Frá Preston til Borgarfjarðar

Þótt við skilgreinum stjórnmálin oft á hægri/vinstri kvarða og birtingarmynd hans sé sjaldnast skýrari en í öflun og ráðstöfun hinna sameiginlegu fjármuna þá fer stefnan stundum í hringi og hittir sjálfa sig fyrir. Í fyrstu sýn eiga Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Jeremy Corbyn, formaður breska Verkamannaflokksins, fátt sameiginlegt.

Báðir tala hins vegar fyrir efnahagsstefnu sem snýr baki við alþjóðavæðingu og boðar að eyða skuli aurunum í nærumhverfinu til að styrkja það. „Make America Great Again“ stefna Trump snýst um að hafa hemil á útrás og útstreymi fjármuna úr bandaríska efnahagskerfinu. Þrátt fyrir allan hans hroka og hleypidóma er áhugavert að fylgjast með hvernig til mun takast.

Besta fordæmið sem Corbyn hefur haft er enska borgin Preston, sem á svo margan hátt má muna sinn fífil fegurri. Sagan af viðsnúningi borgarinnar var sögð í fjölmiðlum á borð við The Guardian og Economist nýverið. Árið 2011 var borgarsjóður tómur, rétt fyrir hrun var veðjað á uppbyggingu stórrar verslunarmiðstöðvar, en eftir hrun drógu stórverslanirnar að sér hendur svo hugmyndin var loks slegin út af borðinu.

Borgin þurfti að skera verulega niður í rekstri en á sama tíma var mörkuð sú stefna að reyna að eyða öllu fjármagni í heimabyggð. Háskólinn á svæðinu var fenginn til að taka saman hvernig stefnan reyndist og skila inn gögnum.

Árið 2013 eyddu sex þjónustustofnanir borgarinnar 38 milljónum punda í henni sjálfri og 292 í héraðinu. Í fyrra var talan komin í 111 milljónir í borginni og 486 í héraðinu. Tölurnar eru ekki síst eftirtektarverðar því á sama tíma lækkuðu heildarútgjöld stofnana úr 750 í 616 milljónir. Háskólinn vann einnig nánari greiningar, 63 af 100 pensum sem fóru til lítilla eða meðalstórra fyrirtækja urðu eftir á svæðinu en 40 af 100 sem fóru til til stórfyrirtækja.

Borgaryfirvöld hafa stutt við samvinnufélög í borginni og frumkvöðlaverkefni. Minni verktakar kunnu ekki að sækja um stærri verk þannig þeir fengu þjálfun í því. Þegar samningur um skólamáltíðir við stórfyrirtæki rann út var samið við heimamenn. Áætlað er að það hafi skilað bændum á svæðinu tveimur milljónum aukalega á ári. Á sama tíma hefur brúnin lyfst á borgarbúum eftir um áratuga niðursveiflu og fræga fólkið er farið að kíkja við til að skoða þetta undur.

Hví skiptir stefnan um að skipta við aðila í heimabyggð máli fyrir Austfirðinga? Eins og í Preston og á ákveðnum svæðum Bandaríkjanna hafa breyttir atvinnuhættir, hnattvæðing og fleira orðið þess valdandi að íbúum Austurlands hefur fækkað.

Í vor var verkefninu Brothættar byggðir hleypt formlega af stokkunum á Borgarfirði eystri. Íbúar þar töldu forgangsmál að efla verslun og þjónustu í heimabyggð. Til stærri staða og fyrirtækja er hún áminning um að fleiri þættir skipta máli við ráðstöfun almannafjár en bara hrá krónutala tilboðs.

Fordæmið frá Preston bendir til þess að fyrir svæði í vörn sé það raunverulega góð efnahagsleg ráðstöfun að stunda sem mest viðskipti í sínu nærumhverfi, jafnvel þótt fyrsti reikningurinn sem berst inn um lúguna sé aðeins hærri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar