Þöggun er versti óvinur fórnarlamba

kristrun_liney_thordardottir.jpg
Guðrún Heiður Skúladóttir er 22 ára gömul frá Reyðarfirði en er nú búsett í Århus í Danmörku. Frá því hún var barn hefur hún stundað glímu af kappi og unnið ýmsa titla. Þó hefur saga hennar ekki verið eintóm gleði því þegar hún var 16 ára var hún stödd í keppnisferð í Svíþjóð á vegum Glímusambands Íslands en þar varð hún fyrir kynferðislegri misnotkun af einum háttsettum stjórnanda Glímusambandsins sem var með í för.  
 
Eins og stendur í  lokaverkefni Hafdísar Ingu Hinriksdóttur um kynferðisofbeldi í íþróttum þarf þjálfarinn að tryggja börnunum öruggt umhverfi og síðast en ekki síst að vernda börnin. 

Í ágúst  árið 2007 var Guðrún stödd í keppnisferðalagi á vegum Glímusambands Íslands í Svíþjóð þar sem maðurinn sem leitaði á Guðrúnu eitt kvöldið. Maðurinn var á þrítugsaldri og bæði í sambúð og faðir. Guðrún lét einn af fararstjórum ferðarinnar vita hvað hefði gerst eftir að hafa eytt restinni af nóttinni inn á baðherbergi í áfalli en ekkert var gert en Guðrún upplifði mikla þöggun á málinu.

Eftir að Guðrún kom aftur til landsins var ekkert minnst á þetta við neinn, hvorki foreldra hennar né hana. Þar sem Guðrún var 16 ára hefðu  fararstjórarnir eða aðrir þjálfarar sem voru í ferðinni átt að tilkynna málið bæði til lögreglu og til foreldra hennar.  Guðrún hafði sjálf ekki styrk til að segja neinum frá þessu. 

Hálfu ári seinna var haldið glímumót á Reyðarfirði þar sem Guðrún bauð nokkrum vinum til sín. Seinna um kvöldið birtist maðurinn heim til hennar og biður um að fá að koma inn, hann segir henni að hann þurfi að athuga hvort örugglega sé ekki allt í lagi heima hjá henni eftir að allir fóru. Þetta kvöld beitir hann Guðrúnu kynferðislegu ofbeldi í annað skiptið. 

Guðrún lætur þá þjálfarann sinn vita sem lætur stjórn Glímusambandsins vita. Stjórnin boðar Guðrúnu á fund og rétt áður en hún mætir á fundinn hringir maðurinn og biður hana um að segja við stjórnina að hún hafi farið með rangt mál sem  Guðrún gerir ekki en stjórnin spyr hana hins vegar hvort að það sé ekki í lagi að hann klári þriggja mánaða uppsagnarfrest. Hún hefur ekki hjarta í að neita og svarar stjórninni játandi. 

Guðrún byrjaði í meðferð hjá Tryggva Sigurðssyni sálfræðingi og segir foreldrum sínum alla söguna. Þau kæra málið til barnaverndarnefndar en ekkert heyrist frá nefndinni og eftir þó nokkurn tíma fer faðir Guðrúnar til barnaverndarnefndar og spyr hvað hafi orðið um málið en þá hafði málið týnst og þau segja að þau munu taka það strax aftur upp en ekkert heyrist frá barnaverndarnefndinni. 

Eftir eitt og hálft ár þegar Guðrún er orðin 19 ára gömul ákveður hún að fara sjálf og kæra málið. Hún fær lögfræðing í gegnum ALCOA fjarðaál til að fara með málið strax í lögregluna. Þetta var mjög erfiður tími fyrir Guðrúnu því á sama tíma og hún er að berjast fyrir rétti sínum er móðir hennar að berjast við bráðakrabbamein. Einu og hálfu ári seinna vinnur Guðrún málið en maðurinn áfrýjar. Dómurinn féll þannig að hann þurfti að greiða Guðrúnu 400.000 krónur í skaðabætur og  einnig fékk hann tveggja ára skilorðsbundinn dóm. Það gefur auga leið að ef málið hefði verið kært fyrr hefði maðurinn fengið þyngri dóm.

Það er ljóst að margir aðilar brugðust Guðrúnu í þessu máli. Þetta er sorgleg saga en líklega eru margar slíkar sögur til og þessu verður að breyta. Þöggun er versti óvinur þolenda kynferðisofbeldis og kerfið verður að virka betur.

Höfundur er nemandi í kynjafræði við Verkmenntaskóla Austurlands.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar