Fyrsti leikur sumarsins á Vilhjálmsvelli
Höttur gerði jafntefli við Hamar þegar liðið gerði jafntefli þar í gær við Hamar. Fjarðabyggð tapaði fyir KA á Eskifirði í fyrrakvöld.
Grasið á Vilhjálmsvelli er nær ónýtt og ekkert hefur verið hægt að leika á honum fyrr en nú. Þótt leikið hafi verið á honum í gær er grasið vont. En í ljósi þess að Hattarliðið hefur ekki tapað leik á grasi í sumar, en heimaleikirnir hafa verið spilaðir á gervigrasi á Fellavelli, þykir forráðamönnum þess rétt að leika þennan leik og þá þrjá heimaleiki sem eftir eru þar.
Leiknum sjálfum lauk með 1-1 jafntefli. Björgvin Karl Gunnarsson skoraði mark Hattar og kom liðinu yfir.
Fjarðbyggð tapaði 0-3 fyrir KA á Eskifjarðarvelli á föstudagskvöld. KA menn komust yfir um miðjan fyrri hálfleik. Þeir lágu til baka eftir það og beittu skyndisóknum sem færðu þeim tvö mörk undir lokin, það seinasta með seinustu spyrnu leiksins.
Í 1. deild kvenna tapaði Fjarðabyggð 1-3 fyrir Sindra í Fjarðabyggðarhöllinni.
Í þriðju deild karla var leikin heil umferð um helgina. Leiknir tapaði fyrir Dalvík/Reyni 5-0 nyrðra. Draupnir og Einherji gerðu 3-3 jafntefli í Boganum. Huginsmenn þurftu að taka á móti Völsungi á Fellavelli þar sem Seyðisfjarðarvöllur var óleikhæfur eftir miklar rigningar undanfarna daga. Í ofanálag seinkaði leiknum um hálftíma þar sem bíða þurfti eftir dómara leiksins með flugi frá Reykjavík. Úrslit leiksins urðu á móti markalaust jafntefli. Heil umferð verður leikinn í riðlinum á þriðjudag. Mikil barátta er um annað sæti riðilsins, sem gefur sæti í úrslitakeppninni. Einherji og Dalvík/Reynir eru með 19 stig en Dalvíkingar með betra markahlutfall. Huginn er með 18 stig.