Orkumálinn 2024

Framtíðarskipulag í útbæ Eskifjarðar

Nýtt deiliskipulag Hlíðarenda og varnamannvirkja ofan byggðar á Eskifirði var unnið árið 2016 og samþykkt í bæjarstjórn 15. desember sama ár. Deiliskipulagið var unnið í samræmi við skipulagslög og skipulagsreglugerð og í samræmi við gildandi aðalskipulag Fjarðabyggðar 2007-2027.

Í deiliskipulaginu er lagt til að hverfisvernda hús. Það eru þau hús sem eru hluti af samstæðu húsa eða mikilvæg í götumyndinni og því mikilvæg vernd fyrir heildaryfirbragð svæðis. Í gerð skipulagsins er ekki lagt til að vernda Strandgötu 98b en þessi vernd byggir á húsakönnun sem Hörður Ágústson gerði árið 1980 og samþykkt er af Minjastofnun.

Vert er að taka fram að Minjastofnun sendi inn umsögn er varðar deiliskipulagið, en ekki var gerð athugasemd við fasteignir að Strandgötu 98b. Þau hús voru byggð árin 1947 og 1952.

Í lögum um menningarminjar nr. 80 frá 1. janúar 2013, gr.29 eru öll hús og mannvirki sem eru 100 ára eða eldri friðuð. Óheimilt er að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar.

Eigendur eignarlóða og fasteigna Sporðs hf. upplýstu bæjaryfirvöld um fyrirhugaða sölu Strandgötu 94 og 98b, þegar rekstur fyrirtækisins hafði verið seldur úr sveitarfélaginu. Eigendur húseigna vöktu máls á því að eignarlóðirnar væru staðsettar á hverfisverndarsvæði samkvæmt aðalskipulagi Fjarðabyggðar og að þær liggi að safnasvæði sem, samkvæmt gildandi deiliskipulagi, er áætlað að myndi heilstætt yfirbragð innan svæðisins með nýju yfirborðsefni, lýsingu, torgsvæðum og gróðursetningu. Jafnframt að áform séu um að flytja Gömlubúð á umrætt safnasvæði.

Samhljóða ákvörðun bæjarráðs

Erindið frá eigendum var tekið formlega fyrir í bæjarráði í byrjun árs 2020, þar sem ákveðið var að hefja viðræður við eigendur um kaup á fasteignunum og eignarlóðunum. Bæjarráð samþykkti á 651. fundi sínum að undangengnum viðræðum að taka gagntilboði eigenda í Strandgötu 98b upp á 10,7 milljónir króna. Ákvörðun bæjarráðs byggði á samhljóða niðurstöðu allra kjörinna fulltrúa um að með kaupum eignanna fælist tækifæri til að bæta umferðaröryggi og að útfæra skipulagssvæðið betur til uppbyggingar safnasvæðis til framtíðar. Með viðauka sem gerður var við fjárhagsáætlun ársins var gert ráð fyrir kaupum og kostnaði við niðurrifi húsins.

Deila má um hvort rétt sé að nota fjármagn sveitarfélagsins í uppkaup eigna að Strandgötu 98b til niðurrifs en samkvæmt deiliskipulagi er áætluð landfylling utan þessa svæðis sem er dýr framkvæmd. Með þessum kaupum yrði alltaf þörf fyrir minni landfyllingu og jafnvel yrði hennar ekki þörf sem kemur á móti kostnaði við kaup eignanna. Þá mun niðurrif hússins auka umferðaröryggi íbúa og gesta, því mikil þrengsli eru við aðalgötuna þar sem húsið gengur úti í hana. Umferð bæði gangandi og akandi hefur aukist gríðarlega um svæðið sem skýrist m.a. að aukinni ferðaþjónustu og áhuga á svæðinu.

Beðið eftir svörum Minjastofnunar

Minjastofnun hefur núna stöðvað framkvæmdir við niðurrif og hefur sveitarfélagið óskað eftir fundi með stofnuninni um málið en ekkert svar hefur borist þegar greinin er skrifuð þann 22. janúar, þrátt fyrir ítrekun.

Áhugavert er að Minjastofnun stöðvi framkvæmdir um sama leyti og kjörinn fulltrúi í sveitarfélaginu tjáir sig opinberlega um þessi skipulagsmál og telur rétt að Minjastofnun meti varðveislugildi húsanna. Hvað breyst hefur frá því fyrir fjórum árum í mati stofnunarinnar mun væntanlega skýrast á fyrirhuguðum fundi. Sveitarstjórn hefur allt frá árinu 2010 staðið þétt saman um mikilvægi þess að skipulagsvald hennar sé virt t.a.m. í fjörðum sveitarfélagsins en þar er ríkisvaldið ásamt utanaðkomandi stofnunum með skipulagsvaldið. Skipulagsvald sveitarfélagsins er mikilvægt stjórntæki til framþróunar samfélagsins en það getur e.t.v. verið gott að sveigja af leið þegar hentar og fá þá liðsinni ríkisstofnana innanbæjar.

Á Eskifirði er fjöldi gamalla bygginga, sumar í eigu opinberra stofnana en margar í einkaeign. Hafa einstaklingar og stofnanir staðið mörg hver vel að varðveislu og viðhaldi eigna sinna en áhugi er vaxandi fyrir því að viðhalda og varðveita merkar eignir. Á 279. fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 11. janúar sl. var tekin fyrir umsókn um lóð undir Friðþjófssjóhús, svæði innan lóðar Strandgötu 98b. Áformað er að flytja Friðþjófssjóhúsið af Strandgötu 88 og byggja það upp að nýju á Strandgötu 98b. Friðþjófssjóhús er byggt árið 1933 og fellur því ekki undir lög um menningarminjar vegna aldurs. Aftur á móti er það mín skoðun að það hús falli vel að þessu svæði enda sannarlega eitt af rauðu sjóhúsunum.

Lang flestum eignum er haldið vel við og verum stolt af því. Mikilvægt er að veita gömlum eignum, sem ekki eru íbúðarhúsnæði og ákveðið hefur verið að gera upp eða halda við, hlutverk. Það þarf að forgangsraða framkvæmdum sveitarfélagsins með hag samfélagsins í huga.

Forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og formaður eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.