Getum við nýtt okkur tækifæri byggð á Covid?
Frá því að ég fór að fylgjast með sveitarstjórnarmálum á Austurlandi fyrir mörgum árum hefur umræða um fjölgun opinberra starfa reglulega skotið upp kollinum. Ýmsar leiðir hafa verið farnar til að sannfæra hina kjörnu fulltrúa á Alþingi og embættismenn ríkisstofnana um tækifæri sem liggja í dreifðri starfsemi. Þrátt fyrir góðan vilja hefur reyndin orðið á þann veg að opinberum störfum hefur fækkað á landsbyggðinni og atvinnumarkaðurinn orðið einsleitari.Það er frekar kaldhæðnislegt að leggja upp með það hvort það geti falist tækifæri í Covid- faraldrinum sem lagt hefur 1,3 milljónir manna að velli og veikt 53 milljónir. Samtök atvinnulífsins hafa dregið þá ályktun, byggða á niðurstöðum frá öðrum þjóðum, að um þrjú þúsund fyrirtæki á Íslandi væru búin að eða gætu lokað varanlega, um ellefu þúsund manns hefðu misstu vinnuna og tekjutap þeirra næmi um sextíu milljörðum. Hvað er þá jákvætt við slíka ógn við líf okkar og afkomu?
Fyrir Covid var talið nánast óhugsandi að vinna fjarri ákveðnum vinnustað. Vinnustað þar sem allir starfsmenn væru undir sama þaki og hittust reglulega í mat og kaffi. Hlífðarföt og skór geymdir í sama fatahenginu og bílastæðið sem næst aðaldyrum, merkt viðkomandi starfsmanni.
Það hefur vakið athygli mína að á síðustu misserum hafa fyrirtæki og sveitarfélög á Austurlandi auglýst laus störf. Um er að ræða störf sem kalla meðal annars á menntað fólk. Við ráðningu í slíkum tilfellum fylgir oft maki sem hefur menntun á ákveðnu sviði og jafnvel starf fjarri nýjum heimkynnum. Með nýju samskiptamynstri sem fylgt hefur Covid, það er að fólk stundar vinnu fjarri vinnustað, þarf þetta ekki að vera vandamál. Tæknin hefur verið nýtt á þann máta að fólk í nánast öllum starfsgreinum vinnur fjarri vinnustað. Þá hefur dregið verulega úr fundaferðum, oft um langan veg, og í stað þess er nýttur fjarfundabúnaður sem sparað hefur ómældan tíma og fjármuni. Tækifæri hinna dreifðu byggða hafa öðlast nýja vídd í atvinnusköpun og uppbyggingu með þeim tækniframförum sem fólk og fyrirtæki hafa nýtt sér með tilkomu Covid.
Hvernig getum við nýtt okkur þessa hugarfarsbreytingu? Ein leið er að fyrirtæki og sveitarfélög á landsbyggðinni fari í markaðsátak þar sem dregnir eru fram kostir þess að búa í viðkomandi samfélagi. Skólar, fjölbreytt æskulýðs- og íþróttastarf í göngufæri frá heimili með fjölbreytta náttúru fulla af lífi í bakgarðinum. Mikilvægt er að til staðar sé aðstaða til fjarvinnu eins og unnið er að í Neskaupstað, Borgarfirði eystri og er til staðar á Seyðisfirði. Vinnustað þar sem fólk í fjarvinnu getur mætt til vinnu utan heimilis, þó svo ekki sé til annars en að hittast á kaffitímum og ekki síst að vita af fólki á vinnustaðnum.
Með tilkomu fjarvinnslustöðva á landsbyggðinni skapast ný sóknarfæri í atvinnusköpun hinna dreifðu byggða. Baráttan við stjórnvöld um flutning opinberra starfa út á land, sem skilað hefur takmörkuðum árangri, víkur og fólk velur sjálft að færa sig um set. Ákvörðunin um flutning verður því á forsendum viðkomandi persónu sem tekur hana af fúsum og frjálsum vilja með bros á vör. Þannig fáum við fólk sem líklegra er til að stoppa lengur enda ákvörðunin um flutning tekin á þeirra eigin forsendum.