Fljúgum hátt – um hagsmuni landsbyggðar og innanlandsflug
Ég var svo heppinn að geta fylgst með í gegnum internetið málþinginu um innanlandsflug sem fór fram í síðustu viku og verð að segja, sem brottfluttur Austfirðingur og í hjarta mínu mikill landsbyggðarmaður, að ég var sammála og gat tengt við hvert einasta orð sem þar kom fram.Ég er svolítið í sérstakri stöðu þar sem ég er bæði Austfirðingur í grunninn, á foreldra og fjölskyldu á Egilstöðum en á sama tíma starfa ég sem flugmaður hjá fyrirtækinu sem svo oft er til umræðu, sem heitir í dag Air Iceland Connect. Þar hef ég starfað, með nokkrum hléum þó vegna flugnáms og svo uppsagna eftir hrunið, frá árinu 2000 og þar af sem flugmaður síðan 2007.
Ég er afar illa haldinn af sjúklegum áhuga á flugi, flugvélum og flugtækni, dellu sem bara virðist versna með aldrinum. En þegar ég hugsa til baka og leita að ástæðunni fyrir þessum ofboðalega áhuga sem ég fékk sem táningur á Egilsstöðum þá kemst ég að þeirri niðurstöðu að hann stafi helst af því að mér fannst svo stórkostlegt hvernig þessi tæki gátu rofið þessa miklu einangrun sem var mikið rædd á málþinginu.
Á meðan allar leiðir út úr bænum voru ófærar vegna snjóa, vinda, flóða, skriðufalla eða af hvaða ástæðu sem er, braust allt í einu Fokker 50 út úr kófinu, lenti og sótti fólk sem var svo bara mætt til höfuðborgarinnar á hinum enda landsins aðeins klukkutíma seinna! Magnað! Kannski voru það örlögin sem ollu því að ég endaði í flugmannsvinnu hjá Flugfélagi Íslands (nú Connect…), því það er að ég held akkúrat þetta „afeinangrunar-element“ sem heldur við og magnar upp ástríðuna hjá mér fyrir innanlandsfluginu því að minnsta kosti hef ég ekki enn fundið hjá mér neinn sérstakan áhuga til að skipta yfir í þotuflugið til og frá landinu, þó eru víst nóg tækifærin í því í dag.
Ég þekki það því vel sjálfur hversu mikilvægt það er að geta komist til og frá höfuðborginni í hvaða erindagjörðum sem er á viðráðanlegu verði þegar maður býr á afskekktum og einangruðum svæðum.
Mér finnst þessi hugmynd um þessa svokölluðu „skosku leið“ (ADS – Air Discount Scheme) mjög góð og algerlega tilvalin sem tiltölulega ódýr byggðaaðgerð til að styðja við samfélagið út á landi og þáttur í að jafna þennan aðstöðumun sem hefur verið markvisst byggður upp af stjórnmálamönnum síðustu áratugina. Við skulum passa okkur á því að halda umræðunni málefnalegri og skapa einróma þrýsting á stjórnvöld að gera nú eitthvað í þessum málum þannig að þessu verði nú komið á sem fyrst.
Mig langar líka að nefna annað mál sem ætti að vera öllum notendum innanlandsflugsins hugleikið, það er framtíð Reykjavíkurflugvallar. Fyrir utan bardagann um að fá skosku leiðina í gegn og innanlandsflugið skilgreint sem almenningssamgöngur, þá eru málefni flugvallarins það sem allir notendur flugsins ættu að þrýsta á að verði leyst með farsælli lendingu í Vatnsmýrinni (já ég veit, glæsilegt myndmál…) því að verði vellinum lokað, þá er í raun ekki um annað að ræða en að færa innanlandsflugið til Keflavíkur með tilheyrandi lengdum flugtíma, auknum kostnaði og mun lengri aksturstíma til og frá flugvellinum. Með öðrum orðum, enn aukið á aðstöðumuninn.
Við skulum passa okkur á að láta ekki skrumskælda og afvegaleidda umræðu telja okkur trú um nokkuð annað. Það er þess vegna risastórt hagsmunamál íbúa landsbyggðarinnar að völlurinn fái að vera áfram þar sem hann er, hvort sem það er í núverandi eða breyttri mynd.
Með allan hreppa-, landshluta- og bæjarríg lagðan á hilluna (í bili a.m.k.) þá finnst mér að þetta þrennt, innanlandsflug sem almenningssamgöngur, fjárfesting yfirvalda í samgöngum í formi sem líkustu skosku leiðinni og framtíðarstaðsetning Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri vera heilaga þrenningin sem hver einn og einasti íbúi landsbyggðarinnar ætti að geta sameinast um og þrýst á einróma og á öflugan hátt. Sameinuð erum við ofurefli!
Það eru bara of mörg tækifæri á landsbyggðinni sem munu mörg hver fara til spillis ef ekki verður nú ráðist í að koma á móts við aðstöðumuninn títtnefnda. Þetta er mitt hjartans mál og vonandi sem allra flestra. Það eru að koma kosningar.
Að lokum langar mig að þakka öllum þeim sem unnu að því að koma á þessu málþingi sem var í alla staði mjög vel heppnað og upplýsandi og sérstaklega þakka aðstandendum Facebook-síðunnar „Dýrt Innanlandsflug – Þín upplifun“ fyrir öfluga baráttu fyrir bættum lífskjörum á landsbyggðinni. Ég er aðdáandi númer eitt!