Öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðar

huld_adalbjarnardottir_nov12_web.jpg
Markmið okkar sem þjóð hlýtur að lúta að velferð fólksins í sátt við aðrar þjóðir, náttúru og umhverfi.

Hlutverk ríkisvaldsins er að skapa aðstæður þar sem einstaklingarnir hafa sem bestu tækifærin til góðrar heilsu, náms og atvinnu um allt land. Velferð er margþætt og kemur að öllum þáttum mannlífsins og er mikilvægt að einangra hana ekki í einu ráðuneyti heldur á hún að vera leiðarljósið í stefnumörkun bæði hjá löggjafar- og framkvæmdarvaldinu, á Alþingi og í ráðuneytunum.

Öryggi, heilsa og tækifæri til menntunar og þroska eru þættir sem mörgum okkar þykja sjálfsagðir en til eru hópar í samfélaginu sem njóta ekki þessara kjara af mismunandi ástæðum og verðum við sífellt að halda vöku okkar og leita leiða til að finna lausnir með þeim.

Heilbrigðisþjónustan, löggæslan og menntastofnanirnar auk margþættrar félagsþjónustu hafa mismunandi en öll mikilvægum hlutverkum að gegna. Þessa þjónustu þarf að styrkja sem víðast til að við sem þjóð náum markmiðum okkar um velferð fólksins í landinu.

Ljóst er að til þess að verja og styrkja þjónustuna þarf aukið fjármagn. Hvaðan á að taka það fjármagn? Skattleggja þjóðina enn frekar og fjölga þá jafnvel í þeim hópum sem ekki njóta þeirra kjara sem við flokkum sem sjálfsögð mannréttindi? Skattleggja fyrirtækin enn frekar þannig að rekstrargrundvöllur þeirra verði enn tæpari? Felst ekki lausnin í því að nýta tækifærin til atvinnuuppbyggingar á sem flestum sviðum, auka verðmætasköpunina og auka þannig ráðstöfunartekjur íslensku þjóðarinnar? 

Ísland býr yfir ríkulegum auðlindum í náttúru og þekkingu, möguleikarnir eru margir og fjölbreyttir en það þarf kjark og þor til að stíga ný spor og veðja á framtíðina. Nú ríður á að vinna hratt og af sanngirni að atvinnuuppbyggingu um land allt, nýta möguleikana og styðja þau verkefni sem sátt er um í byggðalögunum. Virkjum mannauðinn í öllu landinu, þekkinguna á staðháttum, á mismunandi atvinnugreinum, náttúru, auðlindum og á vilja fólksins.
 
Vinna þarf að því að jafna samkeppnishæfni byggðarlaganna til að möguleikarnir opnist sem víðast. Að jafna raforkuverð og húshitunarkostnað er sanngirnismál svo og að koma á öruggum samgöngum og fjarskiptum. Brýnt er að taka höndum saman, nýta auðlindirnar skynsamlega og efla atvinnustarfsemi í sem víðustum skilningi m.a. innan sjávarútvegs, landbúnaðar, þekkingariðnaðar, ferðaþjónustu og menningar með það að markmiði að auka verðmætasköpunina. Bestu lausnirnar nást með samvinnu og vilja til að hlusta á og taka tillit til ólíkra sjónarmiða. Ríkisvaldinu ber að vinna með fókinu í landinu, fólkinu sem tilbúið er til að leggja sitt af mörkum með þekkingu, útsjónarsemi og vinnu.

Til að verja megi og styrkja velferðakerfið og heimilin í landinu þarf að vera kraftur og fjölbreytni í atvinnulífinu því er það forgangsmál að styrkja stoðir þess og búa því sanngjarnt umhverfi svo fyrirtækin hafi möguleika til viðhalds og vaxtar. 

Huld Aðalbjarnardóttir
Frambjóðandi í 2.-3. sæti á lista framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar 2013.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.