Græna spjaldið
Ég hef mikið verið að velta fyrir mér kolefnisfótspori mínu síðastliðið ár og núna næstkomandi ár. Eins mikið og ég vil trúa því að það að búa í trjákofa á ströndum Indónesíu eigi eftir að létta á loftlagskvíðanum þá veit ég að það er hugsun hræsnarans. Ég er hræsnari og ég geri mér fullkomna grein fyrir því. En við erum flest, ef ekki bara öll, hræsnarar. Það er titill sem við verðum bara að gjöra svo vel að kyngja.Ég var að gamni mínu og nauðsyn að reikna hvað ég þarf að gera til að kolefnisjafna flug mitt til Indónesíu í lok októbermánaðar til að geta friðað samvisku mína. Ég og unnusta mín fljúgum frá Kaupmannahöfn með millilendingu í Doha, Qatar og eru 2,4 tonn (!!!) af koldíoxíð (CO2) sem við berum ábyrgð á . Ég veit, ég er sjálfhverfur hræsnari. Kyngi stoltinu og leita lausna til að bæta upp fyrir þetta. Því það er það sem við eigum að gera, leita lausna í stað þess að forðast ábyrgðina. Ég ætla ekki að afsaka ferð okkar til Indónesíu.
Það eru mismunandi skoðanir um það hvað við getum gert, en margir vísindamenn segja að það sem sé gott skref sé að planta fleiri trjám. Manneskjan er mis sannfærð, sumir segja að þar sé fullseint í rassinn gripið, þetta verði hvort sem er bara enn hríslur þegar heimurinn ferst. En einhversstaðar verður að byrja, það er alveg 100% víst að það verður fullseint í nokkuð gripið að gera það eftir 12 ár.
Skógar eru afar mikilvægir í kolefnisbindingu jarðar og er það viðurkennd aðferð til kolefnisbindingar. Það sem er nauðsynlegt að hugsa í kolefnisbindingu er að hugsa til langtíma, ekki leiða hjá sér aðgerðir vegna þess að við teljum þær taka of langan tíma, heldur taka af skarið og byrja vinnuna. Svo nú skulum við klára þetta litla reikningsdæmi.
Ég er með 2,4 tonn af koldíoxíði sem er að kæfa jörðina mína. Hvað þarf ég mörg tré til að kolefnisjafna? Samkvæmt reiknivél Kolviðar, sem ég hvet alla til að kynna sér á kolvidur.is, þurfum við að planta 24 trjám. Einn plöntubakki af Ösp eða svo. Það var nú ekki flóknara en svo. Það tekur þessi 24 tré þó 60 ár að vera alveg búin að kolefnisjafna þennan hálfsárs flutning. En það er þó í samræmi við aðgerðaráætlanir alþjóðasamningsins. Það má til gamans geta að áður var áætlaður bindingatími 90 ár. Mig langar að skora á ykkur öll að kíkja inn á síðu Kolviðs og reikna ykkar kolefnisfótspor, þetta er áhugavert og auðvelt.
Eins og með svo margt annað, þá er margt hægt að gera ef viljinn er fyrir hendi. Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hvernig við getum öll lagt okkar af mörkum til að kolefnisjafna og hverjir gætu staðið fyrir því.
Mig langar því að hvetja íþróttafélögin á Austurlandi til að standa fyrir kolefnisjöfnunar-degi fyrir alla iðkendur. Ég skora á alla stjórnendur íþróttafélagana að reikna til gamans gróflega hversu mikil kolefnalosun verður í kringum starfsemina, þar má telja með flug suður í keppnisleiki, íþróttamót yngstu kynslóðarinnar og allt þar fram eftir götum. Máltakið margar hendur vinna létt verk á svo sannarlega við og gæti þetta framtak orðið mikil vitundarvakning í samfélögum en ekki síður skemmtilegur fjölskyldudagur fyrir alla sem koma að starfseminni. Ég hvet félögin til að stíga risastórt skref í átt að kolefnisbindingu og verða fremst í flokki umhverfismeðvitaðra íþróttafélaga á Íslandi, jafnvel í heiminum.
Þetta er tækifæri og alls ekki last á félögin eða kvöð. Mig langar bara að hvetja kröftuga burðarbita í menningarlífi samfélaganna til að standa fyrir allsherjar vitundarvakningu. Ef allir myndu planta eins og tíu trjám á ári, í nokkur ár ættum við ekki bara orðið fallega skóga eftir nokkra tugi ára, heldur líka heiður að ótrúlega flottu framtaki til kolefnisbindingar og umhverfisverndar á heimsvísu.