Fjarðarheiðargöng – 4. og síðasta grein um Umhverfismatsskýrslu: Beiðni um endurskoðun skýrslunnar m.t.t. leiðavals Héraðsmegin

Frestur til umsagna um Umhverfismatsskýrslu framkvæmda við Fjarðarheiðargöng var til 5. júlí 2022. Stór hópur fólks hefur nú skrifað undir formlega beiðni um álit Skipulagsstofnunar um endurskoðun fyrirliggjandi skýrslu að hluta eða jafnvel í heild. Beiðninni hefur verið skilað til stofnunarinnar.

Ástæður beiðninnar varða eingöngu leiðaval Héraðsmegin eru margvíslegar en þær helstar að:

1. Æskilegt sé að skoða áhrif samþættingar Norðurleiðar og Fagradalsbrautar með núverandi vegarkafla um Háls fyrir létta almenna umferð sem telur sig eiga erindi um miðbæinn. Ný sviðsmynd verði metin m.t.t. þess að núverandi kafli Hringvegar (1) um Egilsstaðaháls verði ekki „aflagður“ svo sem Vegagerðin hefur gert að tillögu sinni með mögulegu vali á „Norðurleið“. Vegarkaflinn um Háls hefur þjónað fullkomlega hlutverki sínu og mun lengi enn gera fyrir létta umferð eftir tilkomu framkvæmdarinnar. Tillögusviðsmyndin mun einnig létta vel á Fagradalsbrautinni enda svo vísað sé til fyrirliggjandi matsskýrslu síðu iv: „Í sviðsmyndinni Norðurleið minnkar umferðarstraumurinn á Fagradalsbraut enn frekar en akstursvegalengdir og ferðatími hækka töluvert á kostnað þess“ og einnig „Mesti sparnaðurinn í akstursvegalengdum og ferðatíma á sólarhring fæst með Miðleiðinni.“ Áhrifa samþættingar mun gæta á marga þætti mats, ekki hvað síst er varðar umferðaröryggi, akstursvegalengdir og tíma, samfélags- og þjóðhagslega kosti.

Með nýrri sviðsmynd verða leiðir stystar um hringveg og á flugvöll m.a. vegna sjúkraflugs og sjúkrabílaaksturs til og frá fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupsstað og/eða Austfjörðum almennt.

Norðurleið er meira miðsvæðis milli framtíðarþjónustu- og athafnasvæða Egilsstaða og Fellabæjar, auk nálægðar við flugvöll með beinni tengingu við stórskipahöfn sem er einstakt til að laða til sín atvinnurekstur. Uppbygging þjónustu og byggðar norðan Eyvindarár og lega hennar liggur best við tengingu til Austfjarða.

Náttúrufar á Norðurleið er þegar raskað m.a. með legu Eskifjarðarlínu auk þess að vera ekki eins ríkulegt hvað varðar gróður og fuglalíf. Möguleikar til tengingar á háspennurafmagni, heitu og köldu vatni til til Seyðisfjarðar eru greiðastir þá leið. Best þykir að halda óhjákvæmilegri röskun á einni leið frekar en að dreifa og brjóta upp á nýjum svæðum að óþörfu.

2. Æskilegt sé að skoða minniháttar breytingar á legu og útfærslu Norðurleiðar um Uppsalaá og Eyvindarártún svo og mögulega tengingu Norðurleiðar og Borgarfjarðarvegar (94) með hringtorgi, allt m.a. m.t.t. umferðaröryggis á svæðinu norðan ár.

3. Æskilegt sé að endurskoða kostnaðargreiningu leiðavalsins m.t.t. þess að Mið- og Suðurleið tengjast inn á vegarkafla milli „Þórsnes- og Melshornsvegamóta“ auk þátta er varða einstaka verkliði.

4. Æskilegt sé að endurskoða skýrsluna m.t.t. fjölmargra mis veigamikilla athugasemda og/eða ábendinga m.a. við túlkun skýrsluhöfunda hvað varðar lýsingu og greiningu rannsóknaraðila.

Ég vil nú í lokin þakka samferðafólki öllu áhugann og hvatninguna, sem ég hef fengið til að halda áfram greiningu minni á valkostum leiðavalsins. Hafi mér orðið einhver mistök á eða rangfærslur skal ég verða manna fyrstur til að viðurkenna það. Virði ég öll sjónarmið þessu viðvíkjandi enda tel ég æskilegt að við ákvarðanir um þessa stærstu og áhrifamestu framkvæmd samfélags okkar á Austurlandi liggi fyrir réttastar og bestar upplýsingar. Læt svo lokið skrifum.

Höfundur er verkfræðingur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar