Fjarðabyggð efst í deildarbikarnum

Fjarðabyggð er efst í B riðli 2. deildar karla í Lengjubikarnum, svokölluðum Austurlandsriðli. Höttur er í 2. sæti og á leik til góða.

 

ImageLiðin gerðu 1-1 jafntefli þegar þau mættust í Fjarðabyggðarhöllinni fyrr í mánuðinum. Grétar Örn Ómarsson kom Fjarðabyggð yfir en Viðar Örn Hafsteinsson jafnaði fyrir Hött í uppbótartíma. Á skírdag vann Fjarðabyggð Leikni F. 3-0. Andri Hjörvar Albertsson, Ágúst Örn Árnason og Haraldur Bergvinsson skorðu mörk Fjarðabyggðar.
Áður höfðu Leiknismenn tapað 5-3 fyrir Magna. Vilberg Marinó Jónasson, Björgvin Stefán Pétursson og Hilmar Freyr Bjartþórsson skoruðu mörk Leiknis.
Á föstudaginn langa vann Höttur Huginn 4-1 á Fellavelli. Vilmar Freyr Sævarsson skoraði tvö mörk fyrir Hött en Jóhann Klausen og Anton Ástvaldsson sitt markið hvor. Birgir Hákon Jóhannsson skoraði mark Hugins.
Úrslitum í leik Fjarðabyggðar og Völsungs hefur verið breytt í tvígang. Fjarðabyggð vann leikinn 1-2 en var síðan dæmdur 0-3 sigur þar sem ólöglegur maður hefði verið á skýrslu Völsungs. Eftir áfrýjun voru upphaflegu úrslitin látin standa þar sem ólöglegi maðurinn sat allan tímann á varamannabekk Húsvíkinga og hafði því ekki áhrif á leikinn.
Tveir leikir verða í keppninni um helgina. Huginn tekur á móti Magna í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag og Höttur heimsækir Völsung í Bogann á sunnudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar