Fyrstu skrefin á vinnumarkaðnum

Eins og flest ungmenni í mínum heimabæ hóf ég starfsferil minn í frystihúsinu. Hann varð nú samt hvorki langur né sérlega glæsilegur. Ég man fyrsta daginn vel. Ég var með undarlegan hnút í maganum, blöndu af spenningi og kvíða. Alvöruvinna á fullorðinsvinnustað var ansi stórt skref í tilveru fermingarstúlku. En líka ógnvekjandi.


Það fyrsta sem mér var kennt var að hlutverk mitt á vinnustaðnum væri skilgreint út frá kyni mínu. Ég skyldi snyrta fisk, ekki vegna þess að ég hefði prófað það áður eða hefði sérstaka hæfileika á því sviði, svo vitað væri. Nei, ég fékk það hlutverk að snyrta fisk því það var kvennastarf. Ég spurði hvers vegna, varla væri mér ætlað að snyrta þennan fisk með píkunni. Svarið sem ég fékk var að stelpur væru svo miklu vandvirkari en strákar. Ég hló, enda sennilega í fyrsta og eina skipti sem ég, með mína tíu þumalfingur, hef verið kölluð vandvirk.

Sumarið leið og ég hataði vinnuna. Hún var mögulega ekki jafnslæm og ég beit í mig að hún væri en strax í upphafi hafði mér verið sagt að karlastörfin svokölluðu væru ekki fyrir stelpur. Það var nóg til þess að uppreisnarseggurinn fengi illt í réttlætiskenndina og þarna leið mér aldrei vel.

Það myndi aldrei þýða fyrir mig að bera á móti því að ég stóð mig illa í þessari vinnu. Ég var svo sannarlega ekki vandvirk og biturleikinn kraumaði í mér í hvert sinn sem ég steig inn í vinnslusalinn, með fiskvinnsluhníf að vopni og píkuna sem gerði mig svo hæfa til að beita honum. Ég hef alla tíð haft það fyrir reglu að láta ekki segja mér hvað mér er boðlegt vegna kyns míns. Samt liðu mörg ár áður en ég áttaði mig á því að ég hefði ekki brugðist fiskvinnslugeiranum. Að ég væri ekki ónytjungur sem nennti ekki að snyrta fisk heldur var vinnuumhverfið sem ég, og svo margar kynsystur mínar stigum okkar fyrstu skref í, baneitrað.

Þann stutta tíma sem ég mætti seint og illa í frystihúsið gekk verkstjórinn oft um og gerði athugasemdir við líkamsvöxt stelpnanna sem unnu undir honum og spurði nærgöngulla spurninga um einkalíf þeirra. Meðal annars hvort þær væru farnar að stunda kynlíf og þá jafnvel hvernig og með hverjum. Þetta var oft svolítið eins og rússnesk rúlletta. Hverja spyr hann næst? Og í hvert skipti sem hann gekk í salinn urðum við allar aðeins vandvirkari og uppteknari en ella. Forðast augnsamband. Svara stutt í spuna, helst með einsatkvæðisorði. Vonandi er hann ekki búinn að frétta hvað ég var að gera um helgina. Kvíði og ótti við niðurlægingu.

Svo liðu árin og frystihúsið, áreitið og óréttlætið varð fjarlæg minning. Allt þar til ég lenti á spjalli við unga stelpu að heiman fyrir ekki svo löngu. Hún staðfesti að í þessum efnum hefði lítið breyst. Hún lýsti því hvernig verkstjórinn hefði mætt með erlenda viðskiptavini í fiskvinnslusalinn og sagt: „Munurinn á þessu og hóruhúsi er að hérna má bara horfa, ekki snerta,“ og uppskar mikinn hlátur viðstaddra. Vegna óbærilegs vinnuumhverfis höfðu hún og margar aðrar stelpur valið að vinna annars staðar á sumrin, jafnvel á miklu lægri tekjum. Sumt er ekki auranna virði.

Á meðan stelpurnar sátu undir þessum blammeringum yfirmanns síns voru strákarnir drifnir á sjó. Þar voru jú peningarnir. Enda hefur enginn orðið ríkur á að vera vandvirkur.

Með þessi skilaboð fórum við út á vinnumarkaðinn. Þeir duglegir, sterkir og mikilvægir. Við vandvirkar hórur með misgóð ráð frá verkstjóranum um það hvernig best væri að bera sig að í rúminu.

Nei, frystihúsið var enginn staður fyrir stelpur.

Og þó. Kannski var frystihúsið aldrei staður fyrir miðaldra perverta og gamaldags kynjasjónarmið.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.