Frábærir bikarsigrar
Fjarðabyggð og Höttur unnu bæði útileiki sína í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu í dag. Hattarmenn unnu Selfyssinga eftir vítaspyrnukeppni og Fjarðabyggð vann Hauka í vítaspyrnukeppni.
Hattarmenn geta brosað breitt eftir að hafa slegið út Selfoss, sem er deild ofar, eftir vítaspyrnukeppni. Selfyssingar komust í 2-0 eftir rúman hálftíma og virtust ætla að vinna öruggan sigur. Þá slapp Elvar Ægisson inn fyrir vörn Selfoss og var felldur af markverði heimamanna. Dómari leiksins rak hann út af. Selfyssingar höfðu engan varamarkvörð og því fór fyrirliðinn og framherjinn Sævar Þór Gíslason í markið. Hann kom engum vörnum við vítaspyrnu Stefáns Þórs Eyjólfssonar. Eftir um klukkutíma leik jafnaði Víglundur Páll Einarsson leikinn þegar hann stýrði aukaspyrnu í markið. Ekki gerðist fleira í venjulegum leiktíma, utan þess að annar útileikmaður fór í markið og Sævar fram. Í framlengingu fékk Anton Ástvaldsson sitt annað gula spjald og þar með rautt. Selfyssingar skoruðu einnig mark sem dæmt var af. Í vítaspyrnukeppninni varði Oliver Bjarki Ingvarsson, markvörður Hattar, tvær spyrnur Selfyssinga, ein fór yfir og sú fjórða inn. Á meðan skoruðu Jóhann Klausen, Elvar Ægisson og Rafn Heiðdal úr sínum fyrir Hött.
Fjarðabyggð var heldur ekki að flýta sér að tryggja sér sætið í 16 liða úrslitunum en liðið vann Hauka í Hafnarfirði eftir framlengingu. Jóhann Ragnar Benediktsson skoraði markið úr aukaspyrnu á 102. mínútu. Srdjan Rajkovic, markvöður Fjarðabyggðar, átti stórleik í leiknum. Haukamenn áttu yfir tuttugu marktilraunir í dag en Fjarðabyggðarmenn þrjár.
Einherji mætir Keflavík á útivelli á morgun.