Gætum innviðanna, myndræn skýring
Við hjá VÁ höfum mörg sterk rök fyrir því að sjókvíaeldið, samkvæmt valkosti B, kemst ekki fyrir í Seyðisfirði.Já, vissulega sendum við félagar í VÁ Sveitarstjórn Múlaþings og Heimastjórn Seyðisfjarðar bréf, sem líka var birt á Austurfrétt vegna lítillar umræðu um þetta stóra mál. Tvenn helstu rökin varða Farice-1 strenginn og helgunarsvæði hans og verndun siglingaleiðarinnar um fjörðinn.
Ráðherrar hrukku nýlega upp við fréttir af skemmdarverkum á gasleiðslum í Eystrasalti og eru með áhyggjur af öryggi fjarskiptasambands Íslands við útlönd.
Vissulega þurfum við að hafa áhyggjur af utanaðkomandi ógn varðandi fjarskiptastrengi og öryggi þeirra.
Það þarf ekki síður að hafa áhyggjur af heimatilbúinni ógn vegna áætlana um sjókvíaeldi í Seyðisfirði. Gengið er mjög nærri Farice-1 sæstrengnum, sem liggur í firðinum, í tillögu svæðisráðs.
Öll þrjú nýtingarsvæðin í Seyðisfirði fara inn á helgunarsvæði strengsins, þegar leiðrétt hafa verið óskiljanleg vinnubrögð svæðisráðs með ranga mælieiningu.
Hér er kort af vefsjá LHG, sem sýnir heildarbreidd fjarðarins í Sörlastaðavík, þar sem sjókvíaeldi er fyrirhugað.
Innst við Borgartanga er breiddin 0.48 nl eða 889 m og yst við Ölfeyri er breiddin 0.65 nl eða 1204 m.
Hér er sama kort, sem sýnir m.a. dýptartölur fjarðarins, ljósgeirann frá Brimnesvita(svörtu punktalínurnar) og bleika línan er Farice-1 strengurinn, en við vitum ekki hvort þetta er nákvæmlega rétt staðsetning á honum. Út frá strengnum hafa verið dregnar línur í átt að fyrirhuguðum nýtingarsvæðum. Eins og sést eru þær allar 0,25 nl, þ.e. fjórðungur úr sjómílu eða 463 m, en það er stærð helgunarsvæðis strengsins öðru megin. Á þessu korti sést að helgunarsvæðið fer langt inn fyrir ljósgeirann í Sörlastaðavík. Á löggiltu siglingakorti, sem fylgdi minnispunktum Rúnars Laxdal skipstjóra til Skipulagsstofnunar, liggur strengurinn nær Borgartanga og miðju fjarðarins. Samkvæmt því fer helgunarsvæðið inn að grynningum í Sörlastaðavík. Látum strenginn njóta vafans. Það er eins augljóst og hugsast getur að utan helgunarsvæðisins og ekki nær landi en 115 m frá stórstraumsfjöru (svæði netalaga landeigenda) er ekkert pláss fyrir neinar sjóeldiskvíar og akkerisfestingar tengdar þeim nema brjóta fjarskiptalög og ógna öryggi strengsins.
Það er gott að ráðherrar hafi áhyggjur af sæstrengjum vegna stríðsátaka í Evrópu og ættu að hafa þær líka vegna ógnar frá sjókvíaeldi. Sveitastjórnarmenn eiga líka að hafa áhyggjur af strengnum og öryggi hans.
Svo er það siglingaleiðin. Á korti úr skýrslu frá VSÓ-ráðgjöf fyrir Vegagerðina, um áhættumat siglingaleiða, sést að SN1 svæðið í Sörlastaðavík fer inn í ljósgeira Brimnesvitans. Það er brot á vitalögum.
Í skýrslunni segir: „Þar fyrir utan munu fyrirhugaðar staðsetningar í Sörlastaðavík (SN1) og í Selstaðavík (SN2) þrengja verulega að siglingaleiðinni um fjörðinn og gætu valdið hættu fyrir skip, sérstaklega stærstu skipin sem þurfa mikið svigrúm ef bregðast þarf við óvæntum atburðum“ og bent er á 10 hættur, 4 rauðar(mjög alvarlegar) og 6 gular(alvarlegar), sem sjókvíaeldi mun skapa á siglingaleiðinni um Seyðisfjörð, þó að þar sé ekkert sé minnst á að höfnin er grunnnetshöfn. Það er grafalvarlegt mál og skiptir öllu í áhættumati, því grunnnetshafnir njóta siglingaverndar.
Svona skilgreinir Samgöngustofa siglingavernd: „Hlutverk siglingaverndar felst í að gera allar fyrirbyggjandi ráðstafanir sem ætlaðar eru til að vernda sjóflutninga, skip, hafnir, farm, útgerðir og viðeigandi fyrirtæki gegn hryðjuverkum eða ógn sem stafar af vísvitandi ólögmætum aðgerðum.“
Í skýrslunni er heldur ekkert minnst á 926 m breitt helgunarsvæði Farice-1 strengsins, þó að framkvæmdastjóri Farice ehf hafi sagt að þar verði enginn afsláttur gefinn og að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af aukinni skipa- og prammaumferð nærri sæstrengjum. Í áhættumati siglinga um sjókvíaeldi í Seyðisfirði verður alla vega að taka tillit til þess að lítið sem ekkert pláss er fyrir akkerisfestingar og þjónustubáta fyrir sjókvíaeldið.
Í skýrslunni kemur fram: „Seyðisfjörður er mest um 17,5 km langur og er breidd fjarðarins mest um 1,7 km og minnst 800 m.“
Einnig kemur fram: „Kvíarnar verða festar í 8 kvía þyrpingar, sem eru staðsettar 500-800 metra frá landi og undir kvíum er 40-60 m dýpi. Til að þjónusta sjókvíarnar verða þjónustubátar og prammar í reglulegum siglingum í firðinum.“
Þetta gengur ekki upp. Fyrir það fyrsta er beðið um 12 kvíar í hverja þyrpingu og hvernig geta kvíarnar verið 500 – 800 metra frá landi meðan fjörðurinn er ekki breiðari en sést að ofan og Farice-1 strengurinn og helgunarsvæði hans eiga nánast allan fjörðinn og siglingaleiðin eru í honum miðjum.
Það er kominn tími til að kjörnir fulltrúar, sem bera ábyrgð á öllum innviðum í sínu sveitarfélagi, geri sér grein fyrir alvarleika málsins.
Kortin, sem eru hér að framan, segja allt sem segja þarf og tölurnar tala sínu máli. Það er ekkert pláss fyrir sjókvíaeldi í Seyðisfirði.
Við teljum þetta alla vega góð rök og tilefni til málefnalegrar umræðu um strandsvæðaskipulagið við Sveitarstjórn Múlaþings, því nýtingarsvæðin eru öll þrjú innan hafnarsvæðis Seyðisfjarðar.
Sveitarstjórnin hefur ekki boðið upp á það samtal hingað til.
Á sveitarstjórnarfundi 14. sept s.l., þar sem bréf okkar var tekið fyrir vorum við kölluð leikrænn og þröngur hópur, sem yfirtekur umræðuna og að aðrir þora ekki að láta heyra í sér, og að allar raddir þurfi að heyrast. Já - allar raddir eiga að heyrast og geta heyrst ef menn vilja, því nóg er plássið á öllum miðlum og fundum fyrir alla til að kynna rök sín og sjónarmið. Við höfnum því alfarið aðdróttunum um að við séum að koma í veg fyrir að aðrir komi sínum skoðunum á framfæri. Við höfum eingöngu verið benda á alvarleika málsins í heild og VSÓ skýrslan um áhættumat siglinga styður okkar mál þó að inn í hana vanti allt um grunnnetshöfn og helgunarsvæði strengsins. Við erum tilbúin í rökræður við hvern sem er hvenær sem er.
Við vitum að sveitarstjórnin er ekki að vinna strandsvæðaskipulagið, en það er mjög einkennilegt að hún hafi ekki sterkari skoðanir á stórum og miklum breytingum á hafnarsvæði Seyðisfjarðar í Múlaþingi. Hún á að hafa skoðanir á þeim og á að gæta hagsmuna allra þeirra fjölmörgu innviða, sem þar eru fyrir. Ef það er ekki gert og allt fer á versta veg er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.
Höfundar eru félagar í VÁ - félagi um verndun fjarða