Gleði og nepja öskudagsins
Þrátt fyrir snjó og garra þustu austfirsk börn og unglingar um götur bæja fjórðungsins í dag og sungu hástöfum allskyns söngva í fyrirtækjum og stofnunum, víðast við góðar móttökur. Að vanda voru þau leyst út með gjöfum eins og sælgæti, ávöxtum, drykkjum eða smáhlutum. Ætla má að kuldaboli hafi klipið í litlar tær og nefbrodda en eins og ungviðinu er tamt er slíkt ekki látið koma í veg fyrir ætlunarverk dagsins.
Þessi kríli heimsóttu Gistihúsið Egilsstöðum í dag, sungu þar Gamla Nóa og fengu hrós og góðgæti að launum.