Góðir sigrar Fjarðabyggðar og Hattar
Karlalið Fjarðabyggðar og Hattar unnu bæði sína leiki í gær. Fjarðabyggð lagði HK 3-2 meðan Höttur tók KS/Leiftur á útivelli 0-2.
Fjarðabyggð komst í 3-0 gegn HK sem lék í úrvalsdeild seinasta sumar. Högni Helgason kom Fjarðabyggð yfir eftir um kortérs leik. Eftir það réðu gestirnir nokkurn vegin ferðinni og varði Srdjan Rajkovic, markvörður Fjarðabyggðar, eitt dauðafæri og síðan frábæra aukaspyrnu. Fjarðabyggð beitti á móti skyndisóknum og virtist Stefán Þór Eysteinsson geta farið fram hjá hægri bakverðinum þegar honum sýndist.
Það skilaði ekki fleiri mörkum í fyrri hálfleik en í upphafi seinni hálfleiks skoraði Fjarðabyggð tvisvar eftir sóknir upp vinstra megin. Fyrst henti Högni sér á eftir boltanum en síðan skallaði Ágúst Örn Arnarson boltann glæsilega í fjærhornið.
Þá snérist taflið við. Eftir að hafa bjargað Fjarðabyggð í fyrri hálfleik reyndist Rajko skúrkurinn. Fyrst missti hann af langri sendingu og færði HK auðvelt mark og síðan fékk hann dæmda á sig vítaspyrnu. Hvort tveggja skilaði HK mörkum þannig að gestirnir komust aftur inn í leikinn. Þeir réðu ferðinni það sem eftir var en fengu ekki verulega góð færi. Það besta, gott skot úr teignum, varði Rajko. Fjarðabyggð hélt forskotinu og hefur náð þriðja sæti 1. deildar karla.
Höttur vann góðan útisigur á KS/Leiftri. Jóhann Klausen og Vilmar Freyr Sævarsson skoruðu mörk Hattar í síðari hálfleik.
Vilberg Marinó Jónasson skoraði mark Leiknis í 2-1 ósigri gegn Völsungi á Húsavík í 3. deild karla. Hann jafnaði leikinn en Völsungsmenn skoruðu úr víti tveimur mínútum fyrir leikslok.
Sandra Björk Sigþórsdóttir skoraði mark Hattar sem tapaði 2-1 fyrir Selfossi á útivelli í 1. deild kvenna.
Einherji og Huginn mætast á Vopnafirði í þriðju deild annað kvöld klukkan 20:00. Í hádeginu verður dregið í sextán liða úrslit bikarkeppni karla. Þar eru Fjarðabyggð og Höttur í pottinum.