Framtíðin er björt í Múlaþingi

Saga ungmennaráða á Íslandi er hvorki löng né litrík. Hana má rekja til ársins 1998 í Reykjavík, en það ár var fyrsta ungmennaráðið stofnað í tengslum við tilraunasveitarfélagsverkefni Miðgarðs í Grafarvogi.

Þetta ráð átti eftir að verða það fyrsta af mörgum, þó að ungmennaráðum hafi ekki farið að fjölga að ráði fyrr en með samþykkt nýrra æskulýðslaga árið 2007. Fjölgunina má rekja til þess að í 11. grein laganna er kveðið á um að sveitarstjórnir skuli hlutast til um að stofnuð verði ungmennaráð. Í dag eru starfrækt yfir 50 ungmennaráð í sveitarfélögum landsins.

Hlutverk ungmennaráða

Í framangreindum æskulýðslögum kemur fram að „hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi“. Af þessari skýru og skorinorðu lýsingu má vera ljóst að hlutverk ungmennaráða er afar viðamikið, enda teljast mjög mörg málefni til málefna ungmenna. Þegar betur er að gáð eru raunar sárafá málefni sem ekki koma ungmennum við. Það má því segja að starf ungmennaráða felist aðallega í því að koma skoðunum sínum sem varða sveitarfélagið á framfæri og að vera vettvangur fyrir ungmenni til að hafa áhrif á málefni sem þau telja mikilvæg. Hér í Múlaþingi býr ungmennaráðið svo vel að hafa úr nokkrum mismunandi aðferðum að velja til að hafa áhrif. Í því samhengi eru bókanir ráðsins í fundargerðum líklega áhrifamestar, en þær eru sendar á sveitarstjórn til umræðu og afgreiðslu. Ungmennaráðið er þannig í oddastöðu til að fá fram afstöðu sveitarstjórnarmanna til ákveðinna mála. Þar að auki hefur ráðið kost á að halda tvo sameiginlega fundi með sveitarstjórn á hverjum vetri sem nýtast fyrir munnlegar samræður beggja aðila.

Fljótsdalshérað brautryðjandi í stofnun ungmennaráða

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs var eitt af allra fyrstu ungmennaráðum landsins og tók til starfa haustið 2005. Fyrsti formaður ráðsins var Elín Káradóttir, en síðar meir hefur hún bæði setið á listum Sjálfstæðisflokksins fyrir þing- og sveitarstjórnarkosningar. Allt fram til síðasta fundar haustið 2020 var ráðið í hópi öflugustu og áhrifamestu ungmennaráða landsins. Vert er að taka fram að undirritaður sat í ráðinu frá 2017 og var formaður þess frá 2019. Á þeim tíma naut ráðið góðs af því að hafa yfir að ráða frábærum starfsmanni og samvinnuþýðum bæjarstjórnarmeirihlutum. Með þeirra hjálp tókst ráðinu að koma fjölmörgum góðum málum í gegn og þar að auki að halda m.a. tvö stór og vel heppnuð ungmennaþing um geðheilbrigðismál og skipulagsmál. Segja má að ákveðin vatnaskil hafi orðið í starfsemi ungmennaráðsins eftir að bæjarstjórn féllst á þá tillögu ungmennaráðs að ungmennaráðsfulltrúar fái greitt fyrir setu sína á fundum, en þannig var mikilvægi ráðsins undirstrikað.

Afkastamikið starfstímabil senn á enda

Eftir að Borgarfjarðarhreppur, Fljótsdalshérað, Djúpavogshreppur og Seyðisfjarðarkaupstaður sameinuðust í sveitarfélagið Múlaþing varð til ungmennaráð Múlaþings. Þrátt fyrir miklar takmarkanir á fundahaldi vegna heimsfaraldurs hefur ráðinu gengið vel í störfum sínum. Eftirfarandi mál eru dæmi því til stuðnings:

• Vorið 2021 fékk ungmennaráðið styrk frá Alcoa Fjarðaáli til að gefa um 150 ungmennum í 9.-10. bekk á öllu Austurlandi veglega gjöf að andvirði 13.000 kr. með fjölnota túrvörum.
• Vorið 2021 lagði ungmennaráð til að ærslabelgur verði settur upp á Egilsstöðum. Sú tillaga var samþykkt af bæjaryfirvöldum og stefnt er að því að belgurinn rísi í Tjarnargarði innan tíðar.
• Sumarið 2021 hélt ungmennaráð sameiginlegan fund með sveitarstjórn og lagði þar m.a. til að hafið verði innleiðingarferli að aðild sveitarfélagsins að verkefni Unicef á Íslandi, Barnvæn sveitarfélög. Þetta mál var samþykkt í sveitarstjórn haustið 2021.

Auk alls þess sem ráðinu hefur tekist að áorka það sem af er starfstímabili eru margir áhugaverðir hlutir á döfinni. Þessir tveir verða mest áberandi á næstu mánuðum:
• Ungmennaráð stefnir að því að halda ungmennaþing 28. apríl nk. undir yfirskriftinni „Hvað þýðir þessi sameining fyrir okkur“.
• Ráðið mun standa fyrir skuggakosningum fyrir nemendur Menntaskólans á Egilsstöðum og unglingastigs grunnskólanna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2022.

Ekki er nóg með að það séu spennandi hlutir í farvatninu hjá ungmennaráði heldur bárust líka á dögunum ánægjulegar fréttir af því að University of the Highlands and Islands muni hefja starfsemi í Múlaþingi á þessu ári og bjóða upp á nám á háskólastigi. Aðgengi að háskólanámi í heimabyggð fylgja gríðarleg tækifæri fyrir íbúa Múlaþings, ekki síst þeirra sem yngri eru.

Framtíðin er björt í Múlaþingi – sveitarfélagi tækifæranna!

Höfundur er formaður ungmennaráðs Múlaþings.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar