Fínu skoteldaveðri spáð um áramót

Útlit er fyrir að ágætt veður verði til að kveðja gamla árið með brennum og flugeldaskotum og fagna nýju. Besta veðrinu er spáð á Austurlandi. Veðurstofa Íslands spáir því að um miðjan dag á gamlársdag verði hæg austanátt með éljagangi sunnanlands, nokkuð samfelldri slyddu eða snjókomu. Á miðnætti er reiknað með stöku éljum með austanáttinni. Spáð er úrkomulausu norðaustanlands.

11_07_68---fireworks_web.jpg

Norska veðurstofan, www.yr.no, sem oft hefur reynst sannspá um veður á Austurlandi, segir að á gamlársdagsmorgun verði í Neskaupstað skýjað, 3 m/sek af norð-norðaustri, úrkomulaust og tveggja stiga frost. Að deginum er spáð sama frosti, hægum vindi af suðaustri og 0,8 mm snjókomu. Úrkomulaust verður samkvæmt spánni á gamlárskvöld, tveggja stiga frost og hægur vindur af suð-suðaustri.

Á Egilsstöðum er að sama skapi spáð skýjuðu að morgni gamlársdags, 1,8 m/sek af aust-suðaustri, 4 stiga frosti og úrkomulausu. Yfir daginn skýjað, hæg gola úr suð-suðaustri og úrkomulaust, frost þrjár gráður. Á gamlárskvöld gerir spá norsku veðurstofunnar svo ráð fyrir suðlægri átt, 2,8 m/sek, úrkomulausu og fimm stiga frosti.

 Svo er bara að vona að veðurstofurnar hafi rétt fyrir sér, en útlitið er gott hvað varðar flugeldaveður á Austurlandi um áramót.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar