Fótboltaannáll 2012
Hér á eftir fer yfirferð yfir það markverðasta sem gerðist í knattspyrnunni árið 2012, tekin saman af tveimur mönnum sem telja sig standa framar öðrum hvað varðar knattspyrnu, ef frá er talinn geta til að spila leikinn, þjálfa hann eða tala um hann. Eins og sönnum fræðimönnum sæmir gáfu þeir sér góðan tíma í að velta við hverri þúfu í leit sinni. Sjónaukanum er beint að Íslandi, og er um 11 atriði að ræða jafnmargar byrjunarmönnum knattspyrnuliðs í upphafi leiks.
1. Trúðslæti í Vestmannaeyjum – Minnti á atriði úr Klovn
Stjórn Knattspyrnudeildar ÍBV sá fjölmiðlum fyrir nægu fréttaefni á síðastliðinni sparkvertíð. Það voru bara engar góðar fréttir og tókst þeim að afsanna þá kenningu að öll umfjöllun sé góð umfjöllun.
Hringavitleysan hófst í byrjun maí, rétt fyrir mót, þegar formaður deildarinnar tilkynnti alþjóð að Tryggvi væri kominn í áfengismeðferð, um leið og hann klappaði sér og stjórninni á bakið fyrir að hafa ekki snúið baki við leikmanninum í veikindum hans. Hvernig Óskar Örn Ólafsson gat ímyndað sér að þessi tíðindi kæmu einhverjum við er erfitt að gera sér í hugarlund.
Þegar þjálfarinn Magnús Gylfason setti Tryggva svo í agabann í fyrsta leik eftir þjóðhátíð var nokkuð ljóst hvað gerst hefði, og þökk sé formanni knattspyrnudeildarinnar höfðu menn enn meira til að smjatta á. Tryggvi var FALLINN!
Tryggvi var heldur ekki sá eini sem fannst sopinn góður í ÍBV liðinu og var sóknarmaðurinn Eyþór Helgi Birgisson látinn fara eftir að hafa brotið reglur Magnúsar í tvígang. Agavandamál sem þessi voru ekki sögð vera ný af nálinni í Eyjum. Aftur á móti var það nýmæli að tekið væri á þeim.
Fyrir það var Magnús Gylfason látinn gjalda þegar stjórnin tilkynnti honum að ekki yrði óskað eftir kröftum hans áfram eftir tímabilið. Magnús gerði kannski það eina í stöðunni sem hægt var að gera – gekk upp í Herjólf og kom ekki aftur. Þá var hann með liðið í öðru sæti deildarinnar, þrátt fyrir gríðarleg meiðsli í byrjun móts og að hafa ekki sigrað leik fyrr en í sjöttu umferð Íslandsmótsins.
Í staðinn var Hermann Hreiðarsson ráðinn og mátti skilja á Óskari eftir ráðninguna að stjórnin hefði fyrst frétt það í gegnum Fotbolti.net að Hermann hefði áhuga á starfinu. Einmitt.
Áfengismeðferð, agabönn og þjálfarasirkus. Öllu þessu komu Eyjamenn fyrir á okkar stutta Íslandsmóti! Er nema von að stundum hafi maður haft á tilfinningunni að þáttur af danska þættinum Klovn væri í gangi?
Það er ekki erfitt að sjá fyrir sér Frank Hvam í hlutverki stjórnarformanns knattspyrnudeildar ÍBV, þar sem hann einhvernvegin missir það út úr sér við blaðamann að Tryggvi sé farinn í meðferð. Frank er svo maðurinn sem hellir Tryggva fullan á Þjóðhátíð, hittir jafnvel Hermann í brekkunni og stingur upp á því við hann að taka við liðinu eftir tímabilið. Nema hann áttar sig ekki á því að Magnús situr í brekkunni fyrir aftan þá. Allt að sjálfssögðu óvart eins og Frank er von og vísa. Casper er svo ekki langt undan til að tala Frank til: „Nej for helvede Frank, det gör man ikke!“
2. Hugsandi knattspyrnumaður fannst á árinu
Staðalímyndin af knattspyrnumönnum er sú að þeir séu ekki beittustu krókarnir í veiðarfærinu. Hugsi um lítið annað en fótbolta, hangi heima í FIFA á milli leikja og reyni að safna saman nægilega miklum peningum til að geta haldið áfram í FIFA allan daginn eftir að ferlinum lýkur. Að öðru leyti hugsi þeir ekki um framtíðina og hvað þá eitthvað sem viðkemur þeim ekki beint.
Þess vegna má segja að Kristján Már Unnarsson hafi verið í hlutverki David Attenborough, þegar hann uppgötvaði að því er virðist alveg óvart, nýja tegund: Hugsandi knattspyrnumann í Ívari Ingimarssyni í þætti um Stöðvarfjörð.
Þátturinn fór reyndar að mestu leyti fram heima hjá Ívari á Egilsstöðum. Þar talaði Ívar í löngu máli um framtíðina og þá möguleika sem Stöðvarfjörður, og Austurland í heild hefðu. Jarðbundinn einstaklingur með hugsjónir sem vill gera samfélagi sínu gagn. Mýtan er dauð. Við bíðum samt ekki eftir svipuðu viðtali frá Mario Balotelli.
3. Höttur í fyrstu deild
Eitt helsta gleðiefni ársins 2012 í fótboltaheiminum var sú staðreynd að loksins var hægt að stjórna Hetti í Football Manager, já og horfa á þá spila í næst efstu deild. Því miður endaði sumarið ekki jafnvel og það byrjaði og fall í aðra deild staðreynd. 4 stig af 24 mögulegum á móti liðinum sem enduðu í 8.-12. sæti er hrikaleg endurheimt, sem á endanum felldi liðið.
Sumarið var þó ekki algjört svartnætti. Eysteinn Hauksson treysti að miklu leyti á unga og uppalda stráka sem sýndu það oft á tíðum að þeir voru tilbúnir í verkefnið. Ekkert lið hefur fallið með jafnmörg stig og Höttur gerði í haust.
Þrátt fyrir að þessar staðreyndir breyti ekki orðnum hlut, hlýtur það að ýta undir jákvæð og metnað á héraðinu. Stefnan hlýtur að vera sett á að fara beint upp aftur.
4. Þröngsýni/fáfræði þeirra sem fjalla um fótbolta
Íslendingar eru fótboltaóðir og örugglega þeir óðustu í heiminum miðað við höfðatölu. Þess vegna myndi maður halda að umfjöllunin sem haldið er að landanum væri góð og fjölbreytt, nóg er spilað af fótbolta í heiminum.
Svo er því miður ekki. Einblínt er nánast eingöngu á ensku úrvalsdeildina, sem menn segja þá bestu og skemmtilegustu í heimi. Það getur vel verið að það sé rétt, en það eru samt skoruð fleiri mörk að meðaltali í leikjum í t.d. Þýskalandi. Samt sem áður kom það mönnum að óvart hversu skemmtilegan fótbolta Dortmund hefur spilað í vetur – í Meistaradeildinni. Þeir sem til þekkja hafa hins vegar séð þessi tilþrif undanfarin ár í Bundesligunni.
Menn komast svo ekki hjá því að horfa aðeins til Spánar, þar eru jú Barcelona og Real Madrid. Þar eru líka fleiri lið, en minna talað um þau. Kannski er það eðlilegt vegna þess að öll hin liðin eru svo léleg og leikmenn úr þeim gætu aldrei gert neina hluti annars staðar, í alvöru liðum og/eða alvöru deild.
Michu, leikmaður Swansea, hefur þó afsannað það. Menn hafa rekið upp stór augu og verið eitt spurningarmerki í framan yfir því hvaðan þessi fantagóði leikmaður kom. Jú frá liði sem heitir Rayo Vallecano, þar sem hann spilaði síðasta tímabil og vakti athygli þeirra sem fylgjast með. Hann var til að mynda markahæsti miðjumaðurinn í La Liga á síðasta tímabili, og sparkspekingurinn Sid Lowe valdi hann til að mynda í lið ársins.
Menn virðast ekki einu sinni geta undirbúið sig almennilega fyrir stórmót eins og EM, sem var síðasta sumar. Þar voru 16 landslið samankominn og það hefði ekki verið til of mikils mælst að spekingar legðust aðeins yfir þau lið. Meira að segja stórþjóð eins og Ítalía var sögð spila leiðinlegan og varnarsinnaðan fótbolta, eitthvað sem kom í ljós í fyrsta leik að var ekki rétt.
Einnig þekktu þeir varla haus né sporð á Rússanum Alan Dzagoev, eftir að hann skoraði tvisvar í fyrsta leik Rússa á EM. Dzagoev hefur verið talinn einn af efnilegustu leikmönnum Evrópu undanfarin ár og hefur meira að segja verið orðaður við bæði Arsenal og Man Utd. á síðastliðnum árum.
SportTv hefur reyndar hafið útsendingar á leikjum í Seria A, og ber að hrósa þeim fyrir það. Við vonum að íslenskir knattspyrnu“sérfræðingar“ taki sig nú til og fari aðeins út fyrir vellíðunarhringinn sinn og taki til við að fræða áhugamenn um fótbolta úr sem flestum áttum. Fótboltinn var kannski fundinn upp í Englandi, en það gerðist ekki þegar úrvalsdeildin var stofnuð.
5. Kommentakerfið á fótbolta.net – nálgast Dv.is
Fótbolti.net byrjaði í ár gefa lesendum möguleika á að skrifa athugasemdir við fréttir sem birtast á vefnum. Í stuttu máli getur oft verið hálf ógnvekjandi að lesa þau skrif sem birtast þar. Þau nálgast oft á tíðum athugasemdakerfi DV hættulega mikið.
Ótrúlegt er að sjá hversu blindaðir af einhverskonar blöndu af hatri, ástríðu og heimsku í einhverri sjálfskipaðri baráttu fyrir sínu eigin félagi. Sem dæmi mátti sjá menn hreinlega gleðjast yfir mögulegum meiðslum Leonel Messi í byrjun desember.Þetta er fótbolti gott fólk – slakið á.
6. Íslandsmeistaratitill Þór/KA
Þegar Íslandsmót kvenna hófst þann 13. maí bjuggust flestir við því að baráttan myndi standa á milli Íslandsmeistara Stjörnunnar, Vals og Breiðabliks. Öll þessi lið hafa á að skipa nokkrum landsliðskonum og því eðlilegt að þeim væri spáð góðu gengi.
Það bjóst enginn við því að norðankonur í Þór/KA myndu gera einhverjar rósir á mótinu. Gengi þeirra í Lengjubikarnum gaf ekki góð fyrirheit. Allir leikirnir töpuðust og markatalan 3-17. Í árlegri spá var þeim aðeins spáð 5. sæti.
Fyrsti leikur í Íslandsmótinu var því eflaust ekki tilefni mikillar bjartsýni. Íslandsmeistarar Stjörnunnar mættu til Akureyrar en Þór/KA lagði meistarana. Úrslitin vöktu mikla athygli og flestir sparkspekingar voru mjög hissa.
Áfram hélt gott gengi liðsins og það tapaði fyrsta deildarleik sínum í 7. umferð en þvert á spár var það eini tapleikur liðsins. Fyrsti Íslandsmeistaratitill liðsins var síðan tryggður með 9-0 sigri á Selfossi fyrir framan rúmlega 1200 áhorfendur á Akureyrarvelli.
Það er óhætt að segja að þetta sé magnað afrek hjá liði sem enginn bjóst við neinu af. Þær höfðu þó óbilandi trú á verkefninu og samheldnin í liðinu var einstök. Það er aldrei leiðinlegt þegar landsbyggðarlið er á toppnum. Til hamingju með frábæran árangur!
7. Lars Lagerbäck og fagmennskan
Fyrsta árið undir stjórn nýs landsliðsþjálfara er liðið og ekki er hægt að segja annað en að ferskur andblær hafi leikið um það á árinu. Breytingin sem hefur átt sér stað frá tíð fyrri landsliðsþjálfara er gríðarleg.
Hvernig Lagerbäck svarar spurningum blaðamanna og kemur fram á blaðamannafundum mættu margir taka sér til fyrirmyndar. Hann svarar spurningum án alls skætings og ber sig ekki eins og hann vilji vera allsstaðar annars staðar.
Lars og Heimir vilja líka allt gera til að koma til móts við þá sem hafa áhuga á landsliðinu, og eru mjög hreinskilnir með þau plön sem þeir eru með í gangi. Vonandi mun þessi fagmennska halda áfram um ókomna framtíð.
8. Nýja 3.deildin
Umræða um ferðakostnað landsbyggðarliða stingur upp kollinum annað slagið. Á árinu var samþykkt tillaga um fjölgun deilda á Íslandsmóti karla. Í greinargerð með tillögunni segir: „Einnig er talsvert meiri utandeildar stimpill á mörgum liðum þarna og því möguleiki að byggja upp deild fyrir minni félög utan af landi sem styrkir þá starfið þeirra.“
Það gæti verið hægt að taka undir það en í sumar verða þrjú lið að austan í 3. deildinni og því aðeins Einherji á Vopnafirði eftir. Ef við segjum sem svo að aðeins 1-2 önnur lið bætist við þá verður varla sjálfstæður Austurlandsriðill heldur þurfa liðin að fara á Norðurland og jafnvel á Suðvesturhornið eins og var raunin í sumar í 3. deildinni.
Óvíst er hvort ferðakostnaðurinn sem til félli við það væri þá viðráðanlegur fyrir hin „minni lið utan af landi“. Tillagan myndi þá væntanlega falla um sjálfa sig að minnsta kosti með tilliti til Austurlands. Þó ber að gleðjast yfir góðum árangri liðanna sem komust í 2. og 3. deild í sumar þótt ferðakostnaður þar verði eflaust einnig til umræðu.
9. Kvenníðingur í Pepsi-deildinni
Það voru tveir kynlegir kvistir upp á Akranesi sem „heiðruðu“ okkur knattspyrnuáhugamenn með veru sinni í Pepsi-deildinni. Annar þeirra, Mark Doninger, sýndi með dvöl sinni hér á landi hvern mann hann hefur að geyma.
Sú staðreynd að silfurskeiðin úr Garðabænum hafi boðið hann velkominn verður þó að teljast til einna af mistökum ársins, ásamt viðbrögðum Bjarna Jóhannssonar, þess annars góða manns við umræðunni sem fylgdi í kjölfarið. Bjarni lét hafa það eftir sér eftir leik þar sem Donninger skoraði tvö mörk, að vonandi myndi það þagga niðrí neikvæðum röddum.
Það á aldrei að líðast að íþróttafélög taki til sín og verji menn sem leggja hendur og níðist á kvenfólki. Hversu mörg mörk þeir skora breytir engu þar um.
10. Tryggvi slær markamet
Það gekk mikið á í kringum Tryggva Guðmundsson í sumar, eins og við höfum tæpt á nú þegar. Upp úr stendur samt er glæsilegt markamet sem hann setti í sumar. Hann hefur nú skorað 129 mörk á Íslandsmótinu á 13 tímabilum.
Það sem gerir þetta ennþá glæsilegra er að Tryggvi spilaði á hátindi ferilsins í atvinnumennsku. Það er svo til algjörar skammar að Knattspyrnusambandið hafi ekki séð sóma sinn í því að heiðra þennan mikla sigurvegara í lok tímabilsins fyrir afrek sitt.
11. Andlát Sigursteins Gíslasonar
Maðurinn sem sameinaði ÍA og KR, vann níu Íslandsmeistartitla,oftar enn nokkur annar, og þrjá bikarmeistaratitla, auk þess sem hann var besti leikmaður Íslandsmótsins árið 1994. Sigursteinn glímdi við krabbamein og lést 16.janúar 2012, 43 ára að aldri.
Við teljum það vera vel við hæfi að ljúka þessari umfjöllun með orðum frá Sigursteini sjálfum: „Ef þið ætlið að gráta yfir mér, viljið þið það gleðitár vegna góðra minninga“.
Eiríkur Guðmundsson og Birgir Jónsson eru austfirskir knattspyrnuáhugamenn af lífi og sál og sparkspekingar Austurfréttar. Þeir eru alræmdir á knattspyrnuknæpum höfuðborgarinnar þar sem þeir sigra hvert pöbbkvissið sem þeir taka þátt í.