Orkumálinn 2024

Framtíðin er í þínum höndum: Góð kjörsókn tryggir skýra niðurstöðu

Á laugardaginn kemur verður gengið til kosninga um sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Sameiningarviðræðurnar eiga sér töluverðan aðdraganda. Sveitarfélögin fjögur reka, í samstarfi við Fljótsdalshrepp og Vopnafjarðarhrepp, sameiginlega félagsmála- og barnaverndarnefnd og brunavarnir.

Með vísan til þess góða samstarfs var í byrjun árs 2018 ákveðið að leggja skoðanakönnun fyrir íbúa sveitarfélaganna til að kanna áhuga þeirra á sameiningarviðræðum og í október sama ár samþykktu sveitarstjórnirnar að hefja formlegar sameiningarviðræður.

Samstarfsnefnd var skipuð þremur fulltrúum frá hverju sveitarfélagi og var markmið viðræðnanna að sameining leiddi til bættrar þjónustu, öflugri stjórnsýslu og betri árangurs í byggða- og samgöngumálum sem unnið hefur verið að árum saman.

Vinna við verkefnið hefur gengið vel. Samstarfið hefur verið gott, þar sem samskipti hafa verið hreinskiptin og uppbyggileg. Samstarfsnefndin hefur ekki alltaf verið sammála en öll mál hafa verið til lykta leitt og góð samstaða er um helstu hagsmunamál svæðisins. Sex starfshópar voru skipaðir um ýmsa málaflokka og haldnir voru íbúafundir í öllum sveitarfélögum til að ná fram hugmyndum íbúa. Á sjötta tug íbúa og starfsfólks tók þátt í vinnu starfshópa og rúmlega 300 íbúar mættu til samráðsfunda í vor.

Niðurstaða starfshópa, íbúafunda og vinnu samstarfsnefndarinnar eru m.a.:
● Að sameinað sveitarfélag verður með fjölbreytt atvinnulíf og á auðvelt með að takast á við sveiflur í atvinnu-og íbúaþróun.
● Að áhersla verður lögð á að varðveita sérstöðu hvers samfélags fyrir sig.
● Að sameinað sveitarfélag verður sterkari eining í hagsmunabaráttu varðandi samgöngu-og byggðamál.
● Að leik- og grunnskólar verða reknir áfram á hverjum stað en samstarf og samskipti aukin.
● Að fjárhagur sveitarfélagsins verður traustur og fjárfestingageta góð.
● Að stjórnskipulag sveitarfélagsins verður einfalt og skilvirkt, með skýra tenginu við Heimastjórnir á hverjum stað.

Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu verkefnisins: svausturland.is. Síðustu vikur hefur samstarfsnefndin staðið fyrir kynningu svo íbúar geti myndað sér skoðun fyrir laugardaginn kemur.

Árangurinn af samstöðu sveitarfélaganna fjögurra er þegar farin að skila sér í auknum slagkrafti. Í síðustu viku kynnti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra drög að nýrri samgönguáætlun. Í máli hans kom fram að vegna samstöðu okkar hér á Austurlandi, og í tengslum við hið sameinaða sveitarfélag, verður framkvæmdum við Öxi og Fjarðarheiðargöng flýtt og þær færðar í fyrsta áfanga nýrrar samgönguáætlunar.

Verkefninu er þó hvergi nærri lokið. Það þarf að fylgja samgönguáætluninni eftir og tryggja að verkin klárist. Hver svo sem niðurstaðan verður á laugardaginn, þá eru helstu hagsmunamál sveitarfélaganna komin betur á dagskrá, samstaða sveitarfélaganna er meiri og íbúar hafa tekið umræðu um þau mál sem brenna á samfélaginu. Við stöndum sterkar saman.

Við hvetjum alla til að mæta á kjörstað á laugardaginn, eða greiða atkvæði utan kjörfundar. Æskilegt er að þátttaka verði góð og niðurstaðan skýr.

Aðalheiður Borgþórsdóttir bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar
Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs
Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps
Jón Þórðarson, sveitarstjóri Borgarfjarðarhrepps

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.