Frábær knattspyrnuhelgi á Egilsstöðum

hottur_lokahatid_sept11_web.jpgViðburðarík knattspyrnuhelgi er að baki á Egilsstöðum. Meistaraflokkur karla missti naumlega af deildarmeistaratitlinum en menn fögnuðu engu að síður sæti í fyrstu deild rækilega. Yngri flokkar fengu að spreyta sig gegn meistaraflokknum og bestu leikmenn sumarsins meðal hinna fullorðnu voru verðlaunaðir.

 

Á föstudagskvöldið spiluðu um 100 iðkendur úr 5.6. og 7. flokki stráka og stelpna gegn mfl. karla á Vilhjálmsvelli og hafði skipulagið verið þannig að viðburðurinn kom báðum hópum í opna skjöldu. Leikurinn fór 1-1 og það sem stóð upp úr í honum var að þjálfari eldra liðsins lýsti hvað eftir annað yfir óánægju með dekkningar sinna manna. Leikurinn var frábærlega vel heppnuð uppákoma og eftir hann fóru allir þátttakendur upp í áhorfendabrekku, þjöppuðu sér vel saman og æfðu stuðningsköll.

Á laugardag var auðvitað byrjað á getraunakaffi en félagið er stolt af því að vera nánast undantekningarlaust á topp tíu yfir söluhæstu félög landsins í þeirri skemmtilegu fjáröflun. Glæsilegt lokahóf yngri flokka fór svo fram á Vilhjálmsvallarsvæðinu, áður en lokaleikur Íslandsmótsins við KF hófst. Sjaldan hafa sést jafn margir áhorfendur á knattspyrnuleik á Fljótsdalshéraði og varla að sæist í grænt í brekkunni en Arion banki bauð öllum á völlinn. Leikurinn var skemmtilegur og þrátt fyrir mörg færi heimamanna, sýndu gestirnir sínar bestu hliðar í seinni hálfleik og náðu að jafna leikinn í 1-1 tíu mínútum fyrir leikslok. Sú staðreynd að þetta varð til þess að Höttur fékk ekki bikarinn, náði þó engan veginn að skemma stemmninguna, enginn fór heim úr brekkunni fyrr en liðið hafði fengið silfurpening um hálsinn og áhorfendur og leikmenn þökkuðu hvorir öðrum kærlega fyrir ógleymanlegt fótboltasumar.

Lokahóf rekstrarfélagsins fór svo fram í Valaskjálf um kvöldið. Ekki var það síður vel sótt og fjölmargar viðurkenningar veittar, auk skemmtiatriða í hæsta gæðaflokki. Hæst bar þó er þeir Hafþór Valur og Bjössi Hall, tróðu upp með kassagítara og ógleymanlegum flutningi á Hattarlaginu, þar sem salurinn söng með svo húsið stóð undir nafni. Fleiri en einn og fleiri en tveir tóku undir að hafa á þeirri stundu fengið all-verulegan skammt af álftar-ham, sem er nýyrði, komið frá Hauki nokkrum Kjerúlf og ku vera næsta stig fyrir ofan gæsahúð!

Leikmenn heiðruðu þá sem starfa í kringum flokkana, þjálfarar heiðruðu leikmenn og þökkuðu fyrir samstarfið og stuðningsaðilar heiðruðu heldur betur starfið með framlögum sínum.

Gunnlaugur Guðjónsson, gjaldkeri rekstrarfélagsins fékk Hött ársins, bikar sem veittur er fyrir framúrskarandi störf að félagsmálum.
Markakóngar voru Steinar Aron Magnússon hjá öðrum flokki., Heiðdís Sigurjónsdóttir hjá meistaraflokki kvenna. og Friðrik Ingi Þráinsson hjá meistaraflokki karla.

Efnilegustu leikmennirnir voru valdir Steinar Aron hjá 2. fl., Fanndís Ósk Björnsdóttir hjá mfl. kv. og Ragnar Pétursson hjá mfl. karla.

Bestu leikmenn voru valdir Sindri Snær Birgisson hjá 2. fl., Karitas Hvönn Baldursdóttir hjá mfl. kv. og Ásgeir Þór Magnússon hjá mfl. karla.

Þá var fyrirliðinn Óttar Steinn Magnússon heiðraður sem „Dúx“ fyrir hæstu meðaleinkunn þjálfara á leiktímabilinu. Hann fékk einnig viðurkenningu fyrir 50. deildarleikinn, Anton Ástvaldsson fyrir þann 100. og Stefán Eyjólfsson fyrir 150. deildarleiki.

Hápunktur kvöldsins var þó óneitanlega framlag styrktaraðila. Launafl, Alcoa, Motus, tannlæknarnir Helgi, Berg Valdimar og Edda Hrönn, Sportklúbburinn, Hamborgarafabrikkan og síðast en ekki síst VHE tilkynntu um gjafir í tilefni af frábærum árangri. Voru þau framlög hin myndarlegustu, en þrátt fyrir að hafa verið þar fremst í flokki tók aðalstyrktaraðili félagsins, Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar (VHE) sig til og tilkynnti um sérstakan risastyrk sem skyldi eingöngu nýttur í kvennastarfið. Er öllum þessum aðilum þakkað kærlega fyrir þeirra framlag, en á engan er hallað þó VHE sé tekið sérstaklega út og framlagi þeirra gerð betri skil en annarra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar