Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir: Mínar áherslur
Ég er í prófkjöri, býð mig fram í 4 – 6 sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Segja má að ég sé austfirskur Akureyringur. Fædd og uppalin í Bakkafirði, ættuð að austan, hef búið á Akureyri í 10 ár. Ég er móðir tveggja barna. Lærður sjúkraliði, með BA próf í sálfræði og kennsluréttindi. Starfa sem kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri, á sæti í samfélags- og mannréttindanefnd, og er fulltrúi Samtaka í stýrihóp um innleiðingu aðalnámskrár að skólanámskrám grunnskóla Akureyrar.
Einn af mínum ágætu kennurum við Háskólann á Akureyri, Guðmundur Ævar Oddsson hefur rannsakað stéttaskiptingu á Íslandi, sem virðist því miður vera að færast í vöxt í kjölfar aukinnar markaðsvæðingar samfélagsins. Þetta er ógnvænleg þróun og hefur margvíslegar neikvæðar afleiðingar á líðan fólks og samfélagsvitund.
Ég hugsaði með mér eftir að hafa kynnt mér þessa rannsókn í „hvorri“ stéttinni ég myndi lenda. Sveitastelpan úr Bakkafirðinum er líklega neðri stétt samfélagsins, en þó. Ég er nú með tvær háskólagráður og hef því kannski séns ef ég held vel á spöðunum, að koma mér og mínum í efri stétt.
En vil ég það, eyða orku minni og gleði í að potast áfram, þiggja brauðmola nýfrjálshyggjunnar og stíga á samferðafólk mitt til að tilheyra elítunni? Nei takk, lífið er bara of stutt í svoleiðis rugl.
Við höfum séð afleiðingarnar af þeirri þróun sem hér var komin í gang fyrir hrun. Hvernig til dæmis sérhagsmunagæsla, eignarhaldsstefna á bönkunum ásamt auðlindum þjóðarinnar og nýfrjálshyggjan síðustu áratugi hefur leikið okkur, egnt okkur hvert gegn öðru. Þrátt fyrir að hafa á tímabili upplifað „öll lífsins gæði,“ sem engin innistæða var fyrir í boði pólitískrar nýfrjálshyggju, vorum við ekkert hamingjusamari.
Og enn erum við kannski ekkert hamingjusamari, fjölskyldur líða fyrir langa vinnuviku og börnin okkar gjalda fyrir skuldir heimilanna. Það er hreinlega óhugnanlegt hversu mörg börn og unglingar glíma við kvíðaraskanir og aðra sálræna vanlíðan.
Við þurfum, öll sem eitt að sameinast um að forgangsraða líðan, heilsu og velferð einstaklinga í fyrsta sæti og leita allra leiða til að sníða samfélagið að raunverulegum þörfum okkar, fjölskyldum og heimilum.
Þegar ný ríkisstjórn tók við þrotabúi nýfrjálshyggjunnar var almennt talið að við yrðum svona sirka komin á núllið árið 2015. Nú er árið 2012 og ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna er búin að vinna ótrúlegt þrekvirki í að rétta af þjóðarskútuna. Þar sem raunveruleg uppbygging á grunnstoðum samfélagsins hafði ekki orðið að veruleika í „góðærinu“ á valdatíma nýfrjálshyggjunnar eru kröfurnar sem gerðar hafa verið til núverandi ríkisstjórnar ærið miklar, og margir eru til að tala um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar.
En hverjir hefðu gert betur en gert hefur verið? Ég vil búa í samfélagi sem byggir á félagsauð, jöfnuði og jafnrétti á meðal íbúanna og að hver einstaklingur fái notið sín á eigin forsendum. Ég vil ganga í Evrópusambandið en ekki láta einangra mig og komandi kynslóðir frá heilbrigðum samskiptum við aðrar þjóðir í Evrópu. Ég vil að við förum að hugsa og sníða samfélagið okkar útfrá því hvað við viljum í raun og veru fyrir okkur, börnin okkar og framtíðina.
Viljum við í raun vera föst í efnishyggju, yfirborðsmennsku og þeim sýndarveruleika sem hér ríkti fyrir hrun. Ég held ekki.