Framtíðarsýn á Austurlandi - ógnanir og tækifæri...

Valdimar O. Hermannsson skrifar:      Á öllum tímum er bæði nauðsynlegt og skynsamlegt fyrir alla að staldra við og setja sér markmið fyrir komandi framtíð. Þetta á alls ekki einungis við um áramót, þegar fólk gjarnan stígur á stokk og setur sér háleit markmið fyrir árið, um persónulegan árangur í m.a. að taka sig nú á í ræktinni, aukna útivist og að ná betri árangri í vinnu eða íþróttum. 

Vissulega er öll markmiðasetning af hinu góða en hvernig er staðan á áramótaheitunum núna þegar komið er fram yfir miðjan febrúar? Eða vorum við kannski ekki alveg búin að ákveða eða útfæra þau vel, hvað þá að setja þau á blað með mælanlegum viðmiðunum?

 

Framtíðarsýn á Austurlandi:  

Nú eru að ganga yfir land vort og þjóð miklir umbrotatímar í efnahagslegu  sem og í  atvinnulegu tilliti, sem vissulega eiga  sér skýrskotun í alþjóðlega heimskreppu sem hefur þó ólíkar birtingarmyndir á milli landa og heimsálfa. Það væri nú að æra óstöðugan að ætla að fara að skrifa meira um “kreppuna” svokölluðu, enda dynja þau ósköp yfir okkur í nær öllum fréttatímum og í fréttaskýringarþáttum þar að auki, og sýnist nú sitt hverjum um það hverju er að kenna og hverjar séu orsakir eða afleiðingar einstakra vandamála.

En hvernig sem staðan er í einstökum málum eða málaflokkum, nú um stundir, þá mun það í öllu tilliti hjálpa okkur öllum út úr vandanum að hafa sem skýrasta framtíðarsýn fyrir okkur sjálf og um leið fyrir  okkar nánasta umhverfi þ.e. einstök sveitarfélög  og líka fyrir  ALLT Austurland í heild sinni, sem auðvitað á alltaf að líta á sem eitt samfélag.

Að baki eru miklir uppgangstímar á Austurlandi með einum mestu framkvæmdum Íslandssögunnar a.m.k. til þessa, með virkjana- og stóriðjuframkvæmdum og öllum þeim  afleiddu störfum og þjónustu sem henni fylgdi bæði á meðan á framkvæmdunum stóð og einnig varanlegri uppbyggingu, sem enn er ekki að öll leyti komin til framkvæmda ennþá.

 

Það hafa allir séð og fundið, sem það hafa viljað á annað borð, hvað þetta hefur þýtt fyrir mest allan landsfjórðunginn hér á Austurlandi, nema þá ef vera skildi  afar illa upplýstur núverandi umhverfisráðherra, sem  vonandi er bara tímabundið í sínu vinstri-græna sæti.

Þetta ætti reyndar ekki að koma svo mjög á óvart, þar sem oddviti þessar sömu hreyfingar  í NA-kjördæmi, staðfesti á framboðsfundi í Egilsbúð fyrir síðustu alþingiskosningar að hans vinstri-græna hreyfing væri á móti allri slíkri atvinnuuppbyggingu, sem skapaði svo mörg góð störf, eins og reyndar svo fjölmörgu öðru.

Það þarf vissulega að hugsa um allt hitt líka, þ.e. að huga að nýsköpun í atvinnulífi, og styðja við sprotafyrirtæki stór og smá, hjálpa góðum hugmyndum að vaxa og alls ekki hafa öll eggin í sömu körfunni. Fjölbreyttar undirstöður og margskonar atvinnustarfsemi.

Þess vegna höfum við hér á Austurlandi, sem og annarsstaðar á landinu, t.d. starfsemi: Þróunarfélag Austurlands, Þekkingarsetur, Námsver, Búland, Vaxtasamninga, Markaðsstofu Austurlands, verkefnastjóra  fyrir einstök uppbyggingarverkefni og atvinnuþróunarfulltrúa, og margt fleira  í þeim dúr, þar sem unnið er þarft og gott starf, sem m.a. miðar að því að styðja við góðar hugmyndir og koma þeim á réttan rekspöl.  

Undirritaður telur það vera einn af mestu styrkleikum Austurlands, við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu og í samfélagi þjóða, að hafa á sínu svæði fjölbreytta og styrka gjaldeyrisskapandi framleiðslu- og útflutningsvæna atvinnuvegi, þar sem fremst fara m.a. sjávarútvegur, stóriðja og annar iðnaður, landbúnaður, og fjölbreytt verslun og þjónusta.

Þá er ferðaþjónusta, í allri sinni mynd, að verða á stærri atvinnugrein hér á Austurlandi.

Vissulega skipta einnig máli samfélagslegir grunnþættir svo sem góð heilbrigðisþjónusta og menntakerfi á sem flestum stigum, sem hefur störf fyrir  háskólamenntað og annað sérfræðimenntað fagfólk á ýmsum sviðum. Allt leggst þetta á eitt til þess að byggja upp og halda við góðu og farsælu samfélagi á Austurlandi þar sem eitt styður við annað.

 

…ógnanir: 

En það eru vissulega ýmsar ógnanir sem að steðja um þessar mundir sem ekki verður horft framhjá.  Má þar fyrst nefna að á sama tíma að miklum framkvæmdum hér á Austurlandi er að ljúka, sem í öllu venjulegu árferði hefði kallað á samdrátt og aðlögun að nýjum viðmiðum, eftir uppgang til margra ára, þá skellur á efnahagslegt óveður sem ekki sér fyrir endann á og gerir annars óumflýjanlega aðlögun á svæðinu að hruni á sumum sviðum og svæðum, með gjaldþrotum og atvinnuleysi í mun meira mæli en við höfum áður séð á þessm slóðum. Þá  er það með öllu ótækt, óþolandi og ólíðandi, við þessar erfiðu aðstæður að enn sé alið á gamaldags hrepparíg og metingi á milli svæða á Austurlandi, sem gerir það að verkum að allt of mikill tími og orka fer til spillis í heild.

Það ætti að vera umhugsunarefni fyrir alla íbúa á Austurlandi að nú er tími samstarfs og sameininga, og tími til þess að byggja upp á nýjum gildum, með góða reynslu að vopni.

Það ætti að vera meira virði fyrir íbúa á Austurlandi að hafa fjölbreytta þjónustu og góð lífsgæði í sínum landshluta, heldur en í hvað byggðakjarna sú þjónusta  eða afþreying er nákvæmlega staðsett eða veitt, því við getum alls ekki haft allt af öllu á hverjum stað.

Fleiri ógnanir mætti eflaust nefna, er að okkur snúa, en það er okkar að snúa ógnunum í tækifæri til úrlausnar, enda er það svo miklu skemmtilegra að líta á málin með þeim hætti

 

... tækifæri: 

Það gæti verið stærsta verkefnið að snúa vörn í sókn og ógnunum í tækifæri til framtíðar. Við þurfum öll, hvar sem við stöndum í hinu daglega lífi, að stíga aðeins út úr okkar daglega ramma, og horfa á málin utan frá  og reyna að sjá tækifæri til breytinga. Tækifæri til þess að setja okkur ný markmið og viðmið í lífinu. Sjá með raunsönnum hætti hvar við erum í dag, og hver hin raunverulega staða er, en það sem skiptir mestu máli er að ákveða hvert við ætlum að stefna og hvernig við ætlum að komast þangað.

Ég óska okkur öllum góðrar ferðar í þeirri löngu vegferð sem framundan er til framtíðar.

  

Höfundur er fyrst og fremst íbúi á Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar