Gott í gogginn: Nú er það svartfugl
Að vanda kemur Austurglugginn þeim til hjálpar sem hafa ekki hugmynd um hvað þeir ætla að hafa í matinn um helgina og birtir bestu eldhúsleyndarmál matgæðinga blaðsins á vefnum. Uppskriftir að þessu sinni koma frá Birnu Dagbjörtu Þorláksdóttur. Hún var alin upp í Grímsey þar sem svartfugl var og er oft á borðum og býður okkur upp á hátíðarútgáfu af fuglinum.
Til svartfugla flokkast álka, langvía, stuttnefja, haftyrðill, teista og lundi.
Bláberjaleginn svartfugl með villibráðarsósu
(Fyrir 3-4)
6-8 svartfuglsbringur
beikonostur og beikonstrimlar
1/2 l rjómi
Marineringarlögur
1 dl matarolía
1 krukka bláberjasulta
1 1/2 msk aromat
1/2 msk hvítur pipar
1 1/2 msk villibráðakrydd
Öllu blandað saman
Skerið bringurnar í hæfilega bita og marinerið þá í leginum í amk. 24 klukkustundir í ískáp.
Snöggsteikið bitana á pönnu þannig að þeir lokist báðu megin.
Raðið bitunum í eldfast mót og smyrjið beikonostinum yfir eða klippið beikonstrimlana og setjið á hvern kjötbita. Gott er að festa þá með tannstöngli svo þeir haldist.
Hellið rjóma yfir bitana. Bakið í 120 mínútur við 150 gráða heitum ofni. Ausið rjómanum yfir á 10 mínútna fresti yfir bitana
Villibráðarsósa
dálítið af rjómasoðinu sem kemur í eldfasta mótið
1 teningur villibráðarkraftur, uppleystur
1 tsk aromat
1/2 tsk hvítur pipar
1 tsk villibráðarkrydd
1/2 l af rjóma
1 1/2 msk mysingur
Skvetta af púrtvíni
Blandið öllu saman í pott og látið suðuna koma upp og látið sjóða í 2 mínútur. Gott að setja 1 matskeið af bláberja- eða rifsberjasultu út í.
Borið fram með ostasalati og kartöflum með osti
Ostasalat
Vínber, magn eftir smekk
1 púrrulaukur
1/2 - 1 papirika, skorin í bita
1 mexico ostur
1/2 piparostur
1 bóndabrie
1 lítil dós ananas kurl
1 dós sýrður rjómi
125 ml majones
Skerið vínber, (verkið steinana úr) grænmetið og ostana í teninga og blandið saman við sýrða rjómann, majonesið og ananaskurlið.
Kartöflur með osti
Sjóðið kartöflur og skerið í bita með hýðinu.
Raðið bátunum í mót og setjið smjörklípu hér og þar í fatið.
Kryddið ca 2 dl af matarolíu salti og pipar og smá hvítlauksdufti og hellið yfir bátana.
Stráið rifnum osti yfir og setjið í ofan þar til osturinn er bráðnaður.
Eftirréttur
1 poki makkarónukökur mulnar í fat
1 dós bláberjaskyr og 1 dós jarðarberjaskyr hrært saman
1/2 líter rjómi þeyttur og hrærður saman við skyrið, hellt yfir makkarónukökumulninginn
Mars bláber og jarðarber brytjað og sett ofan á
Gott að gera að morgni til að hafa tilbúið að kvöldi.