Forgangsröðun á erfiðum tímum
Jónína Rós Guðmundsdóttir skrifar: Það er mikið talað um starfskenningu fagstétta núna, hver starfsmaður er hvattur til að vera meðvitaður um á hvaða lífssýn og fræðum hann byggir starf sitt. Það er meinhollt fyrir alla að fara í svona naflaskoðun. Ég held að það sé engri stétt hollara en stjórnmálafólki að spyrja sig stöðugt að því hvort það sé að vinna samkvæmt sinni lífssýn og stefnu.
Pólitík snýst um að móta stefnu, að forgangsraða, að taka ákvarðanir og að framkvæma. En póltísk umræða á ekki að fara fram í reykfylltum bakherbergjum heldur úti á meðal fólksins, í lýðræðislegu samstarfi almennings og þeirra sem hann hefur valið sem fulltrúa sína í sveitarstjórnir og til starfa á Alþingi. Starf stjórnmálafólks á að vera að hlusta á raddir umbjóðenda sinna um leið og það þarf að hafa kjark til að taka erfiðar og umdeildar ákvarðanir.
Löggjöf, reglugerðir og fyrirmæli frá hinu opinbera má ekki setja fólk í kassa sem allir eru eins. Tryggja þarf sveigjanleika í heilbrigðismálum fyrir misveikt fólk, í öldrunarmálum fyrir mishresst fólk, í skólamálum fyrir mishraða krakka og svo má lengi telja.
Mér finnst verkefni samfélagsins kalla hástöfum og mig langar til að bregðast við kallinu með þá lífssýn að vopni sem ber virðingu fyrir fólki og hlustar á fólk
Ég hvet ykkur til að taka þátt í opnu prófkjöri Samfylkingarinnar 5. – 7. mars nk. Ég býð mig fram til forystu á listanum og bið um stuðning ykkar í 1. eða 2. sætið.