kortið sem heilsárs áfangastað ferðamanna. En er það gerlegt?
Já - að mínu mati eru öll tækifæri til þess, náttúra Austurlands er ekki síðri að vetri til en að sumri, norðurljósamyndir héðan að austan hafa vakið heimsathygli og ættu því að lokka marga hingað. Samgöngur eiga ekki að vera vandamál, við Austfirðingar eigum flugvöll á heimsmælikvarða á Egilsstöðum og eina farþegaferjan sem siglir reglulega til landsins allt árið um kring leggur að landi á Seyðisfirði.
Auðvitað má, og verður að, gera betur í vegaframkvæmdum hér fyrir austan en það er samt eitthvað sem að við kvörtum yfir sumar, vetur, vor og haust. En þrátt fyrir það er vegurinn um firði opinn allt árið, og það að þjónusta ekki fjallvegi yfir vetrartímann er pólitísk ákvörðun.
Hvort kom á undan: Ferðamaðurinn eða opnunartíminn?
Það sem ég tel að við þurfum að gera er að kynna landshlutann, þannig að fólk geri sér grein fyrir því að hvað Austurland hafi fram að bjóða og sé áhugaverður áfangastaður yfir allt árið.
Við heimamenn þurfum einnig að hætta að hugsa um það að vinna eins og við séum á vertíð og vera þess í stað tilbúnir að bjóða upp á þjónustu allt árið. Það getur verið fjárhagslega erfitt fyrst um sinn, en aftur á móti má spyrja: Hvort koma ferðamennirnir ekki vegna þess að það er ekki opið? Eða er ekki opið af því að ferðamennina vantar?
Nágrannar okkar fyrir sunnan og norðan eru farnir að upplifa litla sem enga árstíðarsveiflu. Hvers vegna nær þá ekki straumurinn alla leið hingað austur?
Til að ferðaþjónusta á Austurlandi geti orðið sjálfbær og arðbær þurfum við að brjóta niður stíflunar sem virðast vera við Mývatn og Jökulsárlón og segja: Við erum hérna líka, kíkið austur hér eru náttúruperlur, skemmtilegt og áhugavert fólk, menning og sköpunarkraftur.
Með hærra þjónustustigi við ferðamenn er möguleiki á hærra þjónustustigi við heimamenn líka. Þó þurfum við að passa það að sú þjónusta sé ekki eingöngu ætluð ferðmönnum, líkt og verslun megi ekki verða of túristamiðuð. Gleymum ekki því hvað það er sem að dregur fólk hingað til lands, bæði stórbrotin náttúra og menning, stöndum vörð um hvortveggja.
Ég vil ungt Austurland, ég vil fjölbreytta atvinnu á Austurlandi.
Höfundur rekur ferðaþjónustu í Breiðdal
Greinin er sú fjórða í greinaskrifaátaki ungra Austfirðinga. #UNGAUST