Fiskeldi Austurlands – Sýnið virðingu

Ég hef fylgst með því úr fjarska hvernig Seyðfirðingar hafa brugðist við hugmyndum Fiskeldis Austfjarða (FA) um fiskeldi í Seyðisfirði. Framan af fréttist lítið af undirbúningi og upplýsingar takmarkaðar.

Þegar fyrirætlanir FA fóru að skýrast leist mörgum heimamanninum ekki á blikuna og nú liggur fyrir að meirihluti íbúa er alfarið andvígur hugmyndum FA og hafa fært fyrir því ýmis rök.

Nýlegt álit Skipulagsstofnunar, sem gefur eldishugmyndunum falleinkunn, rímar vel við þessa afstöðu meirihluta íbúa. Hér eru nokkur dæmi frá Skipulagsstofnun og staðkunnugum heimamönnum.

1. Andstaða 55% heimamanna 18 ára og eldri. Fá ef nokkur fordæmi eru fyrir viðlíka andstöðu heimamanna við áformað sjókvíaeldi hér á landi. Hvar er stuðningur Múlaþings við íbúana?

2. Strandsvæðaskipulag. Skipulagsstofnun telur æskilegt, þó það sé ekki skylt í þessu tilfelli, að strandsvæðaskipulag liggi fyrir áður en einstökum svæðum innan skipulagssvæðisins er ráðstafað til ákveðinnar nýtingar. Þetta skipulag verður auglýst á vormánuðum.

3. Fjöldi starfa. Áætlaður fjöldi FA byggir á skýrslu Byggðastofnunar en ekki sjálfstæðu mati FA, þrátt fyrir 7 ára undirbúning. Skipulagsstofnun telur mikla óvissu um þennan fjölda.

4. Eldi verður ekki stjórnað frá Noregi, að sögn FA. Þetta er í besta falli marklaust loforð, sbr. „Guggan verður alltaf gul og gerð út frá Ísafirði“. Hagræðingin lætur ekki að sér hæða þegar á hólminn er komið.

5. Sörlastaðavík og Farice. Breidd Seyðisfjarðar í Sörlastaðavík er mest um 1400 m. Helgunarsvæði strengs að viðbættum netalögnum jarðeigenda er um 1166 m. Þá eru eftir 234 m fyrir 100*100 m breiðan kvíaramma og festingar frá honum, sem þurfa að ná a.m.k. 150 m í allar áttir. Kvíaramminn þarf því svæði sem er að lágmarki 400 m á kant. Þetta gengur engan vegin upp, það sjá þeir sem leggja þessar tölur saman. Auk þess er öryggi Farice mjög ótryggt.

6. Ofanflóðahætta í Selstaðavík. Svæðið er C-svæði eins og Skipulagsstofnun bendir á og atvinnustarfssemi því bönnuð.

7. Í Skálanesbót þarf tæpan km frá landi út að Farice-strengnum eins og annars staðar. Ég hef ekki staðsetningu strengsins þar og get ekki fullyrt neitt, enda ekki haft 7 ár í undirbúning. Þarna er hugsanlega eitt svæði sem er í lagi, en samkvæmt starfsleyfi þarf að hvíla hvert svæði reglulega og má ekki byrja að nota það aftur nema með leyfi Umhverfisstofnunar.

8. Skálanesbændur hafa lengi rekið ferðaþjónustu. Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að áhrif á ferðaþjónustu, sem er ein mikilvægasta atvinnugrein heimamanna, geta orðið talsvert neikvæð.

9. Öryggi siglinga. Almennt er æskilegt að siglingasvæði séu um 1 km á breidd fyrir skip upp að 235 m lengd og 32 m breidd. Stærstu skip sem koma á Seyðisfjörð eru 37 m breið. Hættumat og greining á skipastærð liggur ekki fyrir. Hafnaryfirvöld bera ábyrgð á öryggi siglingaleiða innan hafnarsvæðis, þ.e. í firðinum öllum. Sem fyrrverandi bæjarfulltrúi í Seyðisfjarðarkaupstað til 16 ára er ég hissa á tómlæti Múlaþings að taka ekki af meiri festu á hafnar- og siglingamálum í firðinum. Múlaþing á enga betri höfn en á Seyðisfirði og full þörf á að standa vörð um hana.

10. Þörungar. Þörungar steindrápu allan fisk hjá Strandarlaxi á einni nóttu á sínum tíma.

11. Marglytta hefur valdið verulegum afföllum í fyrri tilraunum til laxeldis í Seyðisfirði.

12. Hafís. Skipulagsstofnun hafnar hugmyndum um að stálstrengir dugi til varnar kvíum fyrir hafís. Stór hætta er því á slysasleppingum út af hafís. Á síðustu öld voru a.m.k. 9 hafísár á Seyðisfirði.

Þetta eru 12 liðir og fleira mætti tína til. Að mínu mati duga þó liðir 5 og 6 til að kolfella málið, að ekki sé talað um lið 1, afstöðu meirihluta heimamanna. Áhugasamir geta kynnt sér málið nánar í skýrslu Skipulagsstofnunar.

Undanfarin ár hefur margoft verið bent á að fiskeldisfyrirtæki í Noregi þurfi að greiða gjald fyrir afnot af norskum fjörðum fyrir fiskeldi. Þar er algengt að fyrir hver 10.000 tonn séu greiddir um 30 milljarðar. Þetta er auðlindagjald og rennur í sameiginlega sjóði.

Framleiðslan á Íslandi er upp á tugþúsundir tonna. Fyrir eðlilegt auðlindgjald eins og það norska mætti styrkja íslenska innviði all hressilega. Nefnum bara jarðgöng á Austurlandi og Vestjörðum sem dæmi.

Hér hafa örfá fyrirtæki fengið auðlindina afhenta frítt. Seyðisfjörður er í raun seldur á 0 krónur til eldisfyrirtækjanna svo ósvaraðri spurningu á kynningarfundi sé svarað.

Þessi fyrirtæki geta svo selt leyfin áfram og stungið hagnaðinum í vasann. Það er að gerast akkúrat núna. Og því fleiri tonn sem má framleiða, því hærra verð. Þetta fá þeir að gera sem voru lagðir af stað 2019 þegar ný lög voru sett um fiskeldi.

Hér klikkar ríkið eina ferðina enn við að taka fullt afgjald af auðlindum þjóðarinnar.

Spurningin er þessi: Eigum við afhenda auðlindina útvöldum gróðaöflum, þar sem fiskeldi verður á annað borð leyft, svo þau geti selt hana áfram til einhverra annarra, sem er nákvæmlega sama um land og þjóð?

Nei, við eigum að nýta afrakstur auðlinda okkar í þágu almennings. Almenningur á auðlindina. Það er komið nóg af Verbúðarrugli.

Við FA segi ég þetta: Hlustið á meirihluta Seyðfirðinga og aðra í sömu stöðu, og sýnið þeim þá virðingu sem þeir eiga skilið.

Höfnum stríði þegar við getum haft frið.
Með friðar- og kærleikskveðju

Höfundur er brottfluttur Seyðfirðingur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar