Geðveikin

Val Austfirðinga á Töru Ösp Tjörvadóttur sem Austfirðings ársins er austfirski anginn af mikilli vitundarvakningu sem átt hefur sér stað á Íslandi undanfarna mánuði. Ásamt vinkonum sínum hratt Tara af stað átakinu #égerekkitabú sem fylgdi í kjölfar fleiri annarra eins og Útmeða frá síðasta sumri.


Tara ræddi veikindi sín í viðtali við Austurgluggann í lok október og kom þá inn á stöðu þeirra sem glíma við geðsjúkdóma á Austurlandi. Þar sagði hún frá því hversu erfitt það hefði verið fyrir hana að hitta alltaf nýjan og nýjan sérfræðing og þurfa að byrja á sögu sinni frá byrjun þar sem ekki voru til staðar sálfræðingar eða geðlæknar með fasta viðveru eystra.

Geðheilbrigðismál eru flókinn málaflokkur því erfitt getur verið að skilgreina nákvæmlega hvort um sé að ræða tímabundna depurð sem einstaklingurinn geti með minniháttar stuðningi unnið sig út úr eða þurfi meiri meðferð, til dæmis með lyfjum. Annað vandamál er að sjúkdómarnir voru lengi ekki viðurkenndir í samfélaginu.

Umræðan hefur opnast á síðustu árum og flestir eiga einhvern nákominn vin eða ættingja sem glímt hefur við geðraskanir. Um leið hefur vitundin um þörfina á stuðningi aukist.

En eins og Tara benti á er ekki einfalt að finna stuðninginn eystra og fleiri hafa bent á það, síðast á fundi um heilbrigðismál í Neskaupstað, þar sem fram kom að samningi við geðlækni sem þjónustaði Fjórðungssjúkrahúsið hefði verið sagt upp vegna óbærilegs kostnaðar. Þá er enginn sálfræðingur starfandi við stofnunina en fyrirheit um fjárveitingu á árinu til að ráða í hálft starf.

Í Neskaupstað er hins vegar sjálfstætt starfandi sálfræðingur sem áður vann að sálgæslu barna og ungmenna innan HSA en ekki hefur tekist að ráða í skarðið sem hann skildi eftir sig í byrjun nóvember. Í viðtali við Austurgluggann í desember talaði hann um þörfina á sálfræðiþjónustu, biðlistana sem til staðar séu og að samtalsmeðferð sé sú aðferð sem best virki. Hún sé hins vegar ekki alltaf í boði heldur ávísun á lyf.

Þegar þessar upplýsingar – og fleiri – eru dregnar saman er staðan ekki glæsileg. Starfsfólk með sálfræðimenntun er til staðar hjá Skólaskrifstofu Austurlands og félagsþjónustu sveitarfélaganna en samtöl við fólk úr geiranum benda til þess að eftirspurninni sé engan veginn annað. Það hefur meðal annars talað um að viðkomandi þurfi nánast að vera á barmi sjálfsmorðs til að komast í viðtal. Við þá stöðu er heldur ekki unað.

Hægt er að komast að hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum á Akureyri og í Reykjavík en biðlistarnir eru líka til staðar á Landsspítalanum.

Þrátt fyrir umræðuna hafa geðsjúkdómar vart enn fengið fulla viðurkenningu fjárveitingarvaldsins þar sem þjónusta sálfræðinga er ekki niðurgreidd, ólíkt annarri viðurkenndri heilbrigðisþjónustu. Skrefin eru stigin en stigin hægt. Það verður hins vegar að herða á þeim. Fólkið verður að koma vilja sínum skýrt á framfæri með að fylgja orðum eftir með kröfum um að fé verði veitt til þjónustunnar um land allt. Óbreytt ástand veldur fjölda fólks sárindum, dregur úr framleiðni samfélagsins og það sem verst er af öllu – það kostar mannslíf.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar