Fátækt ágerist hröðum skrefum

Blikur eru á lofti um að fátækt ágerist nú hröðum skrefum í landinu. Er Austurland þar ekki undantekning. Ýmis úrræði eru í boði fyrir þá sem illa eru staddir, hjá félagsþjónustu sveitarfélaga, Hjálparstofnun kirkjunnar og Rauða krossinum. Fulltrúar þessara aðila segja enn ekki verða vart við aukna neyð á Austurlandi, en undirbúningur sé hafinn til að mæta slíku og markviss samræða í gangi þar um.

Austfirðingar í þrengingum geta víða leitað hjálpar fyrir sig og sína ,,Við finnum fyrir nokkuð vaxandi þunga og öryggisleysi, sem meðal annars birtist í fjölgun símtala og beiðna um ýmiss konar fjárhagsaðstoð," segir Sigríður Stefánsdóttir, félagsmálastýra Fjarðabyggðar. ,,Það eru fyrst og fremst einstaklingar sem hafa mjög þröngan fjárhag fyrir, hafa til dæmis framfærslu af örorkubótum eða endurhæfingarlífeyri. Þetta eru þó enn fáir einstaklingar enda ástandið almennt betra hér í landsfjórðungnum en víða annars staðar. Eigi fólk ekki fyrir mat er gripið til skyndiaðstoðar á vegum félagsþjónustu sveitarfélagsins."Félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs hefur veitt neyðaraðstoð í formi matarmiða eða úttekta. Kristín Þyri Þorsteinsdóttir, félagsmálastjóri Fljótsdalshéraðs, segir þó að slík aðstoð bjargar engum til lengdar og því sé reynt að vinna með fólki að því að finna haldbetri lausnir. ,,Hjálparbeiðnum hefur ekki fjölgað á Fljótsdalshéraði enn sem komið er, en við erum við því búin að svo geti orðið," segir Kristín.Jólasteikur frá LandsvirkjunFélagsþjónustan og prestar á hverjum stað geta haft milligöngu um að fá svokallaða Bónus-tékka, sem eru úttektarheimildir fyrir matvöru. Þeir koma þá frá Hjálparstofnun kirkjunnar eða Mæðrastyrksnefnd í Reykjavík, sem sinnir einnig landsbyggðinni. Halldór Snjólaugsson hjá Fáskrúðsfjarðardeild Rauða krossins segir fátæka geta leitað til Rauða krossins. ,,Við veitum fjárhagsaðstoð en aðstæður fólks og þörf eru alltaf metin sérstaklega. Við erum viðbúin aukinni kreppu hér og reynum að fylgjast með. Rauði krossinn í Reykjavík er með áætlun sem sett er í gang þegar atvinnuleysi og þrengingar steðja að og við mundum fara í þann gír ef til kæmi og reyna auk peninga að vera með félagslega aðstoð," segir Halldór.Sr. Lára Oddsdóttir, prestur á Valþjófsstað, segir að auk hjálpar frá innanlandshjálp þjóðkirkjunnar sé til nýstofnaður sjóður í vörslu presta á Héraði, sem veitt verði úr eftir því sem þörf krefji. Þá hafi stöðvarstjóri Landsvirkjunar í Fljótsdalsstöð haft samband fyrir skömmu og tilkynnt að Landsvirkjun myndi leggja prestunum á Héraði í hendur ,,nokkra hamborgarhryggi og hangilæri" til útdeilingar. ,,Ef þú veist af manneskju sem ekki á fyrir mat, viltu þá senda hana til okkar prestanna," sagði sr. Lára.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar