Gott samfélag fyrir alla
Í kosningunum 29. október eiga Íslendingar færi á að velja breytta stefnu og betra samfélag. Við í VG göngum bjartsýn til kosninga enda bjóðum við upp á skýra framtíðarsýn sem byggir á félagslegu réttlæti, umhverfisvernd og efnahagsstefnu sem setur velferð almennings í fyrsta sæti.
Innviðir og velferð
Í Norðausturkjördæmi er brýnast að hætta að vanrækja innviðina og hefja endurnýjun og uppbyggingu þeirra. Það er forsenda þess að hægt sé að blása til sóknar í atvinnumálum og bæta búsetuskilyrði í kjördæminu. Heilbrigðis- og menntastofnanir, löggæsla og margvísleg önnur grunnþjónusta er fjársvelt og nauðsynlegar framkvæmdir í samgöngumálum hafa setið á hakanum. Íbúar kjördæmisins finna fyrir aðgerðaleysi fráfarandi ríkisstjórnar á eigin skinni og þykir þetta undarlegt góðæri.
Það sem til þarf er pólitískur vilji til að nýta sóknarfærin og efla grunnstoðirnar. Slíkan vilja er ekki að finna í fjármálaáætlun stjórnarflokkanna til næstu fimm ára. VG mun hins vegar ekki hvika frá því að tryggja velferð og jöfn tækifæri fyrir alla, óháð búsetu. Það verður ekki gert með harða hægristefnu að leiðarljósi. Lykillinn er félagshyggjustjórn sem þorir að afla tekna með sanngjörnum hætti til brýnna verkefna í þágu samfélagsins.
Endurnýjun og reynsla
Við í VG bjóðum fram öflugan lista í Norðausturkjördæmi, dugmikið baráttufólk með víðtæka reynslu sem er treystandi til að láta verkin tala. Frambjóðendahópurinn dreifist um allt kjördæmið, kynjahlutföll eru jöfn, bakgrunnur fjölbreyttur og tengslin ná inn í allar helstu atvinnugreinar, sveitarstjórnarmál, menntun, menningu, félagslíf og fleira. Við í Vinstri grænum spyrjum gjarnan í þessum kosningum; hverjum treystir þú? Hvað með þennan hóp sem skipar efstu sætin á lista VG?
Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður, fyrrv. formaður VG og ráðherra.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, alþingismaður, fyrrv. náms- og starfsráðgjafi og kennari bæði á grunnskóla- og framhaldsskóla stigi.
Björn Valur Gíslason, stýrimaður, varaformaður VG og fyrrv. alþingismaður og formaður fjárlaganefndar.
Ingibjörg Þórðardóttir, framhaldsskólakennari og rokkhátíðarskipuleggjandi.
Óli Halldórsson, forstöðumaður og sveitarstjórnarfulltrúi Norðurþings.
Berglind Häsler, bóndi, matvælaframleiðandi og tónlistarmaður, Karlsstöðum í Berufirði.
Framtíðin er líka núna
Stærsta kosningamálið á landsvísu er að hefja endurnýjun innviða, efla menntakerfið, bæta kjör barnafjölskyldna, aldraðra og öryrkja og endurreisa heilbrigðiskerfið sem hefur verið fjársvelt í 25 ár. Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa bæði fyrr og nú markvisst grafið undan heilbrigðisþjónustu hins opinbera og aukið einkarekstur í kerfinu. En við munum snúa þessari þróun við og gera það sem þarf til að endurreisa heilbrigðiskerfið með stórauknum framlögum. Við munum lækka greiðslubyrði sjúklinga og eyða óvissunni um nýjan Landspítala.
En hver á að borga? Þarf ekki að hækka skatta á almenning og fyrirtæki til að standa undir þessari stefnu? Nei, svörum við. VG mun ekki hækka skatta á almenning heldur hefjast handa við að taka á skattaskjólum og skattaundanskotum, tryggja að alþjóðleg stórfyrirtæki borgi skatta á Íslandi eins og önnur fyrirtæki, að auðlindir þjóðarinnar skili fólkinu í landinu eðlilegum arði og þeir tekjuhæstu og auðugustu leggi aukalega af mörkum.
Hverjum treystir þú?
Við þurfum nýja ríkisstjórn sem hverfur af braut þeirrar hörðu hægristefnu sem fráfarandi ríkisstjórn hefur í reynd rekið. Stjórnarflokkarnir geta lofað öllu fögru á lokasprettinum fram að kosningum en það breytir því ekki að þeir hafa engan trúverðugleika. Gömlu slitnu frjálshyggjuloforðin eru ónothæf sem söluvara á Íslandi, hrunið kenndi okkur þó það. Fráfarandi ríkisstjórn hefur nefnilega gert nákvæmlega sömu mistök og gerð voru í síðasta, svokölluðu góðæri, þegar sömu tveir flokkarnir voru við völd og vanræktu heilbrigðiskerfið og aðrar undirstöður samfélagsins með hræðilegum afleiðingum.
Kosningarnar 29. október snúast því ekki um það hver getur lofað mestu á lokasprettinum því kjósendur sjá í gegnum slíkt. Þessar kosningar snúast um traust og trúverðugleika. Hverjum treystir þú?
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna
Steingrímur J. Sigfússon, oddviti framboðslista VG í Norðausturkjördæmi