Fjárfestum í flugvöllum
Nú þegar aðeins er boðið upp á eitt flug á dag milli Egilsstaða og Reykjavíkur og flugumferð í heiminum dregst saman dag frá degi, skýtur kannski skökku við að skrifa um flugvelli.Á tímum samdráttar og óvissu er nauðsynlegt að horfa til framtíðar og mikilvægt að opinberir aðilar fjárfesti í verkefnum sem geta ýtt undir framfarir í samfélags- og efnahagsmálum í landinu. Áætlun ríkisstjórnarinnar um sérstakt fjárfestingarátak fyrir árið 2020 til viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf vegna veirufaraldursins liggur nú fyrir Alþingi.
Meðal verkefna sem lögð er áhersla á að hefjist strax er stækkun flugstöðvar á Akureyri, vinna við flughlað á Akureyri og gerð akbrautar á Egilsstaðaflugvelli. Þrátt fyrir hrun í ferðaþjónustunni er brýn þörf fyrir uppbyggingu innviða.
Þar er lagt til að hafist verði handa við undirbúning nýrrar akbrautar fyrir flugvélar meðfram Egilsstaðaflugvelli, til að tryggja öryggi og styrkja varaflugvallarhlutverkið. Gert er ráð fyrir að undirbúningur fari fram í ár og þá liggur beint við að fjármagn til framkvæmda skili sér í fjárfestingaátaki næstu ára. Einnig er áríðandi að fara í yfirlagningu á flugbrautinni á Egilsstöðum og hagkvæmt væri að tengja þessar framkvæmdir saman.
Akbrautin meðfram flugvellinum er mikilvæg til þess að hægt sé að lenda sem flestum flugvélum á sem skemmstum tíma. Hægt væri að útfæra hana þannig að hluti hennar þjóni jafnframt hlutverki flughlaðs. Við undirbúning verksins er mikilvægt að meta hvernig akbraut og flughlöð henta best framtíðarþróun vallarins. Með framkvæmdum á Egilsstöðum eykst rekstraröryggi Egilsstaðarflugvallar og flugöryggi á Íslandi.
Í desember 2019 var skipaður aðgerðahópur til að vinna tillögur um endurbætur á flugvellinum á Akureyri til framtíðar. Honum er ætlað að vinna greiningu á markaðssetningu á Norðurlandi sem áfangastaðar og gera kostnaðaráætlun um mögulega stækkun eða endurbætur á mannvirkjum og þjónustu. Nú liggja tillögur hópsins um stækkun flugstöðvar fyrir og því er hægt að hefjast handa við viðbyggingu vestur af norðurenda núverandi flugstöðvar.
Viðbygging við flugstöð á Akureyri styður við eflingu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Hægt væri að bjóða verkið út á vormánuðum sem gæti skapað um 50 ársverk hjá verktökum á svæðinu. Í ársbyrjun var ILS aðflugsbúnaður tekinn í notkun á Akureyrarflugvelli, í kjölfar þess að Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra tók af skarið og tryggði fjármagn í búnaðinn á árinu 2018. Búnaðurinn hefur nú þegar sannað gildi sitt. Stækkun á flughlaði á Akureyrarflugvelli getur svo aukið enn frekar umsvif og öryggi flugvallarins.
Skýr stefna um uppbyggingu flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum
Framangreind verkefni eru atvinnuskapandi í bráð og lengd. Verkefnin byggja á öflugri stefnumótun í samgöngum, þ.e. samgönguáætlun sem samþykkt var á vorþingi 2019 og uppfærðri áætlun sem Alþingi vinnur nú með. Flugstefna hefur verið mótuð í fyrsta sinn í 100 ára sögu flugsins. Lykilatriði hennar er að millilanda- og varaflugvellirnir verða á einni hendi, Isavia sem taki ábyrgð á varaflugvöllunum.
Uppbygging varaflugvalla á Íslandi er mikilvæg til að tryggja flugöryggi fyrir þá sem fljúga um Keflavíkurflugvöll, s.s. þegar aðstæður breytast skyndilega vegna veðurs eða óhappa. Þörfin fyrir framkvæmdir og þjónustu miðast við að skapa aðstöðu til að taka við nægum fjölda véla í neyðarástandi. Isavia hefur tekið við rekstri, viðhaldi og uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar af ríkinu frá síðustu áramótum Á sama tíma lækkuðu þjónustugreiðslur ríkisins til Isavia sem nýtast nú í innanlandsflugvelli um land allt og til að efla innanlandsflugið.
Nú er verið að fylgja eftir skýrri stefnu um að byggja flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum upp sem alþjóðlegar fluggáttir, samhliða varaflugvallahlutverkinu og innanlandshlutverkinu. Öflugt innlandsflug er mikilvægt byggðamál, hluti af almenningssamgöngum og öryggi byggðanna. Flugið er einn lykillinn að jafnræði byggðanna og nú er ákveðið er að skoska leiðin komi til framkvæmda seinnihluta ársins, sem er mikilvægt skref til að jafna aðstöðumun íbúa landsins.
Samvinna er lykill að árangri
Þegar fram í sækir mun samkeppnishæfni landsins eiga mikið undir góðum alþjóðlegum flugtengingum og fleiri hlið inn til landsins eru á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.
Ég álít mjög mikilvægt að fylgja nýrri flugstefnu og aukinni fjárfestingu í flugvöllum eftir með öflugri samvinnu um markaðssetningu nýrra fluggátta og þar er samstarf um markaðsetningu og samvinna sveitarfélaga á Norður- og Austurlandi lykillatriði.
Notum tímann vel - Áfram veginn.
Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmki og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd.