Fullveldi eða nýlenda?
Þorkell Ásgeir Jóhannsson skrifar: Það tók okkur aldir að verða sjálfstæð á nýjan leik. Síðan tók við áratuga löng barátta til að öðlast yfirráð yfir auðlindunum umhverfis landið, barátta sem kostaði bein átök við viss herveldi í Evrópu, en þau nutu þar beinlínis fulltingis Evrópubandalagsins, sem nú er Evrópusambandið.
Það er einmitt á grundvelli fullveldis okkar sem okkur hafa nú áskotnast full yfirráð yfir þessum auðlindum, sem þó eru sannarlega okkar. Það var á grundvelli fullveldis okkar, sem við rákum á brott hina afkastamiklu veiðiþjófa, eftir að þeir höfðu um aldir rakað upp hafsbotninn upp að fjörusteinum okkar. Það er einnig á grundvelli fullveldis okkar sem við erum jafnvel enn að gera tilkall til fjarlægari hafsvæða og hafsbotnsréttinda, s.s. á Drekasvæðinu, og umhverfis Hatton Rockall klettinn. Við höfum gert okkur gildandi á alþjóðavísu sem fullvalda þjóð og notið góðs af. Það hefur tekið okkur heila öld að byggja okkur upp með því velferðarstigi, sem við þekkjum í dag, eftir að hafa áður verið í ánauð erlends ríkisvalds. Tvíhliða samningsréttur, eins og tilheyrir fullvalda ríki, hefur verið undirstaða alls þessa. Fullveldi er því tvímælalaust ein dýrmætasta eign okkar sem þjóðar.
Ef svo slysalega tekst til að við endum sem eitt aðildarríkja ESB, þá hverfur þetta hvort tveggja, fullveldið og rétturinn til að gera tvíhliða samninga við önnur ríki. Það síðarnefnda verður einfaldlega bannað skv. reglum ESB. Þá mun einnig verða stórskerðing á íslenskum landbúnaði, þannig að skv. áætlunum hagsmunasamtaka þar myndu hverfa um 10.000 störf. Og á það er nú bætandi, nema hvað? Yfirráð okkar yfir auðlindunum verða klárlega stórskert einnig, og má í því sambandi benda á að Bretar eru sjálfir að veiða um 20% af veiddum fiski í sínum eigin sjó! Jafnvel þótt við bindum eignarhald auðlinda að nafninu til í stjórnarskrá, hvað stoðar það þegar við semjum frá okkur veiðiréttinn við inngönguna í báknið? Við verðum eins og hlunnindabóndinn sem hefur samið frá sér veiðiréttinn í ánni þannig að hann má lítið eða ekkert veiða þar sjálfur.
Loks er það staðreynd að miðstjórn, eins og sú sem ræður ríkjum í Brussel og verður sífellt öflugri og yfirþjóðlegri, hún er í eðli sínu andstæð lýðræði. Gildir þar einu undir hvaða formerkjum, eða með hvers konar stjórnarfari, miðstýringin er rekin. Afleiðingar þess eiga þegar ýmsar birtingarmyndir í Evrópu og nægir að nefna gerræðið sem sýndi sig eftir að einstakar þjóðir höfðu hafnað nýrri stjórnarskrá ESB með þjóðaratkvæðagreiðslu. Næst skyldu aðeins þjóðþing þessara landa hafa með málið að gera og fólkið látið eiga sig! Og þegar ríkisstjórn Íslands verður orðin að umboðsaðila miðstjórnarinnar munu „Davíð og Dóri“ ekkert verða spurðir að því hvort þeir styðji „fyrir hönd þjóðar sinnar“ stríðsrekstur í fjarlægum löndum. Hingað mun einungis berast tilskipun þess efnis að íslendingar verði að skaffa svo og svo marga menn, og svo og svo mikið fé, sem þáttakendur í þeim hernaði. Nema þeir hinir skeleggu fulltrúar, sem Ísland mun eiga í miðstjórnarbákninu, sýni af sér þá röggsemi að halda íslendingum utan við herskyldu ESB. Hver veit, því vissulega mun rödd þeirra heyrast þar sem þeir verða hátt í 1% af heildinni!
Þessar kosningar munu snúast um það hvort við endum sem nýlenda ESB eða ekki, að miklu meira leyti en ég held að við kjósendur gerum okkur grein fyrir. Svo sterk eru þau öfl meðal okkar, sem hafa það að markmiði að koma okkur inn undir miðstjórn þessa, að við hin, sem gerum okkur annt um hin raunverulegu verðmæti okkar sem fullvalda þjóðar, verðum að standa vel vaktina. Sannir íslendingar geta ekki kosið þau öfl sem hafa endurnýjaða nýlendustefnu okkur til handa að markmiði.
Höfundur skipar 5. sæti Frjálslynda flokksins í NA-kjördæmi.