Góð þjónusta við barnafólk er mál málanna

Héraðslistinn leggur alla áherslu á að tryggja trausta og góða þjónustu við barnafjölskyldur. Eitt af því sem þær líta til, t.a.m. við ákvörðun um búsetu, er þjónusta á leikskólastigi. Ljóst er að fjölga þarf leikskólaplássum á Fljótsdalshéraði þannig að hægt sé að mæta aukinni þörf; bæði fyrir eins árs börn og eldri en einnig fyrir börn foreldra sem eru að flytja á svæðið.

Ákveðið hefur verið að byggja við leikskólann Hádegishöfða í Fellabæ þannig að þar bætist við ein deild, fyrir 20 börn. Framkvæmdir við það verk hefjast væntanlega á árinu. Þá verður skólinn alls með pláss fyrir ríflega 60 börn en slíkur skóli ætti að þjónusta um 850 manna byggð.

Sömuleiðis hefur verið ákveðið, til að mæta bráðavanda, að opna bráðabirgðadeild í húsnæði á Egilsstöðum þar sem gert er ráð fyrir að taka á móti 20 börnum, úr yngsta aldurshópnum. Fyrirséð er að næsti árgangur leikskólabarna er ekki jafn fjölmennur og við viljum nýta það svigrúm sem það gefur til að skoða þjónustu dagforeldra og samspil leikskóla og dagforeldra. Brýnt er að sveitarfélagið auðveldi áhugasömum aðilum að stíga skrefið yfir í að verða dagforeldrar. Sömuleiðis er mikilvægt að bæta þjónustu og upplýsingaflæði til foreldra barna sem eru að sækja um dagvistun þannig að upplýsingar séu aðgengilegar á öllum stigum og berist foreldrum í tíma.

Nauðsynlegt er að huga að dagvistarmálum til lengri tíma þannig að sveitarfélagið sé viðbúið þegar þörf verður á fleiri dagvistarrýmum en nú eru til staðar. Að því þarf fræðslunefnd að huga strax í byrjun komandi kjörtímabils.

Leikskólarnir á Fljótsdalshéraði eru vel mannaðir og góðar skólastofnanir og við viljum áfram styðja við gott skólastarf. Samfélag sem ekki hlúir að börnum og foreldrum þeirra á sér ekki framtíð. Það er því forgangsverkefni Héraðslistann að búa sveitarfélagið þannig úr garði að fjölskyldur sjái sér hag í því að setjast hér að eða búa hér áfram.

Steinar Ingi Þorsteinsson skipar 1. sæti á Héraðslista

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar