Gerum gott sveitarfélag betra

Það er engum blöðum um það að fletta að allar götur síðan Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður hefur hann verið kjölfestan í íslenskum stjórnmálum. Því til stuðnings má benda á að flokkurinn hefur setið í meirihluta allra þeirra ríkisstjórna sem hafa verið myndaðar og veitt flestum þeirra forystu.

Jafnframt hefur staða flokksins verið afar sterk í sveitarstjórnum landsins og í mörgum sveitarfélögum hefur flokkurinn haft hreinan meirihluta um árabil. Góðum árangri flokksins ætti ekki að taka sem sjálfsögðum hlut. Það er ekki óvarlegt að ætla að téður árangur sé ekki síst að þakka frambærilegum frambjóðendum flokksins í gegnum tíðina.

Setjum Einar Frey í 5. sæti

Laugardaginn 12. mars næstkomandi verður haldið prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Múlaþingi þar sem kosið verður um það hverjir munu verma fimm efstu sætin á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Með öðrum orðum er þarna um að ræða persónukjör innan Sjálfstæðisflokksins þar sem flokksmenn hafa raunveruleg áhrif á það hverjir eiga eftir að skipa sæti á lista flokksins í vor. Undirritaður gefur kost á sér í 5. sæti í prófkjörinu og þarf á ykkar stuðningi að halda.

Ábyrg fjármálastjórn, bættar samgöngur og betri búsetuskilyrði

Ástæða þess að undirritaður býður sig fram í prófkjörinu er gríðarlegur áhugi á stjórnmálum og þörf fyrir að bæta samfélagið. Í Múlaþingi er svigrúm til bætingar á ýmsum sviðum.

Miklar áskoranir eru fram undan í rekstri sveitarfélagsins og snúa þarf hverri krónu áður en henni er ráðstafað til að ganga úr skugga um að hún sé nýtt eins og best verður á kosið. Vinda þarf ofan af lántökum sveitarfélagsins en auka tekjur þess á sama tíma. Með lántöku er verið að velta byrðum nútímans yfir á komandi kynslóðir og slíkt ætti að forðast í lengstu lög.

Eftir áratuga langa baráttu hillir undir að loksins hægt verði að ferðast alla leiðina frá Egilsstöðum til Borgarfjarðar á bundnu slitlagi síðar á þessu ári. Þá stefnir einnig í að innan tíðar muni framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng og Axarveg hefjast. Vert er þó að hafa í huga að ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið. Næstu sveitarstjórn Múlaþings bíður að beita sér fyrir því að stjórnvöld standi við gefin loforð um framangreindar samgöngubætur og gefa hvergi eftir.

Múlaþing er sveitarfélag í fremstu röð á marga vegu. Að mati undirritaðs getur samt lengi gott batnað. Það er hörð samkeppni milli sveitarfélaga um fólk og sveitarstjórnir eiga að leggja sitt af mörkum við að gera sitt sveitarfélag að samkeppnishæfum búsetukosti. Tækifærin til að gera Múlaþing samkeppnishæfara eru óteljandi, en leggja ætti sérstaka áherslu á frekari uppbyggingu háskólanáms í sveitarfélaginu og heilbrigðari húsnæðismarkað, en forsenda þess að fólk geti flutt hingað er nægilegt framboð af húsnæði.

Taktu þátt í prófkjörinu

Undirritaður hvetur því alla sjálfstæðismenn til að taka þátt í því að gera gott sveitarfélag betra með því að kjósa í prófkjörinu á laugardaginn. Þeir sem eru ekki nú þegar skráðir í flokkinn geta gert það á xd.is. Framtíðin er björt í Múlaþingi, setjum Einar Frey í 5. sætið.

Höfundur er formaður ungmennaráðs Múlaþings, nemandi við Menntaskólann á Egilsstöðum og frambjóðandi í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar