Flugsamgöngur í Norðausturkjördæmi

Eitt stærsta byggðamál Norðausturkjördæmis, og reyndar landsbyggðarinnar í heild sinni, er efling samgangna. Slíkar aðgerðir eru forsenda þess að sá efnahagslegi ávinningur, sem fylgir fjölgun ferðamanna, skili sér út um land í meira mæli en nú er.


Mikið hefur verið ritað og rætt undanfarna áratugi um flugvöllinn í Vatnsmýri, enda gegnir hann lykilhlutverki í loftbrú höfuðborgarsvæðisins til landsbyggðarinnar. Margir halda því fram að baráttan um þennan höfuðborgarflugvöll sé töpuð, að hann muni þurfa að víkja fyrir öðrum mannvirkjum. Borgarstjórn Reykjavíkur, sem fer með skipulagsvald yfir Vatnsmýrinni, vill losna við hann svo þétta megi byggð, líkt og gert hefur verið víða erlendis. Nú er sú staða uppi að neyðarbrautin hefur verið aflögð, þannig að sjúkraflug er í uppnámi, a.m.k. við ákveðin veðurskilyrði, og þá vaknar sú spurning hvort ekki sé rökrétt að hinar brautirnar verði aflagðar í kjölfarið.

Það hlýtur að teljast undarlegt hversu lítinn gaum stjórnvöld hafa gefið þessu stóra hagsmunamáli. Hver borgarstjórnarmeirihlutinn eftir annan hefur lýst vilja sínum að losna við flugvöllinn af þessum stað og hver ríkisstjórnin eftir aðra hefur yppt öxlum í tómlæti og áhugaleysi.

Það hlýtur að vera keppikefli Pírata að tryggja góðar flugsamgöngur við höfuðborgarsvæðið til framtíðar, hver svo sem nákvæm staðsetning flugvallarins verður, og sjúkraflugið vegur þar þyngst.

En það er annað mál sem hefur verið lítt áberandi og það snýr að himinháum fargjöldum í innanlandsflugi. Farmiði milli Egilsstaða og Reykjavíkur, báðar leiðir, kostar allt að 50.000 krónum og farmiði milli Akureyrar og Reykjavíkur, báðar leiðir, getur hæglega kostað 35.000 krónur. Það liggur í augum uppi að almenningur í landinu getur ekki leyft sér slíkan munað, nema endrum og sinnum og í raun skiptir nákvæm staðsetning flugvallar á höfuðborgarsvæðinu litlu máli ef fólk hefur ekki efni á að fljúga þangað.

Það kemur því ekki á óvart að Íslendingum fækki í innanlandsflugi. Þessu þarf að breyta og það væri verðugt verkefni fyrir þingmenn landsbyggðarinnar að beita sér fyrir niðurgreiðslu og/eða niðurfellingu gjalda þannig að almenningi verði gert kleift að nýta sér flugsamgöngur oftar en hann getur nú. Stórbættar samgöngur munu efla hagsæld á landsbyggðinni og bæta lífsgæði. Við Píratar munum ekki láta okkar eftir liggja til að tryggja að svo megi verða.

Höfundar skipa 1. og 2. sæti á framboðslista Pírata við kosningar til Alþingis þann 29. október næstkomandi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.