Forsætisráðherra Finnlands: ESB aðild er ekki einföld spurning fyrir dreifbýli
Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands, segir möguleika til vaxtar fyrir dreifbýli og landbúnað til vaxtar innan Evrópusambandsins. Þessi svæði hafi samt upplifað bæði þenslu og samdrátt síðan Finnar gengu í Evrópusambandið.
Vanhanen var staddur á Egilsstöðum í byrjun vikunnar vegna fundar norrænu forsætisráðherranna. Meðal þess sem rætt var á fundinum var hugsanleg innganga Íslands í Evrópusambandið. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagðist vonast til að samþykkt yrði í júlí að hefja aðildarviðræður, um svipað leyti og Svíar taka við formennsku í Evrópuráðinu. Hún bætti samt við að Íslendingar yrðu að semja um undanþágur vegna sjávarútvegs- og landbúnaðar. Ef ekki næðust viðunandi samningar um sjávarútvegsmál yrði ekki mælt með inngöngu í sambandið á síðari stigum.
Fjórtán ár eru síðan Finnar gengu í sambandið. Ríkið er eitt það strjálbýlasta í Evrópu og fékk sérstakar undanþágur vegna þess við inngönguna. „Við gerðum sérstaka samninga um svæði þar sem íbúar eru átta eða færri á hvern ferkílómetra. Byggðastefna skiptir máli í ESB og byggðastefna ESB hefur hjálpað okkur,“ sagði Vanhanen í samtali við Austurgluggann.
Fækkun býla hófst fyrr
Gagnrýnendur aðildar Íslands að sambandinu hafa vísað til fækkunar býla, eða samdráttar, í landbúnaði, einkum í norður Finnlandi og bent á að íslensks landbúnaðar gætu beðið svipuð örlög innan sambandsins.
„Býlum í Finnlandi hefur fækkað eftir að við fórum inn í sambandið en sú þróun byrjaði miklu fyrr. Í dag verður landbúnaður að vera hagkvæmur. Bændasynir eða dætur taka ekki við býlunum nema þau skili arði,“ sagði Vanhanen. „Evrópusambandsaðildin hefur ekki verið einföld spurning fyrir dreifbýlið en við spyrjum okkur alltaf að því hvað gerst hefði án aðildar.“
Þegar Finnar sóttu um aðild að ESB í byrjun tíunda áratugarins var landið í djúpri efnahagslægð. „Ef ég hugsa um aðildina í heild sinni þá held ég að hún hafi hjálpað finnskum efnahag og tryggt meiri stöðugleika í dreifbýlinu.“
Skoðið hvað er til staðar
Á ráðherrafundinum ítrekuðu allir norrænu ráðherrarnir vilja sinn til að hjálpa Íslendingum með ráðum og góðum orðum á leið þeirra inn í sambandið. Vanhanen hvetur Íslendinga til að kanna þá styrki sem þegar eru til staðar.
„Inn í styrkjakerfi ESB er svokallað LFA (Less Favorable Areas, styrkur til staða þar sem búseta er erfið). Hluti finnsk landbúnaðar fær styrki í gegnum LFA og innan sambandsins erum við að ræða um ný skilyrði fyrir þessum styrkjum. Sambandið leggur áherslu á að stundaður sé landbúnaður alls staðar innan þess, meira að segja þar sem veðurskilyrði eru óhagstæðari. Ég hvet ykkur til að skoða mjög nákvæmlega hvað er til staðar í kerfinu sem hjálpað getur íslensku dreifbýli og landbúnaði.“
Vanhanen er formaður finnska miðflokksins. Hann er með menntun í stjórnmálafræði og vann sem blaðamaður og ritstjóri áður en hann var kosinn á þing árið 1991. Hann hefur verið forsætisráðherra Finnlands frá árinu 2003. Seinni hluta ársins 2006 var hann forseti Evrópuráðsins fyrir hönd Finna, þótt hann hafi á margan hátt þótt gagnrýnin á Evrópusambandið.