Framtíð fólksins sem byggði upp nútímann

Í sameiningarferli sveitarfélaganna Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Fljótsdalshéraðs og Djúpavogshrepps hefur verið lögð áhersla á að sameiningin muni bæta þjónustu og styrkja samfélagið í þessum byggðum.

Sú sveitarstjórn sem tekur til starfa í sameinuðu sveitarfélagi þann 4. október næstkomandi kemur aðeins til með að starfa í tuttugu mánuði. Það gefur augaleið að á þeim tíma þarf að leggja mikla vinnu í að samþætta starfsemi og þjónustu í sveitarfélaginu og ekki gefst færi á að veita framgöngu öllum þeim málum sem brenna á okkur.

En þrátt fyrir að starfstími fyrstu sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags verði stuttur, eða einmitt þess vegna, þurfum við að hugsa lengra fram í tímann og leggja línurnar fyrir framtíðina. Þetta tuttugu mánaða kjörtímabil verður prófsteinn á margt í sameiningu stjórnsýslunnar og formáli að næstu köflum í sögu nýs sveitarfélags. Öll viljum við að þeir kaflar verði vel skrifaðir í upphafi.

Í þessum fjórum sveitarfélögum hefur þjónustustig verið mismunandi og á það ekki síst við um það sem snýr að eftirlaunaþegum. Stærri byggðarlögin, Hérað og Seyðisfjörður hafa meira framboð af þjónustu fyrir aldraða en þau smærri þar sem lágmarksþjónusta er í boði. Meðan Fljótsdalshérað bætti þjónustu og framboð af húsnæði fyrir aldraða horfa íbúar Djúpavogshrepps upp á að neyðast til að flytja í önnur byggðarlög þegar þeir eiga orðið erfitt með að halda heimili sjálfir.

Austurlistinn leggur áherslu á að í nýju sveitarfélagi verði í boði húsnæði fyrir alla og telur að það ætti að vera skýlaus krafa í hverju samfélagi að öldruðum standi til boða hentugt húsnæði sniðið að þeirra þörfum. Í hverju byggðarlagi nýs sveitarfélags ætti því að vera boðið upp á þjónustuíbúðir til leigu eða kaups fyrir aldraða. Íbúðir sem auðvelda fólki að halda eigið heimili og í aðstæðum sem stuðla að sjálfstæði íbúanna. Í íbúðarkjörnum þar sem þjónusta á borð við heitan mat, tómstundastarf og dagdvöl er í boði og með aðstöðu fyrir þá sem vilja bjóða íbúum þjónustu, s.s. fótaaðgerðarfræðingar, hárgreiðslufólk og naglafræðinga og með aðstöðu fyrir starfsemi félaga eldri borgara.

Vilji er ekki allt sem þarf en viljinn er leið að ákvörðunum. Þegar þær hafa verið teknar er hægt að stíga það skref að finna leiðir til að koma hlutunum í framkvæmd. Ef við getum verið sammála og gert kröfur um bættar vegasamgöngur ættum við líka að geta lagst á eitt með að gera áætlanir og kröfur um að nauðungarflutningum aldraðra sé lokið. Við verðum að gera okkar besta til að bjóða þeim að „eiga áhyggjulaust ævikvöld“ á þeim stað sem rætur þeirra eru og þeir vilja búa.

Vonandi er framtíð okkar allra að verða öldruð og sú framtíð ætti að einkennast af því að við eigum kost á því að fá aðstoð sem við stýrum sjálf, fáum að ákveða við hvað aðstoðin er veitt, hvenær hún fer fram og hver veitir hana og að þetta val eigi ekki eingöngu við um fólk yngri en 67 ára.

Höfundur er varamaður í sveitarstjórn Djúpavogshrepps og skipar 4. sæti Austurlistans í komandi sveitarstjórnarkosningum sameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðar eystri, Djúpavogs, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar