Fimmtán bestverstu pólitísku gjörðirnar árið 2012

austurfrett_profile_logo.jpg
Kæru málsfarstemplarar – lofið okkur að útskýra hugtakið „bestverstu“. Hér er um að ræða gjörðir sem voru heimskulegar, klaufalegar eða beinlínis meiðandi og teljast því þær verstu. Sumar þeirra ná þó þeim hæðum (eða lægðum) að vera komnar hringinn þannig hægt er að hlæja að þeim eftirá. Þannig geta verstu gjörðir orðið í raun jafnframt þær bestu.

15. Ari Trausti gengur út úr kappræðum Stöðvar 2
Það er vissulega rétt að við tilgreindum þennan gjörning sem slíkan á lista okkar yfir bestu pólitísku gjörðirnar í gær. Ara Trausta varð hann hins vegar dýrkeyptur því Herdís Þorvaldsdóttir varð eftir og tók þátt í þættinum auk Ólafs Ragnars og Þóru. Náði hún þar að tryggja sér ákveðinn sess og var mun meira inni í umræðunni eftir þáttinn en þeir frambjóðendur sem gengu út. Þótt Ari Trausti yrði þriðji í kosningunum missti hann þarna af gullnu tækifæri til að stilla sér upp sem einn af stóru krökkunum í þessari baráttu og náði aldrei vopnum sínum almennilega eftir þetta.

14. Árni Johnsen og ársreikningur Þorláksbúðar í Skálholti
Ríkisendurskoðun þurfti að margreka á eftir ársreikningi Þorláksbúðarfélagsins sem byggt hefur umdeilt tilgátuhús í Skálholti. Þegar rætt var við framkvæmdastjórann og stjórnarformanninn Árna Johnsen sagði hann að fjármálahliðin væri í höndum Skálholtssóknar og Skálholtsstaðar. Þar könnuðust menn ekki við að hafa tekið við bókhaldinu. Sama hvernig á málið er horft – framkvæmdastjóri og formaður ber höfuðábyrgð á bókhaldinu – og það dugar ekkert að reyna að benda á einhvern annan.

13. Herdís Þorgeirsdóttirir og uppgjörið sem kom of seint
Forsetaframbjóðandinn Herdís Þorgeirsdóttir barði sér mjög á brjóst í kosningabaráttunni, stærði sig af því að hafa opnað bókhald sitt og skoraði á aðra frambjóðendur að gera slíkt hið sama. Þegar skila átti fjárhagslegu uppgjöri vegna baráttunnar nú í haust var Herdís hins vegar sú eina sem fór fram yfir settan skilafrest. Hún afsakaði sig með því að hafa verið erlendis. Reynd háskólamanneskja hefði hins vegar átt að vita að ef þú ert að fara í burtu þarftu yfirleitt að skila verkefnunum þínum fyrr frekar en að fá frest. Þeir sem skila seint fá mínus í kladdann. Ekki bætti úr skák að í opna bókhaldinu kom stærsta upphæðin frá félagi sem enginn vissi hver stóð á bakvið.

12. Listi Kópavogsbúa í nýjum meirihluta
Helsta baráttumál Y-lista Kópavogsbúa í síðustu sveitarstjórnarkosningum var að ráða ópólitískan bæjarstjóra. Því prinsippi var fórnað þegar fyrrum meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks komst til valda með stuðningi listans og með oddvita Sjálfstæðismanna sem bæjarstjóra. Við efumst um að kjósendur þeirra hafi kosið listann til að gera þetta.

11. Sigríður Ingibjörg og Íbúðalánasjóður
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir tjáði sig fjálglega um slæma stöðu Íbúðalánasjóðs í viðtali við Bloomberg-fréttaveituna. Í máli hennar kom fram að líklega þyrfti að afnema ríkisábyrgð á skuldum sjóðsins, hann þyrfti tíu milljarða í eigið fé og að endursemja þyrfti um skilmála skuldabréfa sjóðsins. Sjóðurinn hafnaði að áform væri um að breyta skilmálunum en skaðinn var skeður. Mikil viðbragðskeðja fór í gang og stöðva þurfti viðskipti með skuldabréf sjóðsins í Kauphöllinni. Úbbs!

10. SUS og Sókn gegn sósíalisma
Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Francois Hollande og Barack Obama – allt eru þetta stórhættulegir sósíalistar miðað við auglýsingu og málþing sem Samband ungra Sjálfstæðismanna stóð fyrir í haust. Aðferðafræðin virðist sótt til bandaríska Repúblikanaflokksins – nokkuð sem við þurfum ekkert á að halda hérlendis. Helst hafa menn þar skammast út í Obama fyrir að vera sósíalisti. Fyrir utan að almennt horfðu menn á auglýsinguna og spurðu „Hvað er í gangi?“ Sósalismi hefur almennt ekki verið skammaryrði í Evrópu.

9. Ögmundur Jónasson og ráðningin á sýslumanninum
Þegar þú ert kominn ofan í holu – hættu þá að moka. Ráðningin ein og sér var hæpin en málsvörn Ögmundar Jónassonar í kjölfarið var enn vandræðalegri þegar Ögmundur lýsti því yfir að hann væri að fylgja sinni sannfæringu. Enn verra verður að telja um er að ræða ráðherra í flokki sem lagt hefur sérstaka áherslu á kvenréttindi. Útkoman varð óánægja innan flokks og fóður í fallbyssur pólitískra andstæðinga.

8. Vigdís Hauks kjaftar frá nefndarfundi á Facebook
Samkvæmt reglum eru þingmenn bundnir trúnaði um það sem fram fer á lokuðum nefndarfundum. Vigdís Hauksdóttir virtist hins vegar ekki gera sér grein fyrir þessu og upplýsti vini sína á Facebook samviskusamlega um innihald umræðna á fundi Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Aðrir þingmenn tóku þessu fremur illa þegar upp komst og slíta þurfti nefndarfundi og síðar gera hlé á þingfundi á meðan þingmenn róuðu sig. Vigdís vildi raunar ekki viðurkenna að hafa brotið þingsköp en niðurstaða forseta Alþingis var eftir sem áður sú að svo hefði verið. Fáir urðu líka til að verja gjörðir þingmannsins aðrir en mágur hennar Guðni Ágústsson sem varði hana með því að lýsa því yfir að hann hefði sjálfur oft kjaftað frá nefndafundum! Eftir stendur spurningin: Vigdís – átt þú ekki frekar að vera að fylgjast með á fundum en vera á Facebook meðan á þeim stendur?

7. Vigdís Hauksdóttir og „útlendingarnir“ sem reyndu að brjótast inn í Bankastrætinu.
Í mars var auglýst eftir þremur einstaklingum sem reynt höfðu að brjótast inn í skartgripabúð í Bankastræti. Vigdís Hauksdóttir greip tækifærið strax og óð upp í ræðustól á Alþingi til að láta höggin dynja á Schengen-samstarfinu. Vigdís virtist sannfærð um að á ferli í Bankastrætinu hefðu verið glæpamenn af austur-evrópskum uppruna. Fljótlega greip lögreglan þó þrjá Íslendinga. Vigdís hrapaði svo fljótt að ályktunum að mörgum þótti jaðra við kynþáttafordóma og menn spurðu sig hvar nýjar siðareglur Framsóknarflokksins væru.

6. Þóra Arnórsdóttir og ekkert plan B
Þegar þú býður þig fram gegn slyngasta stjórnmálamanni landsins þá þarftu að minnsta kosti að hafa mjög gott plan A og plan B, helst nokkur í viðbót til skiptanna. Eftir 13. maí virtust engar áætlanir til hjá framboði Þóru sem héldu vatni. Af ótta við að styggja hugsanlega kjósendur með því að taka afstöðu tók Þóra helst enga afstöðu. Þeir sem vildu styðja hana vissu ekki fyrir hvað hún stóð og þeir sem vildu mótframbjóðanda gegn sitjandi forseta sem bit var í fengu ekkert. Síðan kom slagorðið „sameinumst“, lagið „búum til framtíð bjarta, með Þóru í hug og hjarta“ og Þórudagurinn með vöfflukaffi, reiðtúrum og sundferðum. Undir lokin var ljóst hvert stefndi, spurning var bara hversu stórt tapið yrði.

5. Tillögur SUS um sparnað í ríkisútgjöldum
Ungir Sjálfstæðismenn sendu frá sér tillögur um að skera niður í ríkisútgjöldum. Trúir hugmyndafræðinni lögðu þeir til að leggja ríkið nánast niður í heild sinni. Skera átti meira og minna niður öll ríkisútgjöld: Hörpuna, Ríkisútvarpið, Veðurstofuna, íþrótta- og æskulýðsmál, Bjargráðasjóð, nýsköpun, niðurgreiðslur til húshitunar og ýmislegt fleira. Rökstuðningurinn fólst í að ýmist væri um að ræða „óþarfa verkefni eða verkefni sem betur væru komin í höndum einkaaðila.“ Sjálfstæðismenn á síðbuxum hafa á árinu haft ærinn starfa við að útskýra að ungir sjálfstæðismenn séu bara einhverskonar grín sem ekkert hafa með stefnu alvöru Sjálfstæðisflokksins að gera. Annað mál er hins vegar hversu mikla athygli tillögur SUS fá árlega, en ungliðarnir hafa lagt fram sömu tillögurnar ár eftir ár – með nýrri forsíðu og fyrirsögn. Á fagmáli kallast þetta „copy/paste“.

4. Samstaða
Fyrst þegar hið nýja stjórnmálaafl kom fram mældist það með 20% fylgi í skoðanakönnunum. Í árslok var fylgið nánast farið, svo óáhugavert þótti framboðið meira að segja að það gleymdist í einni skoðanakönnunni. Lykilmennirnir hurfu einn af öðrum, Stormur varaformaður fór fyrstur, Lilja Mósesdóttir hætti sem formaður og fleiri stjórnarmenn hurfu fljótlega og sneru aftur þaðan sem þeir komu. Vítamínsprautan, Lilja, tilkynnti loks að hún ætlaði ekki aftur í þingframboð vegna þess að hún nyti ekki nægjanlegs stuðnings. Hún hafði áður lýst yfir að hún vildi ekki að framboðið snérist um sig. Hún hefur til þessa verið eini þingmaður flokksins, eini flokksmaðurinn með raunverulega vigt og tækifæri til að láta taka eftir sér. Eftir stendur andlitslaus flokkur sem virðist búinn áður en alvöru baráttan byrjar. Á ensku kallast þetta „from hero to zero.“

3. Ólína Þorvarðar og skottulækningarnar
Á sama tíma og lækningatæki Landsspítalans eru teipuð saman eða jafnvel bila í miðjum aðgerðum birtast þingmenn sem vilja niðurgreiða óhefðbundnar lækningar. Ein af lausnunum á fjárhagsvanda heilbrigðiskerfisins var sem sagt að niðurgreiða það sem á mannamáli kallast skottulækningar. Verandi með doktorspróf hefði mátt búast við að Ólína Þorvarðardóttir bæri skynbragð á og virðingu fyrir vísindalegum aðferðum og kröfum og akademísku námi en ekki er hægt að skynja að svo sé. Fleiri voru flutningsmenn að frumvarpinu en Ólína náði að verða andlit þess með einstakri frammistöðu í Kastljósi þar sem hún náði meðal annars að vega að starfsheiðri sálfræðingastéttarinnar í heild sinni. Með svona vini þarf ríkisstjórnin enga óvini.

2. Guðbjartur Hannesson og launahækkun forstjóra Landspítalans
Við efumst ekkert um að Björn Zoëga hefur staðið sig afskaplega vel í krefjandi starfi við erfiðar aðstæður. Það sama má hins vegar segja um fjölda annarra heilbrigðisstarfsmanna sem kröfðust réttinda sinna þegar spurðist út að velferðarráðherra hafði samþykkt veglega launahækkun til að halda í hinn ómissandi forstjóra. Erfitt er að sjá fyrir sér í hverslags brjálsemiskasti ráðherrann hefur verið þegar hann taldi að þessi ákvörðun gæti nokkurn tíma leitt til annars en pólitískra hörmunga. Niðurstaðan varð sú að Guðbjartur Hannesson varð afturreka með þessa einkaákvörðun sína og pólitískur ferill hans, sem áður var talinn flekklaus, verður það aldrei aftur. Ef Guðbjartur verður ekki formaður Samfylkingarinnar, eins og hann hefur nú boðið sig fram til, getur hann að stórum hluta skrifað það á þetta mál. Eftirköstunum af því er raunar hvergi nærri lokið. Nú þurfa hann og Ómissandi-Björn að glíma við fjöldauppsagnir hjúkrunarfræðinga sem eru ófeimnir við að minnast á þetta málstað sínum til stuðnings. Algjört klúður. 

1. Bjarni Benediktsson og meðalhóf Ísraelsmanna
Á sama tíma og alþjóðasamfélagið reyndi að lægja öldurnar í átökum hers Ísraelsmanna og Hamas-samtakanna í Palestínu geystist Bjarni Benediktsson, formaður þess stjórnmálaflokks sem virðist aftur ætla að verða stærstur hérlendis, upp í ræðupúltið á Alþingi. Þar sagði hann Íslendinga hafa takmarkaða þekkingu á málinu og Hamas bæri umtalsverða ábyrgð á því sem fram færi. Hluti af þessu kann að hafa verið rétt – en það voru ummæli hans um að Ísraelsher ætti að „gæta meðalhófs“ sem fóru fyrir brjóstið á fólki. Það er hvergi talið smekklegt að ræða um „meðalhóf“ í manndrápum, ekki einu sinni í Garðabæ. Verðskuldað fékk hann viðbrögðin: „svona talar maður ekki“ frá andstæðingum sínum á þingi. 

Bónus: Pólitíski hrekkur ársins:
 
Björn Valur Gíslason skiptir um kjördæmi
Sá á kvölina, sem flyst á mölina og þarf að byrja allt upp á nýtt. „Vinir og stuðningsmenn“ Björns Vals hvöttu hann til að færa sig úr Norðausturkjördæmi til Reykjavíkur. Útkoman var sú að Björn Valur varð undir í prófkjöri, naumlega þó, og kemst vart aftur inn á þing. Hann endurskoðar væntanlega val sitt á „vinum og stuðningsmönnum“ í kjölfarið. Alltént þyrfti hann að eiga þá fleiri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.