Fjarlækningar fyrir Austurland

Í dreifðari byggðum landsins getur orðið snúið að fá ýmsa þá þjónustu sem höfuðborgarbúarnir taka sem sjálfsögðum og sjálfgefnum hlut. Þar með talin er ýmis sértæk heilbrigðisþjónusta.

Heilbrigðisstofnun Austurlands er með heilsugæslustöðvar í 10 byggðarlögum auk sjúkrahússins á Neskaupsstað sem er umdæmissjúkrahús. Við HSA starfar einvala lið lækna og hjúkrunarfólks sem sinnir störfum sínum af alúð og metnaði. En þegar sjúklingur þarf á ýmissi sérfræðingsþjónustu að halda getur þurft að leita til höfuðborgarsvæðisins.

Sérfræðingurinn fyrir sunnan


Sjúkratryggingar Íslands kosta ferðalagið suður, venjulega þarf líka að gista. Því ekki er sjálfgefið að hægt sé að fljúga suður og heim til baka á sama sólarhring. Oftast ganga þessir hlutir vel og örugglega fyrir sig. Nema, það hendir stundum að aldraðir treysta sér ekki í langt ferðalag. Flugferðir til og frá Reykjavík taka oftast innan við klukkustund.

En það þarf að koma sér á flugvöllinn og það getur verið talsverður akstur ef fljúga á frá Egilsstöðum. En ef flogið er frá Vopnafirði þarf tengiflug gegnum Akureyri og því fer lunginn af deginum í það flug suður.

Austurlandið er í rúmlega 7-9 klst akstursfjarlægð frá Reykjavík og ferðin suður í bíl því bæði löng og ströng. Auk þess væri æskilegt að geta skipt ferðinni á tvo daga, til að gera gamla fólkinu ferðalagið minna lýjandi. Þetta er því talsvert fyrirhöfn og hreint ekki á allra færi að komast suður.

Tölvutækni í greiningu augnsjúkdóma


Augnlæknum fækkar í landinu og það verður því stöðugt erfiðara að komast til augnlæknis. Með nýjustu tölvutækni er hægt að koma á fjarlækningum í augnlæknaþjónustu. Nú eru framleidd tæki sem greina alla helstu augnsjúkdóma og hægt að senda niðurstöður greiningarinnar til augnlækna í Reykjavík. Þannig má spara bæði mikið fé og mikinn tíma fyrir bæði heilbrigðiskerfið, Sjúkratryggingar Íslands og þjónustuþegana.

Fyrir nokkrum árum, fyrir frumkvæði lækna við sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum var komið á samstarfi við Lionsklúbb Vestmannaeyja um að hefja söfnun til að koma á fót fjarlækningaaðstöðu í Eyjum, í samstarfi við augnlæknana hjá Sjónlagi, augnlækningastöð með aðsetur í Reykjavík. Sjúkrahúsið lagði til aðstöðuna en augnlæknar hjá Sjónlagi vinna úr niðurstöðum greiningartækjanna. Lionsklúbburinn í Vestmannaeyjum tók til við að kynna málið og fékk til liðs við sig fleiri Lionsklúbba á Suðurlandi. Saman tókst þeim að afla 50% þess fjár sem tæknibúnaðurinn kostaði og með stuðningi Alþjóðahjálparsjóðs LIONS (LCIF) komu hin 50%.

Skemmst er frá því að segja að þetta fyrirkomulag hefur reynst mjög vel. Í stað þess að Vestmannaeyingarnir komi sér upp á land og dvelji í höfuðborginni nokkra daga til að fá augnskoðun, þá hafa þeir einn starfsmann í Eyjum í 40% starfi að annast um tækjabúnaðinn til að framkvæma augnskoðunina og senda niðurstöðurnar til sérfræðinganna fyrir sunnan.

Nokkrir aðilar í heiminum framleiða svona tæki. Sum sjálfsagt nákvæmari og betri en önnur. Þau eru ekki endilega fyrirferðarmikil, og sum jafnvel svo nett að þau má taka í sundur og setja saman á staðnum, og flytja á milli starfsstöðva.

Fjarlækningar í augnlækningum


Þó svo tölvan komi seint í stað mannlegra samskipta þá verður að játa að tölvutæknin hefur gert okkur kleift að einfalda lífið verulega. Það munu ekki líða mjög mörg ár áður en við getum framkvæmt flóknar skurðaðgerðir „úti í bæ“, með aðstoð tölvutækninnar.

En við erum nú ekki komin þangað enn.

Austurlandið þarfnast svona tækjabúnaðar. Þörfin er orðin mjög knýjandi, ekki bara vegna fjölgunar íbúa og hækkandi lífaldurs, heldur og kannski fyrst og fremst vegna þess gríðarlega mikla sparnaðar sem svona verklag hefur í för með sér. Við þurfum því að bretta upp ermar og hefjast handa!

Höfundur býr á Vopnafirði og er verkefnisstjóri Lions í umdæmi 109A, höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar