Frelsi og jafnrétti

Ég vil búa í opnu og frjálsu samfélagi. Ég vil búa í samfélagi þar sem tryggð eru tækifæri til þess að byggja upp og framtíð er spennandi. Við búum í vel menntuðu samfélagi og í krafti mannauðsins er hægt að gera svo miklu meira, ekki síst í gegnum nýsköpun af öllum toga.

Við getum verið leiðandi á heimsvísu hvað varðar frelsi, mannréttindi og jafnréttismál. Við höfum nú þegar gengið á undan með góðu fordæmi en við getum farið lengra. Til þess þurfum við að styrkja hvern og einn til að stjórn eigin lífi og taka ábyrgð á eigin vali.

Sjálfstæðisflokkurinn byggir stefnu sína á mannréttindum, jafnfræði, frelsi og ábyrgð einstaklingsins. Allir eiga að fá notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, lífs- eða stjórnmálaskoðana, kyns, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu.

Umræða á samfélagsmiðlum hefur leitt í ljós að fordómar leynast víða og mörgum er jafnvel ekki ljóst að þeir búi yfir fordómum gagnvart hinum og þessum hópnum. Það er því mikilvægt að við förum að opna á umræðuna, auka samtalið og bæta fræðslu og forvarnir.

Jafnrétti í fjármálum

Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja jöfn tækifæri allra og fjárhagslegt sjálfstæði fólks sem er grundvöllur jafnréttis. Jafnrétti framar jöfnuði. Hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Fræðsla um fjárhagsmálefni fólks og fyrirtækja er mikilvæg og hefur lengi verið kallað eftir þjálfun í fjármálalæsi í grunnskólum.

Þörf er á að taka skrefið og innleiða fjármálalæsi í aðalnámskrá. Ungmenni kalla stöðugt eftir því og það er stjórnvalda að svara kallinu með raunverulegum aðgerðum. Hæfni fólks til að spila vel úr eigin fjármálum styrkir um leið ríkisreksturinn. Það hefur of lengi verið tabú að ræða fjármál fólks og heimila. Þeim hugsunarhætti þarf að breyta. Ungt fólk útskrifast úr háskólum nú til dags án þess að hafa svo mikið sem setið eina kennslustund um eigin fjármál, samspil fjármálastofnana og heimilis.

Grundvallarprinsipp

Við þurfum í víðara samhengi að efla fólk til ábyrgðar í eigin lífi. Fólk misskilur stundum „litlu” frelsismálin. Umræðan um áfengi í almennar matvöruverslanir snýr t.d. ekki einungis að aðgengi fólks að vörum og þjónustu, heldur er málið í senn spurning um grundvallarfrelsi einstaklinga til ákvarðanatöku og umræðu um íhlutun hins opinbera í líf fólks.

Að sama skapi á að sjálfsögðu að samræma sjálfræðis- og áfengiskaupaaldurinn, þannig að fólk sem er lögum samkvæmt lögráða (þ.e. bæði sjálfráða og fjárráða) verði heimilt að kaupa áfengi eins og aðrar neysluvörur. Snýst ekki um neitt annað en grundvallarprinsipp sama hvað andstæðingar frelsis kunna að segja.

Höfundur skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar